15.04.1941
Efri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

85. mál, tollskrá

Páll Zóphóníasson:

Það er greinilegt, hvert stefnir hjá hv. frsm. n., sérstaklega ef athugað er frv. hans um lækkun á tekju- og eignarskatti. Það á að lækka gjöldin á efnamönnum, en aftur á móti á að halda tollunum á nauðsynjum almennings, svo að menn verði að borga háa tolla fyrir allar nauðsynjar, og að þeir hvíli jafnt á öllum, er þeirra þurfa, jafnt fátækum og ríkum. Þeir, sem hafa á aðra milljón kr. í tekjur, eiga að fá tekjuskattsívilnun, en að hætta að nota þá heimild, sem er í tolllögunum, við innheimtu tolla af stríðsfrögtum, og að leggja til að lækka tolla af lífsnauðsynjum, svo dýrtíð í landi hér minnki, það hugkvæmist n. ekki. Henni hugkvæmist það eitt að lækka skatta á þeim, sem nógar hafa tekjurnar. Og svo fæst hún ekki einu sinni til þess að halda fund.

Ég vil leyfa mér að mælast til, að þetta mál verði tekið af dagskrá að þessu sinni og komi ekki á dagskrá aftur, fyrr en n. hefur komið sér saman um að lækka tolla á kornvörum og sykri og hætta að láta reikna tolla af stríðsfrögtum.