15.04.1941
Efri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

85. mál, tollskrá

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég skildi engan veginn hv. 1. þm. Eyf. svo, að hann væri að sneiða að mér, en ég vildi ekki láta sýnast svo af þingtíðindunum, sem einhver ágreiningur væri milli okkar. Svo vil ég endurtaka þá ósk

mína, að maður verði látinn koma í nefndina frá Alþfl.

Þá verð ég að segja, að ræða hv. 1. þm. N.-M. var mér hálfgerð hebreska, og skildi ég hana ekki vel. Hann gaf í skyn, að samtímis því, að ég spyrnti á móti breytingum á tollskránni, bæri ég fram frv. um lækkun á tekju- og eignarskatti. Þetta er ein flétta af vitleysum. Brtt. þær, er ég ber fram við tollskrána, eru aðallega í þá átt að lækka tollana. Hitt atriðið, stríðsfragtirnar, er spursmál fyrir sig, og býst ég ekki við, að hann eða ég ráði við það. Annars er allt of mikið gert úr því, hverju þetta nemur, og ríkisstj. hefur auk þess heimild til að fella það niður. Ætti hv. þm. að beina geiri sínum að henni um að nota þá heimild.

En um hitt frv., sem hv. þm. minntist á, er það að segja, að það kemur hér bráðlega til umr., og ætti því ekki að fara að ræða það að þessu sinni. Það, sem hv. þm. sagði um það, er þó ekki rétt. Hann taldi, að það væri um lækkun á tekju- og eignarskatti. L. um þetta eru frá árinu 1935, en síðar var samþ. heimild handa stj. til að kalla skattinn inn eftir hærri skattstiga en þeim, sem ákveðinn var 1935. Það er nú ekki ætlazt til, að þessi skattstigi sé lækkaður, heldur hækkaður. En þessi frv. tvö, sem nú hefur verið útbýtt, eru samin eftir langar og erfiðar umr. og að undangenginni nákvæmri athugun.

Ef menn óska einhverra breytinga á þessu tollskrárfrv., er sjálfsagt að tala um það mál, þó þannig, að hættuleg töf verði ekki að því. Vegna anna dróst það of lengi, að n. flytti frv., og vildi ég sízt, að það yrði því að fótakefli. Fulltrúi Alþfl. í n. (ErlÞ) er að vísu forfallaður enn, og maður í stað hans hefur ekki komið enn, en þó mundi það nú fyrir engu standa, ef nauðsyn ber til að kalla saman fund um þetta frv.