19.05.1941
Efri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

136. mál, ófriðartryggingar

Magnús Jónsson:

Það var aðeins viðvíkjandi orðalagi 1. gr. Væri þá ekki betra að orða það þannig : „sem ekki er vátryggt á annan hátt gegn hernaðartjóni“? Um tryggingu lausafjárins er það að segja, að ég viðurkenni rök n. fyrir mun á lausafé, t. d. innbúi manna, og vörubirgðum, en ég get ekki séð neina sanngirni í því að bæta meiri hluta af dýru innbúi en ódýru. Ég veit um innbú í Reykjavík, sem eru mjög dýr. Það eru dýr bókasöfn, málverk, gólfdúkar o. s. frv., og allt þetta kostar mikið fé. En ég vil segja, að þó það sé mikill skaði að missa slíkt innbú, þá er það að jafnaði ekki tilfinnanlegra tjón fyrir eigandann en fyrir þann, sem lítið á, að missa allt sitt, og mér finnst ekki réttlátt, að þeir, sem eiga lítil innbú, verði að bera meir í hluta af tjóninu en þeir, sem meira eiga.