26.05.1941
Efri deild: 68. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

157. mál, stríðstryggingafélag skipshafna

Sigurjón Á. Ólafsson:

Þegar þetta mál var á dagskrá hér í gær, óskaði ég þess, að það yrði ekki tekið til umr., vegna þess að ekki var útséð um samkomulag við ríkisstj. Þetta samkomulag mun þegar tryggt og verður borið fram í Nd. af allshn., sem hefur þetta mál til meðferðar þar.

Þegar þetta frv. kom hingað í hv. d., þá vildi ég ekki vera flm. að því, vegna þess að í frv. er ekki gert ráð fyrir mannbótum, þegar um slys er að ræða, sem ekki er fyllilega upplýst, hvernig að höndum hefur borið. Þegar þessi trygging komst á, þá var gert ráð fyrir, að fyrir slys, sem verða af ósönnuðum orsökum, komi fullar bætur. Þetta var tekið eftir enskri fyrirmynd, því lík ákvæði eru í hliðstæðum tryggingarfélögum hjá Bretum. Nú á að fara að breyta þessu, og tel ég það ekki rétt. Síðasta málsgr. 1. gr. l. um Stríðstryggingafélag íslenzkra skipshafna hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Trygging samkv. l. þessum tekur einnig til þess, er skipshöfn ferst með skipi, sem týnist án þess að spyrjist, hversu týnzt hefur.“

Hér er því tvímælalaust gert ráð fyrir að bæta fyrir slys, sem verða af óvissum orsökum. Með því að fella úr gildi þessa málsgr., eða hér um bil, þá er farið í bág við grundvöll þann, er var fyrir tryggingunum. Þess vegna get ég ekki verið með að gera þessa málsgr. óvirka og get þar af leiðandi ekki fallizt á frv. eins og það er á þskj. 568. Eins og kunnugt er, þá breyttust öll skilyrði til fiskveiða hér við land síðast liðið haust, þegar Bretar tilkynntu, að tundurdufl yrðu lögð víða á fiskimiðum í kringum landið. Þetta gerði fiskveiðar ótryggar. Hæstv. félmrh. lét þá leita álits sérfróðra manna um hættu þá, er stafaði af þessum tundurduflalögnum. Þeir álitu áhættuna mikla að stunda fiskveiðar á eða í námunda við þessi svæði.

Í 1. gr. 1. nr. 66 frá 7. maí s. 1. er heimild fyrir ráðh. til ákvörðunar um hættusvæðin. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Tryggingin nær til þeirra skipa, sem sigla á svæðum, er félagsmálaráðh. ákveður á hverjum tíma með reglugerð:

Svo var reglug. sett um þetta þ. 24. des. 1940, og nær tryggingin til allra íslenzkra fiskiskipa, 12 rúmlesta eða stærri. Að öðru leyti læt ég nægja að vísa til þessarar reglug.

Nú kom til kasta stríðstryggingarstjórnarinnar að ákveða iðgjöldin, og valt þar á miklu. Svo varð dráttur á að innheimta iðgjöldin, og var ekki hafizt handa fyrr en um mánaðamótin apríl-maí þ. á. Þá kom í ljós, að þau voru ákveðin helmingi lægri en skipa, sem sigla til útlanda. Greiðsla fyrir mann var 21.50 kr. á viku. Þetta er saga málsins í aðalatriðum.

Þetta hefur verið rætt í n., og ég þakka nm. fyrir þann skilning, sem þeir vildu sýna í þessu, um að lækka iðgjöldin, en kippa ekki af tryggingum, sem sjómenn gátu vænzt, ef slys ber að höndum. Nú er svo, ef skip ferst hér við ströndina, að fyrir því liggja óþekktar ástæður, þegar enginn er þar til sagna. Því hefur verið haldið fram, að bátur frá Ísafirði hafi farizt á dufli, en enginn er þar til sagna. Eins er með togarann Gullfoss. Sumir telja, að hann hafi farizt af hernaðaraðgerðum, aðrir, að hann hafi farizt af völdum óveðurs. Vegna þess hve 1. gr. tryggingarl. var „absolut“, þá væru allir þessir menn tryggðir, en brtt. hafa nú komið fram, sem heimila að draga úr greiðslu um þriðjung, eða tvo þriðju hluta, allt eftir því, hve stríðsorsakir eru mikið valdandi slysinu.

Ég mun ekki hafa þetta miklu lengra, því að þetta liggur ljóst fyrir, en ég þakka meðnm. mínum fyrir góðar undirtektir viðvíkjandi minni till., því þá er mínum aðaltilgangi náð. Ég hef verið með í þessum brtt. eftir að hafa rætt við tryggingarstjórnina og séð, að ekki fékkst heppilegri lausn málanna.

Við höfum orðið fyrir tilfinnanlegu manntjóni á þessum vetri, og sjóðurinn hefur næstum gengið upp til mannbóta. Nú verðum við að byggja á bjartsýni og vona, að slysin minnki, því að ef þau vaxa, þá er hætt við, að iðgjaldagreiðslan verði of lítil. Hér er reyndar um misjöfn sjónarmið að ræða, en ég vona, að þetta gangi samt hljóðalítið, það sem eftir er, og ég tek undir með öðrum hv. þm., að þessi gjöld voru þungur baggi fyrir hin smærri skip, og jafnvel óviðráðanleg.