19.05.1941
Efri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

136. mál, ófriðartryggingar

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Þegar þetta frv. var fyrst til umr. hér í d., gat ég ekki verið viðstaddur og þess vegna ekki gert grein fyrir málinu. Nú hefur hv. frsm. allshn. orðað við mig, að honum þætti eðlilegt, að ég við þessa umr., þó að það sé 2. umr., gerði með örfáum orðum grein fyrir höfuðatriðum frv., og þó að þetta sé að sönnu nokkuð óvanaleg málsmeðferð, þykir mér rétt að gera þetta, þar sem frv. er flutt að minni tilhlutan og hér er um mjög veigamikið málefni að ræða. En þar sem ég geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi athugað málið, síðan það var til 1. umr ., og með því að allshn. hefur athugað það gaumgæfilega, mun ég að sjálfsögðu ekki víkja að nema höfuðatriðum málsins.

Eins og 1. gr. ber með sér, er það tilgangur l. að stofna hér ófriðartryggingu, þ. e. stj. taldi, að ófriðarástandið í umheiminum gæfi tilefni til að óttast, að einhverjar þær athafnir kynnu að verða hér á landi, sem mundu valda skemmdum eða tjóni á eignum manna, hvort heldur væru fasteignir, vélar eða vörur. Og eftir að hafa rannsakað málið, taldi stj. ekki aðra leið eðlilegri til að draga úr þeim örðugleikum, sem einstaklingar kynnu að verða fyrir af þessum ástæðum, en að bera fram þær till. um samtryggingu á þessari áhættu, sem felast í því frv., sem nú er hér til umr.

Eins og segir í grg. frv., var það Ásgeir Þorsteinsson, forstjóri Samtryggingar Íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, sem leiddi fyrst athygli stj. að þeirri nauðsyn, sem hér kynni að vera fyrir hendi. Og eftir að stj. hafði athugað hans uppástungu, fól hún honum ásamt Brynjólfi Stefánssyni, forstjóra Sjóvátryggingarfél. Íslands, forgöngu í málinu, en vegna veikindaforfalla gat Brynjólfur Stefánsson ekki haft mikil afskipti af málinu, en aðrir sérfræðingar komu í hans stað, svo að aðalmaðurinn við undirbúning málsins var fyrsti hvatamaður þess, Ásgeir Þorsteinsson. Stj. hefur gert till. um efnið, en sérfræðingar hafa hins vegar séð að sumu leyti um formið og að sumu leyti um það, sem sérfræðilega kunnáttu þurfti til.

Höfuðefni frv. er það, að setja skal á fót stofnun til þess að standa straum af tjóni af völdum hernaðaraðgerða í landinu á fasteignum og lausafé landsmanna. Skal þessi stofnun starfa í þrem deildum. Skal ein vera fyrir fasteignir, önnur fyrir vélar og tæki og sú þriðja fyrir vörubirgðir.

Það er skylt að tryggja hjá Ófriðartryggingunni allar húseignir í landinu og önnur mannvirki, og verða sett ákvæði um það af atv.- og samgmrh., hvað telja skuli tryggingarskyld mannvirki.

Í öðru lagi er skylt að tryggja allar vélar og verkfæri undir nánar tilteknum kringumstæðum, eins og getið er um í 3. kafla l.

Hvort tveggja þetta, sem 2. og 3. kafli fjallar um, er öllum skylt að tryggja og greiða visst árgjald fyrir, ef til þess kemur, að stofnunin, tekur til starfa, en það gerir hún ekki, nema hér verði tjón svo að verulegu nemi, en ef um smátjón verður að ræða, þá er gert ráð fyrir, að bætur fyrir það verði heldur greiddar úr ríkissjóði en farið verði að setja slíkt bákn af stað, því að það verður vandkvæðum bundið og ýmis fyrirhöfn í kringum það.

Gert er ráð fyrir, að þeir, sem eru eigendur fasteigna og véla, standi straum af þeim kostnaði, sem yrði samfara skaðabótagreiðslum samkv. þessum 1. Þetta er þó vissum takmörkunum háð, nefnilega þeim, að hámark iðgjalda má aldrei verða meira en 10% af heildarverði þess vátryggða. Af iðgjöldum fasteigna má aldrei innheimta meira en 1% á ári af vátryggingarupphæðinni, en af vélum og tækjum má innheimta allt að 2% á ári. Þessi munur, sem þarna er gerður, stafar af því, að fasteignir hafa varanlegra gildi heldur en vélar og tæki og því eðlilegt, að það árlega gjald af vélum og tækjum sé meira en af mannvirkjum.

Ef þessar iðgjaldagreiðslur nægja ekki til að bæta það tjón, sem verða kann, þá er gert ráð fyrir, að greiddar verði bætur úr ríkissjóði, þó eftir því, sem fé er veitt til þess á fjárl. Hugsanlegt er, að hér gæti arðið svo mikið tjón, að iðgjöld hrykkju ekki til að bæta það, og það gæti líka orðið svo stórvægilegt, að ríkissjóður væri ekki heldur fær um að bæta það. Án þess að ég fari lengra út í þá sálma eða fari að láta í ljós neina sérstaka bölsýni, þá vil ég aðeins geta um þessa hugmynd, að það gæti komið til kasta ríkissjóðs, sem þá kæmi sem nokkurs konar baktrygging, eftir að tæmdir væru þeir möguleikar, sem 7. gr. 2. kafla og 15. gr. 3. kafla gera ráð fyrir.

