10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

70. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Hv. 1. þm. N.-M. bætti nokkuð við sína fyrstu ræðu, og ætla ég að gera um það nokkrar athugasemdir.

Ég get vel skilið, að þessi hv. þm. hafi ekki munað eftir 1., sem Héðinn Valdimarsson kom með frv. um á þing fyrir 1930, sem mæla svo fyrir, að þegar einn maður hefur verið dósent í sex ár við Háskóla Íslands, verður hann prófessor. Og leiðréttist þetta hér með.

Þá kennir hv. þm. fjvn. um það, ef ógætilega er eytt peningum hjá háskólanum. Hv. þm. virðist ekki vita, að til sé nokkuð, sem heitir fjáraukal. Eins og ég, hef upplýst í mínu nál., veitir ríkisstj. háskólanum nokkra fjárhæð án þess að hera það undir þingið til þess að halda uppi kennslu í hagfræði, á sama hátt og þingið veitir nokkurn námsstyrk til stúdenta, sem samkvæmt l. fá 1200.00 kr. styrk til útlanda. Og mér finnst, að hv. þm. ætti að vita, að svona fjárhæðir veitast hjá öllum ríkisstj.

Ef við tökum þá tvo ráðh., sem bezt hafa kunnað að fara með ríkiskassann, þá Jón Þorláksson og Eystein Jónsson, þá hefur það alltaf verið svo hjá þeim, að það hefur ekki aðeins skipt hundruðum þúsunda, heldur millj. kr., hjá hvorum þessara manna, sem útgjöld ríkisins fóru fram yfir þá fjárveitingu, sem ætluð var á fjárlögum. Það er þess vegna leiðinleg vanþekking hjá hv. 1. þm. N.-M., þegar hann býst við, að fjvn. geti gripið inn í það, sem gert er á þennan hátt. Fjvn. er engin yfirstjórn. Og það er því ekki hennar að meta það, hvort ríkisstj. hafi á réttu að standa: Það er ákaflega merkilegt, að hv. þm., því hann er enn þá með þeim titli, skuli vera svona ákaflega montinn af sinni frammistöðu í skólamálum. Ég held, að hann hljóti að lenda í alveg sérstökum vandræðum með sjálfan sig, þegar þessu þingi lýkur, er hann er dæmdur til þess, samkvæmt hans skoðun, að hverfa úr þinginu. Við höfum, eftir því sem hann segir, kosið okkur sjálfir. Þeir af okkur, sem lifa, munu halda áfram þingstörfum framvegis eins og. ekkert hafi í skorizt, og erum við ekki í neinni mótsögn við sjálfa okkur. En þessi hv. þm., sem hefur álitið, að við værum ólöglegir, getur ekki annað en dregið sig út úr þessum skarkala, vegna þess að hann hlýtur að fyllast viðbjóði af að vera með okkur, sem í hans augum erum óleyfilegir og ólöglegir. Og ég sé ekki annað en hann megi tala með sárum trega um framtíðina, þegar hans gamla umboð hverfur.

Hv. þm. sagði, að það væri mótsögn í því, sem ég hefði bent á með dæmum um sjálfmenntaða menn í verzlunarstéttinni, því honum fannst ég vilja meina með því, að tilgangslaust og skakkt væri að hafa nokkurn viðskiptaháskóla. En hv. þm. ætti að geta skilið það, að úr því að ég var í þeirri n., sem átti þátt í því, að þessi tilraun var gerð, þá mundi ég vera fylgjandi málinu. Og þetta kom líka glögglega fram í ræðu minni; að það væri hinn mesti gróði fyrir okkur, að til væri þungur skóli með þungu inntökuprófi, þar sem duglegir menn gætu fengið mikla þekkingu á stuttum tíma og gjarnan stundað sína atvinnu fyrir því. Ég álít t. d., að piltar, sem væru starfandi við verzlun hjá kaupmönnum eða kaupfélögum, mundu, ef þeir væru sæmilega röskir, læra í raun og veru meira heldur en þarf til stúdentsprófs. Þess vegna er það allt annað, þegar heimtað er af mönnum t. d. 12 ára nám, sem í raun og veru verður beinlínis, þegar heimtuð er stúdentsmenntun. Það er þess vegna af því, að hv. 1. þm. N.-M. hefur ekki viljað skilja þetta mál, að hann hefur ekki séð, að einmitt skólinn, eins og hann er stofnaður, er alveg að þessu leyti miðaður við kröfur lífsins sjálfs.

Þá talaði hv. þm. um það, að það væri alveg óþarfi að hafa nokkurt framhaldsnám, menn gætu orðið ágætir án þess. En einmitt brtt. hans eru svo tilfinnanlega gallaðar, að þær koma ekki til greina, því með þeim er liðsauki í þeim ófriði, sem dr. Alexander hefur komið á stað.

