13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

85. mál, tollskrá

Magnús Gíslason:

Mér hefur aldrei komið til bugar að neita því, að þessi lækkun á sykurtollinum gæti haft áhrif á verðlag vörunnar. Þessi millj., sem ríkissjóður fær minna í toll heldur en orðið hefði, verður eftir hjá fólkinu, sem kaupir sykurinn og kornvöruna. En það er hlutur, sem alls ekki getur réttlætt það, að Alþ. sé nauðsynlegt að taka þetta fé upp á þennan máta. Eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk frá hagstofunni, lítur út fyrir, að það gæti ekki haft þessi áhrif. Það er ekki sjáanlegt á þessum útreikningi, sem hagstofan hefur látið í té, að þessi tollalækkun mundi hafa nein veruleg áhrif á vísitöluna. Það, sem mest áhrif hefur á vísitöluna og dýrtíðina, er verð innlendu vörunnar, og hagstofustjóri tjáði mér, að 10 aura lækkun á mjólkurlítra hefði í för með sér eins stigs lækkun á vísitölunni. Ég bið menn að athuga það, hvort það er svona mikið gefandi fyrir það, þó að ef til vill á 2–3 árum takist að lækka vísitöluna um 1 stig, sem er þó óvíst. Það er óvíst, hvort það borgar sig að verja til þess 1 millj. kr. úr ríkissjóði. Ákvæðin um þakhellur og þakplötur, sem eru í brtt., legg ég sérstaka áherzlu á, að nái fram að ganga. Járn er nú svo að segja ófáanlegt. Það væri því mikils virði fyrir almenning, að þessi hái tollur verði felldur niður af þakhellum, en þær geta komið í staðinn fyrir járn. Það er ekki rétt að hafa svona mikinn mismun á þessum tveimur vörutegundum hvað tollinn snertir.