Svo eru ákvæði um það, eftir hvaða reglum bætur eiga að fara fram. Það er almenn regla, að það er ekki bætt nema að nokkru leyti eftir að tjón hefur verið sannað. Það er tekið tillit til veðhafa, og eins er reynt að sjá fyrir, að hvorki falli niður greiðsla á vöxtum eða tilskildum afborgunum þeirra eigna, sem fyrir skaða verða, eða skuldum, sem hvíla á þeim eignum, sem fyrir skaða verða, allt eftir nánari reglum, sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í.

3. kaflinn fjallar um vörutryggingar. Hann lýtur öðrum lagafyrirmælum, því að þeim, sem vörur eiga, er ekki ætlað, eins og eigendum húsa og véla, að standa undir iðgjaldagreiðslum, heldur er það hugsað á þá leið, að ef til ófriðartjóns kemur, sé lagt innflutningsgjald á allar vörur, sem fluttar eru til landsins, og einnig útflutningsgjald á allar vörur, sem fluttar verða frá landinu. Það er kallað í frv. að leggja aukaverðtoll á allar innfluttar vörur og sérstakt útflutningsgjald á allar útfluttar vörur. Gjaldi þessu, sem ekki má nema meira en 2 af hundraði af verði varanna, sbr. 19. gr., skal verja til þess að bæta tjón á vörubirgðum og öðru lausafé landsmanna innan lands, sem hlýzt af hernaði í landinu, sbr. 29. gr., að því leyti, sem þessir fjármunir eru ekki tryggðir á annan hátt fyrir slíku tjóni. Stj. gat ekki fundið aðra leið heppilegri til þess að bæta slíkt vörutjón, því að ef nú þegar hefði verið byrjað á að leggja skatt á — við skulum segja innflutningsgjald — og safna í sjóð, þá hefði það í raun og veru orðið skattur á neytendur, og engin leið, ef ekkert tjón hefði orðið, að úthluta honum rétt, svo að sá fengi, sem greitt hefði.

Í 20. gr. er ákvæði um það, að frá matsupphæð tjónsins dragist ¼ hluti, þó svo, að frádrátturinn nemi eigi hærri upphæð en 5000 kr. hjá sama manni eða fyrirtæki. Ég sé, að n. hefur ekki viljað fella sig við þetta, en leggur til, að mér skilst, að ekki megi draga frá nema 1/20 hluta, og get ég vel sætt mig við þá till. Það hafði að vísu verið eitthvað minnzt á það, áður eri gengið var frá frv., að það gæti verið nokkuð hart að gengið gagnvart þeim, sem vörurnar ættu, en n. hefur þá einnig tekið að sér með sinni till. að sjá fyrir umbótum á því, og er ég því samþykkur.

Þá hefur n. gert veigamiklar brtt. við þennan kafla um, að það skuli vera meginregla varðandi skaðabætur, ef til tjóns kemur, að ekki séu greiddar nema hálfar bætur, nema því aðeins, að sá aðili, sem fyrir skaða varð, færi sönnur í, að það baki honum fjárhagslega veruleg óþægindi, eða eins og n. orðar það, að hann færi sönnur á, að hann muni bíða stórfelldan fjárhagslegan hnekki, ef hann fær ekki útborgaðar frekari bætur en að framan greinir, og sé þá heimilt að greiða meiri bætur og jafnvel bæta tjónið að fullu, sérstaklega ef ætla má, að ekki sé unnt með öðru móti að afla nýrra birgða nógu fljótt. Ég er þessari brtt. eindregið mótfallinn. Það verður að vera almenn regla, þegar um er að ræða tjón á vörubirgðum,. að aðili fái það bætt þegar eftir að tjónið hefur verið sannað, eins og sala hefði farið fram. Ég hygg, að menn verði að viðurkenna, að kaupsýslumenn hafi yfirleitt ekki það ríflegt rekstrarfé, að þeir megi við því, ef slíkt tjón ber að höndum, að fastsetja kannske árum saman helming þess fjár, sem þeir eiga í vörubirgðum. Það var eftir gaumgæfilega athugun, að stj. ákvað að bera þetta ákvæði fram eins og það er í frv., að bætur skyldu greiðast þegar eftir að tjón væri sannað, hvað þennan flokk áhrærir. Um þennan kafla gilda sömu ákvæði og 2. og 3. kafla, að ef tjón yrði svo stórkostlegt, að ekki þætti fært að bæta það með þeim tekjustofnum, sem gert er ráð fyrir í frv., þá er ætlazt til, að ríkissjóður standi þar á bak við, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárl. á hverjum tíma.

Ég held, að ég sjái þá ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég man ekki til, að í kaflanum um almenn ákvæði sé neitt, sem ástæða er til að ræða um eða skýra, en það kemur kannske fram við umr., og ef eitthvað er, sem hv. þm. eða n. þætti ástæða til að fá nánari skýringu á, mun ég reyna að uppfylla það. Ég held, að ég þurfi ekki að taka fleira fram um till. n. Ég geri mig ánægðan með þær allar nema þá, sem varðar bætur fyrir tjón á vörum.