03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

70. mál, Háskóli Íslands

Ísleifur Högnason:

Flokksbróðir minn, Einar Olgeirsson, hefur borið fram brtt. við þetta frv. á þskj. 205. Eins og kunnugt er, getur hann ekki mælt með þessum till. sjálfur, en ég sé með samanburði á brtt. á þskj. 341, að margt í till. fellur að ýmsu leyti saman. Fyrst er það ákvæðið um takmörkun nemendafjölda, að 2. og 3. málsgr. 2. gr. séu felldar burt. Það er alveg samhljóða: Næstsíðasti ræðumaður hefur lýst sínum ástæðum fyrir því, hvers vegna hann vilji ekki takmarka stúdentafjölda að háskólanum. Ég get tekið undir þau rök, sem hann flutti máli sínu til stuðnings, að því viðbættu, að ég vil mæla gegn þeim rökum, sem borin hafa verið hér fram, að það sé þjóðfélagsvoði, að allir menn, sem eru útskrifaðir úr háskólanum, fái ekki embætti. Það getur ekkert tjón verið að þekkingu fyrir aðra en þá, sem hafa hagsmuni af því, að menningin sé sem takmörkuðust og minnst. Þess vegna fer það ekki saman við hagsmuni þjóðarinnar í heild að takmarka nemendafjölda. Þá er lagt til í sömu brtt., að liðurinn í 4, gr. „að hafa notið kennslu í íþróttum“ falli burt. Ég veit ekki, hvert fyrirmyndin til þessa lagastafs er sótt og geri ráð fyrir, að erfitt sé að finna fyrirmynd. Ég sé ekki, að það skipti neinu máli fyrir fræðimann, hvort hann kann ákveðnar líkamsæfingar. Það væri hart að bægja manni frá því að taka próf í læknisfræði, sem ekki kynni að flá kött, eða lögfræðingi, sem ekki kynni að fara í gegnum sjálfan sig. Það er eitthvað í þessa átt, sem frv. stefnir. Auk þess hlýtur það að tefja fyrir námi stúdents, ef hann er skyldaður til að taka þátt í líkamsíþróttum með náminu. Það hlýtur að taka upp fyrir honum mikinn tíma og auka honum kostnað við að ná prófi.

Ég mun greiða þessari brtt. atkv. og óska, að hv. þm. athugi þetta um íþróttakennsluna í háskólanum áður en þeir samþ. frv.