19.05.1941
Efri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

136. mál, ófriðartryggingar

Magnús Jónsson:

Aðeins nokkur orð, því að ég hef ekki kynnt mér þetta umfangsmikla mál svo vel, að ég geti komið fram með ákveðnar aths. En frá formlegu sjónarmiði séð virðist mér, að í stað þess, sem stendur í upphafsorðum 1. gr., „sem ekki er vátryggt á annan hátt eða fæst bætt á öðrum vettvangi“, væri skýrara að segja: „að svo miklu leyti, sem það fæst ekki bætt á öðrum vettvangi“. — Það mætti annars hártoga þetta.

Viðvíkjandi brtt. n. við 20. gr. frv. vil ég skjóta því að, hvort ekki sé rétt að láta bætur fylgja ákveðnum hundraðshluta, einnig þegar um lausafé er að ræða. Við skulum t. d. taka innbú manna. Það virðist ekki réttlátt, að sá, sem lítið innbú á, verði að bera ¼ hluta tjónsins, en sá, sem á innbú og annað lausafé í óhófi, við skulum segja t. d. tvo lúxusbíla og annað lausafé eftir því, eða sem næmi allt að 100 þús. kr., gæti fengið greiddar 95 þús. kr.

Aftur á móti er ég frekar sammála hæstv. atvmrh. um ágreining um 22. gr. Mér finnst, að þar sem n. segir, að eigandi glataðra eða skemmdra vörubirgða skuli færa „sönnur á, að hann muni bíða stórfelldan fjárhagslegan hnekki“ o. s. frv., að það verði erfitt að sækja mál undir þessu orðalagi, og það verður naumast hægt fyrir stjórn Ófriðartryggingarinnar að fella úr skurð um, að viðkomandi hafi beðið stórfelldan fjárhagslegan hnekki. Álít ég betra, að farið væri eftir því, sem frv. sjálft kveður á um.

Viðvíkjandi brtt. hv. 1. þm. N.-M. um, að vikufrestur sé nokkuð knappur, þá virðist mér hans orðalag allt of víðtækt. Með því móti er öllum drætti beinlínis gefið undir fótinn. Helzt væri hægt að gefa einhverja heimild til undanþágu, en mjög þrönga. Ég get því ekki fallizt á brtt. hv. þm. eins og hún er.