26.05.1941
Efri deild: 68. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

157. mál, stríðstryggingafélag skipshafna

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti! Sú brtt., sem ég minntist á á laugardaginn, að væri í prentun, er nú fram komin, og stendur sjútvn. samhuga að henni. Þessi brtt. er á þskj. 639, og þar sem fram var komin önnur till. frá sömu n., sem gekk skemmra, er hún breyt. á þeirri till.

Svo er til ætlazt og eiginlega lofað af hæstv. ríkisstj., að í Nd. verði gerð breyt. á stríðstryggingu ísl. sjómanna, sem stendur í nánu sambandi við þá breyt., sem er farið fram á að gera á 1. um Stríðstryggingafélag íslenzkra skipshafna. Miðar þessi breyt. að því að gera Stríðstryggingafélaginu kleift að færa niður iðgjöld af vélbátaflotanum í bærilegt horf, frá því sem nú er, en allir telja, að með þeim sé bundinn óbærilegur baggi þessari útgerð, baggi, sem menn hafa sennilega ekki gert sér grein fyrir, hve þungur yrði, þegar sú heimild var sett að láta stríðstryggingar ná til allra fiskiskipa hér við land.

brtt., sem sjútvn. flytur, ætti að gera stríðstryggingunni kleift að lækka iðgjöldin til nokkurra muna, ef breyt. á stríðsslysatryggingu sjómanna, sem verður flutt í Nd., gengur þar í gegn. Að iðgjöldin hafa verið ákveðin svo há, þ. e. 21 kr. og rúmlega 50 aur. á viku á hvern mann, stafar af því, að í 1. eins og þau eru og eftir reglug. virðist það vera skylt að skoða sem slys af ófriðarorsök, ef bátur ferst við strendur landsins og orsök er að öðru leyti ókunn, jafnvel í því veðri, sem alls getur verið von. Stríðsslysatryggingin tók upp þá stefnu að skoða sem stríðsslys hvarf vélbáts á þessari vertíð og gerir því ráð fyrir, að innheimta verði iðgjöld, svo sem ég hef lýst, frá því um áramót. Nú er venjuleg slysatrygging óháð þessari tryggingu, og kostar hún 4 kr. á viku fyrir hvern mann. Þessar tryggingar samanlagðar mundu nema á 16. þús. kr. árlega t. d. á 30 tonna bát, sem fer einn á síld og auk þess er gerður út á vertíð hér syðra og að einhverju leyti á haustvertíð. Þó er ótalið, að víðast er eigendum bátanna gert að skyldu að greiða eitthvert gjald til sjúkratryggingarinnar.

Í öllum helztu verstöðvunum hefur innheimta þessa háa iðgjalds komið sem reiðarslag nú um vertíðarlokin, því að fæstir útgerðarmenn munu hafa gert sér grein fyrir því, að til slíks mundi koma.

Sums staðar hefur verið talið lítt þarft að hafa stríðstryggingu fyrir fiskibáta við strendur landsins, en það geri ég ekki að mínum orðum. Hafa mótmæli borizt víða að.

En þetta mál hefur líka aðra hlið, þ. e. að séð sé fyrir því, að aðstandendur þeirra sjómanna, sem kunna að farast, standi ekki alveg berskjalda, ef slík slys ber að höndum. Sú nauðsyn er ekki minni en verið hefur. Það viðurkennir sjútvn. líka, og er því lausn málsins í því fólgin að breyta löggjöfinni um Stríðstryggingafélag ísl. skipshafna þannig, að komið geti til álits stigmunur á því, að hve miklu leyti skuli líta á bátstapa undir óþekktum kringumstæðum sem verandi af völdum ófriðar, og fari þá bætur eftir því, sem álitið er líklegt í hvert skipti. Ef þannig þykir alveg óhugsandi, að bátstapi geti verið af völdum ófriðar, er heimilt að fella niður með öllu ófriðarbætur, og kemur þá aðeins hin venjulega slysatrygging.

Þessar takmarkanir eru óhjákvæmilegar, ef unnt á að vera að hafa iðgjöldin svo í hófi, að bátaflotinn geti risið undir þeim. — Þessi ákvæði snerta aðeins fiskibáta við strendur landsins, en ekki báta eða skip í millilandasiglingum. Það er öllum ljóst, að tryggingar á lifandi og dauðu eru nauðsynlegar, en þeim verður að vera hagað á þann veg, að viðkomandi atvinnuvegur geti risið undir þeim, hvað iðgjaldagreiðslur snertir, því að öðrum kosti sprengja þær sig sjálfar. Og ef framfylgja ætti núverandi reglugerðarákvæðum og kröfum tryggingar stjórnarinnar á hendur bátaútveginum, yrði það til þess að koma málinu í óefni.

Í mótmælum víðs vegar að hafa menn sagt, að þeir sjái sér ekki fært að halda þessari útgerð áfram, ef svo hár tryggingarskattur verður af þeim krafinn. Í breyt. þeirri, sem áformað er að gera á hinum 1. í Nd., er gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki að sér að greiða nokkurn hluta af tryggingariðgjöldunum. — Ég vildi aðeins bæta þessu við til skýringar.

Loks er það svo 2. brtt. okkar, sem er þess efnis, að aftan við 6. gr. 1. bætist: og hvíla sem lögveð á skipinu. — Við sáum okkur ekki annað fært en að setja þetta ákvæði, svo að iðgjöldin náist inn.

Ég vona svo, að hv. d. fallist á þessar brtt., er ég hef hér lýst.