13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

85. mál, tollskrá

Magnús Gíslason:

Ég hef borið hér fram brtt. á þskj. 183, sem fer í þá átt að lækka verðtoll á þakhellum, sem tilbúnar eru úr asbest og sementi. Af þessu byggingarefni hefur lítið verið flutt inn enn sem komið er, en það hefur þó verið notað hér á landi og gefizt vel að áliti þeirra manna, sem skyn bera á það.

Eftir að þetta frv., sem hér liggur fyrir, hafði verið samið í fjármálaráðuneytinu, barst ráðuneytinu erindi frá þeim manni, sem aðallega hefur flutt þetta efni inn, um að það yrðu gerðar einhverjar ráðstafanir til að lækka toll af þessu byggingarefni, en hann er nú 8 aura verðtollur, en á járni er, eins og menn vita, enginn verðtollur, þannig að þessi vörutegund er ekki samkeppnisfær við þakjárn, einkanlega af því hún er nú heldur dýrari en þakjárn, Ráðuneytið sá nauðsyn þessa máls, og það er víst, að ef þetta erindi hefði borizt áður en frv. var samið, þá hefði þetta verið tekið þar með. Skrifstofa húsameistara ríkisins hefur gefið þær upplýsingar, að þetta efni sé fullkomlega eins nothæft og járn og eigi sennilega betur við loftslagið hér á landi, vegna þess að það þoli betur raka. Þetta efni hefur þann kost, að það þarf ekki að mála það eða bera neitt á það. Það er hins vegar heldur dýrara að leggja það en járn.

Úr því ég er staðinn hér upp, langar mig að minnast á brtt. fjhn., sem fer í þá átt að lækka sykurtollinn um helming og fella niður toll af kornvörum. Þetta er breyt., sem hefur í för með sér rúmlega 900 þús. kr. tekjulækkun fyrir ríkissjóð. Þetta er till., sem hefur allverulega þýðingu fyrir afkomu ríkissjóðs. Eins og menn vita, hafa fjárl. tekið þeim breyt. í meðferð þingsins, að eftir 2. umr. er greiðsluhallinn orðinn um 1 millj. og 100 þús. kr., og ef nú þarf að lækka tekjurnar um 1 millj., sem nauðsynlegt verður, ef þessi till. verður samþ., þá nemur tekjuhallinn orðið upp undir 3 millj. kr.

Hv. frsm. gat þess, að tilgangurinn með þessari till. væri sá, að reyna að hafa áhrif á verðlagið og þannig að reyna að lækka vísitöluna eitthvað, en upplýsingar lægju ekki fyrir um, hvað miklu það mundi nema. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað fengið um þetta, lítur út fyrir, að varla geti þessi tollalækkun haft nokkur áhrif á lækkun vísitölunnar.

Tollur á sykri er nú 20 aurar á hvert kg og 10% verðtollur. Lækkunin yrði því 10 aurar á hvert kg að því er þungatollinn snertir. Ef við gerum ráð fyrir, að kg af sykri kosti 50 aura, þá yrði lækkunin á verðtollinum 2½ eyrir á kg, eða 12½ aura lækkun alls á hvert kg. Við útreikning vísitölunnar er reiknað með vissu vörumagni. Af sykri eru það 133 kg, sem hagstofan reiknar með. Tolllækkunin á þessu mundi nema kr. 16.62, en ef gert er ráð fyrir, að ofan á þetta komi svo álagning, þá mundi lækkunin á sykrinum nema 17 aurum á hvert kg, eða 22.61 á 133 kg. En til þess að lækkunin á þessari vörutegund hafi þau áhrif á vísitöluna, að hún færist niður um eitt stig, þá þarf þetta magn af sykri að lækka um kr. 38.50, svo það vantar mikið upp á, að þetta geti haft þau áhrif á vísitöluna, að hún lækki um eitt stig.

Eftir því, sem hagstofan segir, verða 6.38 aur. af 180 kg, sem snertir vísitöluna, þó að hvort tveggja væri tekið saman með þeirri álagningu, sem á vörunni er, verður það ekki nema 28.00 kr., en 38.50 þarf það að verða, til þess að það geti munað einu stigi. Náttúrlega er mikið gefandi fyrir það, ef hægt væri að fá vísitöluna lækkaða, en það má ekki gera það út í bláinn og án þess að rannsaka, hvort nokkur veruleg lausn fæst með því, að hún verði lækkuð. Eftir þeim tölum, sem ég hef fengið um það, lítur ekki út fyrir, að þetta gæti haft nein áhrif til þess. Á hinn bóginn er mjög varhugavert að hrófla við eins gömlum tekjustofni eins og sykurtollurinn er. Hann er mikill tekjustofn fyrir ríkið, og menn hafa líka sætt sig við þann toll. Þó að hann væri óþarflega hár, hefur reyndin orðið sú, að tollurinn hefur verið hækkaður, og hefur sennilega aldrei verið hærri en nú. Ef þetta hefur engin áhrif, þá sé ég ekki, að það sé nokkur skynsamleg ástæða fyrir því að lækka þennan toll sérstaklega. Það má segja um kornvöruna, að það hefði aldrei átt að leggja neinn toll á hana, og ef sá tollur félli niður, mundi það þýða mikla verðlækkun, sérstaklega þó á hveiti. En ég held, að menn ættu að hugsa sig um tvisvar, áður en sykurtollurinn yrði lækkaður.