13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

85. mál, tollskrá

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Hv. frsm. sagði í ræðu sinni, að ég mundi gera nokkra grein fyrir málinu. En mér fannst hann gera alveg fullnægjandi grein fyrir því, sem vakir fyrir ríkisstj. með þessu, og allt, sem hann sagði um það, var það, sem ég vildi sagt hafa, allt frá því, að hann lýsti þeim óhug, sem þessi skerðing á tekjum ríkissjóðs mundi valda, og til þess, að hann gerði grein fyrir því, hver tilgangurinn væri, sem sé að reyna að vinna á móti dýrtíðinni í landinu. Ég hef engu við það að bæta, sem hann sagði. Mér er það ljóst, að þetta er mjög alvarleg skerðing á tekjum ríkissjóðs, en hitt er annað mál, að í augnablikinu má gera ráð fyrir því, að ríkissjóði sé alveg borgið hvað þetta snertir. Ég hef alls ekki hugmynd um það, hverjar tekjur ríkissjóðs af tekjustofnum verða, en ég hygg, að ef við horfum fram í tímann, verði óvissan meiri um afkomuna. Það, sem hún veltur meðal annars á, er einmitt þetta, hvort hægt verður að halda dýrtíðinni í skefjum. Því að ef hún heldur áfram að aukast, þá fær ríkissjóður að kenna á því ekki síður en aðrir. En hugmyndin með þessu er ekki sú, að ráðið verði að fullu niðurlögum dýrtíðarinnar. Þetta yrði aðeins einn liður í þeim ráðstöfunum, sem gerðar yrðu í þeim tilgangi. Það er svo hugsað, að þetta geti eitt meðal annars orðið til þess að fá verulega niðurstöðu, þ. e. a. s. að margt smátt gerir eitt stórt. Ef það er athugað, sem hv. 11. landsk. var að segja um þetta, þá er það náttúrlega undirstrikað með því, að það, sem hér um ræðir, er smátt. En hann virtist hins vegar líta of lítið á þetta, að margt smátt gerir eitt stórt.

Annað hef ég ekkert um þetta að segja. Ég hef nokkurn veginn sömu tilfinningu og hann fyrir þeirri skerðingu á tekjum ríkissjóðs, sem þetta frv. felur í sér, en ég tel ekki fært að standa á móti þeirri kröfu, að ríkissjóður taki þátt í því að reyna að lækka dýrtíðina.