13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

85. mál, tollskrá

Jóhann Jósefsson:

Ég tek eftir því í brtt. á þskj. 470, að þeirri breyt., sem þar er ætlazt til að gera á tolllögunum, er aðeins ætlað að ná til ársloka 1942. Ég skil það svo, að aðeins sé um þær breyt. að ræða, sem á því þskj. eru, en ekki frv. sjálft, heldur séu það tímabundnar breyt. sem þar eru.

Út af þeim umr., sem hér hafa orðið vegna þess, hvernig undirstaðan er fundin undir því, sem kallað er dýrtíðarvísitala, vildi ég aðeins segja það, að hér hefur verið talað bæði af hv. 1. þm. N.-M. og öðrum hv. þm. við stjórnina, en hér er engin stjórn til þess að hlusta á. Mér finnst vera hreyft við nokkuð mikilvægu atriði, þegar rætt er, á hvaða grundvelli útreikningur hinnar svo kölluðu vísitölu skuli byggður, sem á að vera leiðarvísir og mælikvarði á svo fjarska marga hluti í þessu landi. Ef viðkomandi ráðh. hefði verið hér staddur, þá hefði ég látið mér nægja að taka undir með þeim, sem hér hafa talað um þetta efni, en svo er nú ekki. Mér virðist, að hér þurfi eitthvað meira við til þess að koma hreyfingu á þetta mál, og það liggi eiginlega næst, úr því að hæstv. stjórn er ekki viðstödd og enginn, sem getur lofað neinu fyrir hennar hönd, að gerð sé ályktun um þetta atriði, sem hv. þm. hafa vikið hér að í sínum ummælum. Það hlýtur öllum að vera ljóst, hve afskaplega það getur skekkt allan útreikning, — eins og mér hefur virzt koma fram í ræðum hv. þm. —, að teknir skuli með ýmsir óþarfir hlutir, sem alls ekki geta talizt til lífsnauðsynja, og hins vegar, ef 1til gagnrýni er höfð á því, hvað mikið af lífsnauðsynjum er talið þurfa til heimilis. Ég vil beina því til þeirra hv. þm., sem hafa hreyft þessu máli, hvort ekki muni vera nauðsyn á, að Alþingi gerði einmitt á þessum tímum gagngerðar ráðstafanir til þess að fá sem réttastan grundvöll fyrir útreikningi vísitölu, m. ö. o., að Alþingi legði það fyrir hlutaðeigandi ráðh. með viðeigandi ályktun, að hann hlutaðist til um þessi mál, en láti það ekki algerlega á vald stjórnarskrifstofu eða hagstofunnar að taka með í þennan útreikning þá hluti, sem eru algerlega óþarfir að sanngjörnum dómi Alþingis, eða allt of mikið af því, sem annars er nú þarft, en verður eins og annað að hafa takmarkaða notkun á. Maður veit, hvaða áhrif það hefur á allan rekstur, bæði hins opinbera og einkarekstur í landinu, ef þessi loftþyngdarmælir athafnalífsins í landinu, loftþyngdarmælirinn, sem við köllum vísitölu, er ekki byggður á sanngjörnum útreikningi. Mér virðist þess vegna vera fullkomin ástæða til að taka þetta til gaumgæfilegrar íhugunar, og það mjög fljótlega, áður en þinginu lýkur.