— Vill hv. þm., að allir stúdentar komist að skólanum og aðrir menn að auki?

Sumir stúdentar eru duglegir menn, sumir lélegir menn, en það skiptir ekki svo miklu fyrir dr. Alexander, hann vill fjölga deildum háskólans til þess að geta tekið á móti sem flestum stúdentum. Hann vill eins konar atvinnubót með þessu.

Það, sem þarf í þessu máli, og það, sem einmitt hefur verið gert ráð fyrir í því uppkasti reglugerðar, sem hér liggur fyrir, er nýtt inntökupróf í þennan viðskiptaháskóla, sem er að nokkru leyti léttara en stúdentspróf og að nokkru leyti þyngra próf, þannig að þeir, sem búnir eru að stunda verzlunarstörf, standa betur að vígi, og svo er einnig í reglugerðinni gert ráð fyrir miklu meiri þekkingu í íslenzkum bókmenntum heldur en stúdentar yfirleitt hafa. Í stuttu máli, það eru allt aðrar kröfur en við stúdentspróf.

Það, sem verkfallspiltarnir settu fyrir sig var, að ef viðskiptaháskólinn verður ekki innlim- aður í Háskóla Íslands, yrði hann svo lélegur og prófið svo lítils virði, að þeir yrðu dregnir niður af mönnum, sem koma seinna, og séu minni menn fyrir sér. En svo er ekki samræmi í þessu hjá þeim. Því að þegar þessir sömu piltar vissu, að prófið ætti að verða þyngra heldur en meðalstúdentspróf, þá settu þeir það

líka fyrir sig, því að þeir treystu sér þá ekki til að bæta því við sig, sem þyrfti fyrir það próf.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að viðskiptaháskólinn heyrði ekki undir neinn sérstakan ráðh. og þess vegna væri það mjög erfitt fyrir þá, sem þar væru. Ég vildi þá spyrja hv. þm., undir hvern heyrir brezka stjórnarskráin. Hún heyrir ekki undir neinn. Samt lifir eftir henni stærsta veldi heimsins. Ég efast um, að það geri Bretaveldi til á neinn hátt, þó að enginn sérstakur ráðh. hafi skrifað. undir stjórnarskrána. Og ef þetta veldi getur staðizt á þennan hátt, þá býst ég við, að eins lítið fyrirtæki og slíkur skóli, sem viðskiptaháskólinn er, geti það.

Þó að þessir verkfallspiltar taki ekki próf, þá býst ég við, að þeir af þeim, sem dugnaður er í, fái eitthvað að gera, og það verður þeirra lífsins próf, sem gildir fyrir þá.

Annars býst ég við, að hægt verði að fá einhvern ráðh. til þess að skrifa undir reglugerð skólans, þegar skólinn losnar við áganginn frá dr. Alexander.

Það er leiðinlegt, að hv. 1. þm. N.-M. veit ekki, hvernig stendur á um Björn Guðfinnsson. Hann er settur dósent við háskólann til þess að kenna það, sem dr. Alexander getur ekki kennt, og til þess að bæta upp þær eyður í dagsverki þess manns, sem hefur sent, þennan ófrið inn á Alþ. með. framferði sínu. Og af því að ég býst við, að hv. 1. þm. N.-M. hafi borið sig saman við rektor háskólans í fleiru undanfarið, ætti hann að vita þetta.

Ég hafði beint nokkrum fyrirspurnum til meðnm. minna, og kom það í ljós, að þeir höfðu ekki mikinn áhuga fyrir málinu né heldur þekkingu. Og skoða ég það sem æskilegan hlut, ef þeir gefast upp í umr. og með því að sýna opinberlega það, sem kom fram á nefndarfundunum, að þeir vita ekkert um málið og eru því algerlega ókunnugir.

Þegar kemur að atkvgr., mun ég mæla með því, að allar till. hv. 1. þm. N.-M. verði felldar og síðan samþ. dagskrá sú, sem ég hef tekið upp eftir hv. þm. V.-Húnv. Og ef hún skyldi falla, þá sé greitt atkv. á móti frv. til þess að sýna, að einhverjir séu a. m. k. til innan þessara þingsala, sem ekki kunna við, að menn eins og dr. Alexander séu með ófrið og verkföll á móti Alþ. Það getur verið, að hv. 1. þm. N.-M. og frsm. meiri hl. kunni við það. Annars er það sama, hvort dagskráin verður felld, því að það verður þá háð barátta um þetta á næstu missirum. Það er þess vegna enginn fengur, þó að frv. verði samþ., því að þá byrjar baráttan um að rífa niður þær meinlokur, sem með samþ. frv. yrðu að 1., og laga háskólann á miklu fleiri sviðum, og það bíður reyndar líka næstu mánaða og missira fyrir því.