13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

157. mál, stríðstryggingafélag skipshafna

Ísleifur Högnason:

Þessi till. til breyt. á l. er nýkomin hér fyrir þessa hv. d. í frv.-formi, og er það nú fyrst, sem ég sé þá breyt., sem gerð hefur verið í hv. Ed. En með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hér upp kafla, sem ég ekki felli mig við í 3. málsgr. 1. gr. frv., sem er svo : „nema sérstaklega hafi verið um samið milli útgerðarmanns og stríðstryggingafélagsins ....“ Það er einkennilegt, að ekki skuli sjómenn sjálfir vera þarna tilnefndir sem samningsaðilar, að þeir geti, ef þeir vilja, tryggt sig fyrir stríðshættu. Ég álít, að það komi þó harðast niður á fjölskyldum sjómanna, ef þeir farast, hvort sem það er af völdum styrjaldaraðgerða eða á annan hátt.

Ég mun við 3. umr. koma með brtt. í þá átt, að sjómönnum sé heimilt að tryggja sig gegn ákveðnu viðbótargjaldi, en það skuli ekki fara eftir geðþótta útgerðarmanna sjálfra, hvort það er gert eða ekki, hvort sem þessi vöntun er af athugaleysi n., sem um þetta hafa fjallað, eða blátt áfram vegna þess, að þeir menn, sem með málið hafa haft að gera, álíti sjómenn svo lítilsvirði, að ekki sé takandi tillit til þeirra óska í þessu efni. Það væri fróðlegt að heyra, hvers vegna útgerðarmenn eru tilnefndir sem samningsaðilar í þessu efni, en ekki skipshafnirnar sjálfar.