15.04.1941
Efri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

85. mál, tollskrá

Bernharð Stefánsson:

Í grg. frv. er tekið fram, að nm. í fjhn., sem frv. flytur, áskilji sér óbundin atkv. um einstök atriði þess. Ég skal geta þess, að n. hefur ekki haldið fund um málið síðan hún flutti það, en frv. er flutt samkv. beiðni hæstv. fjmrh.

Nú kvaddi ég mér ekki hljóðs til að boða sérstakar brtt., en þó vildi ég benda á það, að áður en málið er útrætt hér í hv. d., ber að ræða það í n., eins og önnur mál, sem til hennar er vísað. Ég hef að vísu ekkert við það að athuga, að málið gangi nú til 3. umr., en mælist til þess við hæstv. forseta, að því verði ekki hraðað svo til 3. umr., að n. geti ekki athugað það á ný, því að verið gæti, að ástæða þætti til að koma með einhverjar brtt. Mun Framsfl. hafa hug á því, ef samkomulag næðist um það, að koma fram tollalækkunum á nauðsynjavörum í sambandi við þetta mál, og því hreyfi ég þessu hér.