10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

70. mál, Háskóli Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég þarf ekki mikið að svara þessari löngu og ýtarlegu ræðu hv. frsm. minni hl. Hann talaði um það, að mínar till. hefðu tekið miklum breytingum til bóta frá því á dögunum. Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt.

Prófessor Alexander Jóhannesson, sem hann gerði að miklu umtalsefni, var skipaður dósent árið 1925, en prófessor árið 1930. (JJ: Hann varð það skv. lögum). Mér skildist, að hv. þm. S.-Þ. hafi breytt dálítið um skoðun frá því að hann sem kennslumálaráðh. lét Alexander verða prófessor, og að hann hafi þurft til þess lengri tíma en ég að breyta till. mínum. (JJ: Þetta er vitleysa. Maðurinn var prófessor eftir lögum. Menn verða prófessorar á 6 árum hér á landi, ef þeir eru dósentar áður, en það virðist hv. þm. ekki vita). Ég ætla svo ekki að fara meira út í það.

Hvað snertir kostnaðinn, sem hann talaði mikið um að mundi aukast mjög, þá skal ég ekki leggja dóm á það, en ég hélt, að yfirleitt það fé, sem háskólinn notar, í hvað svo sem það er, það væri veitt í fjárl. Ég held líka, að Alþingi hafi yfirleitt gert mikið að því að fara yfir til fjvn. Þess vegna skildist mér, að fjvn., sem hv. þm. S.-Þ. á sæti í, hafi það í hendi sér, hvað háskólanum er ætlað í þetta og hitt.

Það má vel vera, að fjvn. hafi ekki getað gengið eins langt og hún vildi, og það kann að vera, að það sé af því, að fjvn. er farin að draga ýmis útgjöld þingsins út úr þinginu, með því að leyfa mönnum ekki að sjá, hvernig útgjöldin eru, en slengja þeim saman í einstaka liði. Það er ekki enn farið að gera það með skólamálin, en í ýmsum öðrum málum, og hver veit, nær fjárveitinganefnd býr til fjárlagalið, sem heitir „til skólamála“, og setur þar undir eitt héraðs¬skóla, barnaskóla og háskólann.

Ég ber það traust til Alþingis, þó að því hafi mistekizt , að ganga frá fjárveitingu að þessu sinni, að þá munu þm. í framtíðinni gæta hófs í fjárveitingum sínum, bæði til háskólans og við¬skiptadeildarinnar og til hvers annars, sem er.

Það getur vel verið, að þm. geti fundið upp hitt og annað til að veita fé til í bili, sem ekki er forsvaranlegt samanborið við annað, en ég held, að það gangi aldrei til lengdar. Þess vegna er ég ekkert hræddur um, að fjvn. verði svo útausandi til háskólans, að nein sérstök hætta sé hvað þetta snertir.

Þá minntist ræðumaður á það, að margir á þessu landi, bæði fyrr og síðar, hafi orðið sjálf¬menntaðir. Ég vissi ekki almennilega, hvernig ég átti að skilja það. Hvort ég hefði átt að skilja það þannig, að það hafi aldrei þurft að stofna háskólann. Að hann væri bara til bölvunar. Að þeir, sem færu í hann, þeir yrðu verri eftir en áður. Ég vissi þetta ekki. Kannske Jóhann Jósefsson hefði versnað við háskólamenntun? Og sé það trú ræðumanns, að menntun í skólum sé óþörf, hví barðist hann þá með mér og öðrum fyrir stofnun héraðsskólanna og húsmæðraskólanna?

Ég skil frsm. minni hl. svo, að aðalatriðin fyrir honum væru tvö. Það væru svo lélegir menn, sem kenndu í háskólanum núna, að þeim væri ekki trúandi fyrir kennslu.

Hv. frsm. minni hl. talaði einnig um verk¬fræðingadeild, sem verið væri að stofna og yrði mjög dýr. Hvaðan hefur hún fengið fé? (JJ: Ekki einn eyri frá Alþingi). Er það þá bara ríkisstj. á bak við Alþingi? Ég veit það ekki, en fjvn. hefur ekki minnzt á það, og að því er mér er kunnugt, þá hefur það hvergi komið fram. Ef það er rétt, þá finnst mér, að fjvn. hafi átt að gæta hófs í þessu, og þegar henni þykir of langt gengið, þá er það einmitt hennar að grípa fram í og koma með sínar till. og leggja þær fyrir þingið.

Hins vegar skildist mér, að hann væri sam¬mála mér í því, að viðskiptadeildin, hvort sem hún yrði í háskólanum eða annars staðar, yrði opin öðrum en stúdentum, og því geri ég ráð fyrir, að hann fallist á mína till. — En mér skildist hann bera kvíðboga fyrir því, að engir aðrir geti kennt þar en fastir dósentar og prófessorar. En háskólinn getur líka notið góðra manna, sem ekki eru dósentar eða próf., því að ég hygg, að það sé rétt, að Alexander Jóhannes¬son hafi, áður en hann varð dósent, haft sérstök laun fyrir kennslu í háskólanum.

Mig minnir líka, að það hafi verið tekin upp 2 þús. kr. fjárveiting sem styrkur til manna, sem hvorki eru dósentar né prófessorar, fyrir að flytja þar erindi fyrir guðfræðinga. Ég held, að það standi líka svipað á með dr. Símon Jóh. Ágústsson, að honum sé ætlað sérstakt fé til að kenna þar.

Það er að sjálfsögðu hægt að koma svipuðu fyrirkomulagi á með ýmislegt fleira, bæði gegn¬um Alþingi og ef til vill líka gegnum ríkisstj., ef svo er, að hún veitir fé til háskólans á bak við Alþingi, en ég vænti þess, að ég fái upp¬lýsingar um það. Forsrh. lýsti yfir því við l. umr. þessa máls, að háskólinn heyrði undir sig, en ekki viðskiptaháskólinn, og hann heyrði ekki heldur undir viðskiptamálaráðh. Mér er ekki ljóst, undir hvað hann heyrir, þegar eng¬inn ráðh. vill kannast við, að hann sé yfir¬maður skólans.

Ég álít, að það sé sjálfsagt fyrir framtíðina að hafa skóla, sem geti veitt sem bezta sérmenntun í viðskiptafræðum, og að með þessum skóla hafi verið stigið spor í rétta átt hvað markmiðið snertir, þó að aðra leið hefði átt að fara og sjálfsagt sé að setja þessa deild sem einn lið í háskólann. Og sjálfsagt er, að menn komist þar inn, þó að þeir hafi ekki stúdents¬próf, ef þeir að öllu leyti fullnægja þeim kröfum, sem inntökuprófinu fylgja. Þess vegna álít ég, að eigi að samþ. þá brtt., sem ég legg hér fram, ekki vegna þeirra pilta, sem nú hafa verið í viðskiptaháskólanum, sem allir eru stúdentar, heldur vegna framtíðarinnar. Ég tel, að skapa eigi möguleika fyrir aðra en stúdenta til þess að komast inn í þessa deild, og ekki aðeins þessa deild, heldur álít ég, að trúhneigðir menn, sem ekki eru stúdentar, eigi að hafa rétt til þess að ganga inn í prestaskólann og þá náttúrlega undir inntökupróf. Og þær breyt. geta komið¬seinna, þó að þær séu ekki gerðar nú.