13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

85. mál, tollskrá

Páll Zóphóníasson:

Ég vil fyrst og fremst þakka n. fyrir till. hennar. Ég hygg, að þessar till. eins og þær liggja fyrir muni lækka vísitöluna nokkuð meira en hv. 11. landsk. ætlar. Hveitið eitt, sem flutt var til landsins árið 1940, kostaði í útsölu 3 millj. og 700 þús. kr. Af því var tollur 300 þús. kr., álagningin á hveitið hefur verið 48%, þannig að álagningin og hveititollurinn til samans hefur verið um 2 millj. kr., eða um 60% af útsöluverði hveitisins. Nú gengur hveititollurinn inn í vísitöluna um 6,5% og getur hann því lækkað þennan lið hennar til muna. Öðru máli er að gegna um sykurinn. Þar eru upp undir 600 þús. kr., sem ætlazt er til, að niður falli, og sykurtollurinn gengur ekki nema 4,2 inn í vísitöluna, en ég hygg þó, að það hafi áhrif á vísitöluna, þó minna sé. Þó að sykurtollurinn sé hér hár, þá er miklu minni álagning á honum heldur en á hveitinu, að ég hygg, þó að undarlegt sé. Ég hef ekki fengið upplýsingar um það hjá verðlagsn., hvað álagningin á sykurinn er mikil. (SÁÓ: Hún mun vera um 20–30%). mér telst því svo til, að ef þessar till. yrðu samþ., mundu þær koma til með að hafa þau áhrif á vísitöluna, að hún lækkaði upp undir 2½ stig.

Í sambandi við þessar umr. vil ég beina því til ríkisstj., að ég sé ekki annað en að það sé full ástæða til þess að athuga að nýju þann grundvöll, sem er fyrir þessari kaupvísitölu, sem nú gildir. Hvaða ástæða er til þess t. d. að láta það hafa áhrif á vísitöluna, þó að bíómiðar hækki, strætisvagnafargjöld hækki, dýrara verði að fara í sumarfrí, áfengi hækki o. s. frv.? Grundvöllur fyrir vísitölunni getur ekki verið annað en það, sem eru brýnustu lífsþarfir. Ég skýt þessu fram til athugunar, hvort ekki væri rétt að athuga þennan grundvöll. Ég er hv. þm. Hafnf. sammála um það, að allt það, sem er umfram lífsnauðsynjar, þurfi að falla burtu við ákvörðun vísitölunnar.