19.05.1941
Efri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

136. mál, ófriðartryggingar

Páll Zóphóníasson:

Við 2. umr. þessa máls minntist ég á, að iðgjöldin mundu koma til með að liggja mjög misjafnt á húseigendum, vegna þess að brunabótamat okkar er mismunandi. Bað ég n. að athuga, hvort hún sæi ekki leið til að láta meta til brunabóta á ný ýmsar fasteignir, til að fá meiri jöfnuð á. Við vitum, að Brunabótafélag Íslands setur mönnum í sjálfsvald, hvort hækkað sé matið um 60% eða ekki, og við vitum, að um þúsund menn hafa gert það. Hitt vitum við og, að allmargir hafa látið fara fram nýtt mat á húsum sínum hér í Reykjavík. Þess vegna er óskaplega misjafnt brunabótagjald á fasteignum eftir verðmæti. Ég vil biðja hv. n. enn á ný að athuga, hvort ekki séu möguleikar á að samræma þetta, jafnvel, ef með þarf, með því að láta fara fram nýtt mat á þeim húsum, sem ekki hefur alveg ný virðing farið fram á nýlega.

Ég skil vel bæði sjónarmiðin, sem hv. frsm. minntist á, þegar hann talaði um 4. gr., og er mjög ánægður við ríkisstj. fyrir að taka þetta sjónarmið. En af því að hæstv. atvmrh. er í d., langar mig til að vita, hvort ríkisstj. hefur hugsað sér, hve mikill munur ætti að vera á iðgjöldum. Ég geri ráð fyrir, að hún sé ekki búin að hugsa það, hvernig áhættusvæðin verða, en ég get búizt við, að stj. hafi eitthvað talað um sín á milli, hve mikinn mun hún hugsar sér á því svæði, sem borgar hæst, og því, sem borgar lægst.

Þá er það ein brtt. n., sem ég tel varhugaverða, sú 11., og leyfi mér að koma með brtt. við hana. Þessi 11, brtt. segir: „Tjón skal tilkynna Ófriðartryggingunni áður en vika er liðin frá því er það varð.“ Ég álít þennan vikufrest allt of stuttan. Að vísu eru ekki margir menn en þeir eru þó til — úti um landið, sem eiga hús í Reykjavík og kynnu að vera fjarri öllum símasamböndum og fá kannske póst einu sinni í mánuði. Að vísu mun mega segja, að þessir menn eigi að hafa umboðsmenn, sem geti tilkynnt, — því að hér er hættan mest. En mér er persónulega kunnugt, að sumir hafa engan umboðsmann. Þess vegna hef ég viljað gera þá brtt.: Tjón skal „að jafnaði“ tilkynnt. — Þá getur tryggingin gengið eftir því, að ákvæðinu sé fullnægt hjá fjöldanum; en þegar óviðráðanleg atvik hamla, megi fresturinn vera lengri laganna vegna.