10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

70. mál, Háskóli Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þó að þetta mál sé undirbúið af háskólaráði, sem ætla má, að í sitji okkar mestu menntamenn, sem ættu að vera þessu máli kunnugastir, vil ég bera fram brtt. við málið. Þær eru á þskj. 645 og 693. Fyrsta brtt. mín á þskj. 645 er um, að viðskiptafræðideild verði sérstök deild í háskólanum, þannig að deildirnar verði 6, í stað 5 núna. Þetta byggi ég á því, að eftir þeim kunnugleika, sem ég hef aflað mér, ætla ég, að lögfræðinemarnir hafi ærið námsefni, og ég hygg líka, að nægilegt námsefni væri handa viðskiptafræðingum. Önnur brtt. mín er bein afleiðing af þessu og þarf ekki skýringar við, sbr. 4. gr. háskólalaganna, um tölu deilda.

3. brtt. mín er við tvo staði í 2. gr. í henni felast þrjár breyt. frá því, sem er í till. háskólaráðs. Í fyrsta lagi fellur niður með minni brtt., að háskólaráð geti kveðið svo á í samþykkt, að aðeins ákveðinn fjöldi nýrra stúdenta skuli skráður í deildirnar á ári hverju. Í öðru lagi felli ég alveg burt, að gert er ráð fyrir, að þessi takmarkaði aðgangur að deildunum sé áframhaldandi, og í þriðja lagi tek ég upp það nýmæli, að inn í háskólann geti gengið aðrir en stúdentar, en vil binda það fyrst um sinn við viðskiptafræðideildina eina. Það er ljóst, virðist mér, að það þarf að opna háskólann fyrir fleirum. Ég hugsa mér, að svo verði haft sérstakt inntökupróf í viðskiptafræðideildina. Í þessu er aðalbreyt. fólgin við 2. gr.

4. brtt. leiðir af hinum, að 3. gr. falli burt. 5. brtt. er við 4. gr. Þar er um tvennt að ræða. Annars vegar er inntökuprófi í viðskiptafræðideild bætt við þau próf, sem tekin eru við háskólann, og hin er, að ekki sé gert að skyldu að kenna þar leikfimi. Bæði er ekki aðstaða til þess eins og nú standa sakir, og í öðru lagi er það svo alls staðar, að inn í háskóla ganga svo þroskaðir menn, að þeir vita bezt sjálfir, hvað. þeim hentar í þeim efnum.

Mér skildist á ræðu hæstv. forsrh., þó að hann minntist ekki beinlínis á brtt., að hann mundi verða þeim fylgjandi. Hann taldi, að þingmeirihluti mundi verða fyrir því. Ég vænti því, að brtt. verði samþ. Hann taldi reyndar, að Það mundi vera vafasamt, hvort þeir menn, sem næstir standa háskólanum, mundu sætta sig við að fá aðra en stúdenta inn í hann, en ég hygg ekki, að hér séu þeir menn í meiri hluta, sem ekki vilja leyfa öðrum en stúdentum aðgang að háskólanum, og háskólaráð verður þar að lúta vilja Alþingis. Ég get því ekki orðið, við ósk hv. frsm, meiri hl. um að taka till. mína aftur. Ég hef þá trú, að eftir mínum till, eigi að leysa málið, en ekki eftir frv., þó að það sé undirbúið af prófessorum háskólans.