12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

70. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Þetta mál hefur verið rætt allýtarlega við 2. umr., og ég get verið þakklátur á margan hátt mínum kæru meðnm., vegna þess að það kom í ljós, að þeir sannfærðust af þeim rökum, sem ég kom fram með, um að þetta frv. væri nú ekki ætlað til lífs. En alveg sérstaklega finnst mér hafa verið heppilegt, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði við síðustu umr., því að hann, sem annars hefur reynt að laga frv. frá sínu sjónarmiði, komst þannig að orði, að þetta frv. væri óskapnaður, sem alls ekki mætti lifa lengur og verða starfsskrá fyrir mannfélagið. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. sessunaut mínum um það, að þetta sé rétt, og mín afstaða hefur algerlega byggzt á því, að þetta frv. hafi verið þannig, sem hann lýsir. Þessi hv. þm. reyndi fyrst að bæta það með því að leggja til að fella niður 75% af efni þess. Og þegar hann sá, að það dugði ekki, lagði hann til að umbreyta þeim 25%, sem voru eftir. Og þegar það var ekki samþ., þá komst hann að þessari niðurstöðu, og ég hygg hún sé algerlega rétt.

Ég þykist vita, að hæstv. forseti muni ljúka umr. nú, en láta atkvgr. fara fram, þegar allir eru viðstaddir, sem hér eiga sæti.