20.05.1941
Efri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

136. mál, ófriðartryggingar

Fram. (Magnús Gíslason) :

Herra forseti! Allshn. hefur farið aftur yfir þetta frv., nú á milli funda, og orðið sammála um að gera á því þrjár smávægilegar breytingar.

Brtt. við l. gr. fer fram á, að í stað orðanna „vátryggð á annan hátt“ komi: tryggð gegn tjóni af völdum ófriðar. — Brtt. er gerð vegna tilmæla frá hv. 1. þm. Reykv. (MJ), sem benti á, að skýrar þyrfti að kveða hér að orði en gert er í frv. Hin brtt. á þskj. 580 er aðeins sú orðabreyt., að lausafjártryggingardeild komi í staðinn fyrir „vörutryggingardeild“ í 2. gr. frv., og er það gert til samræmis við áður gerða breyt. á fyrirsögn IV. kafla, um lausafjártryggingar.

Aðrar brtt. hefur n. ekki enn fengið prentaðar, en hefur nú lagt fram skrifl. brtt. við 3. málsgr. 1. gr. frv. um, að við bætist: eða ef um umboðssölu á erlendum vörubirgðum hér á landi er að ræða, og sá aðili, sem selur þær, er heimilisfastur og greiðir öll almenn gjöld hér á landi. — En í frv. er ekki gert ráð fyrir, að tryggingin nái til slíkra vörubirgða, fremur en annarra fémuna í eigu erlendra borgara eða stofnana, og því hefur verið skotið að n., að það gæti verið ósanngjarnt í þessum tilfellum. Dæmin um þetta munu ekki vera mjög mörg, því að mjög lítið hefur verið selt hingað í umboðssölu. Þó verður að nefna það dæmi, að olíu- og benzínsala er hér mest í höndum tveggja félaga, og er annað félagið eigandi vörunnar, er það selur, en hitt selur í umboðssölu. Okkur þykir ósanngjarnt að láta aðrar reglur gilda um þetta félag, og n. vill því breyta frv. svo sem segir í brtt. Það er um tvær undantekningar frá aðalreglunni að ræða, þeirri, að tryggingin nái ekki til eigna erlendra manna, í fyrsta lagi, ef þeir eru heimilisfastir hér og greiða hér öll almenn gjöld, og í öðru lagi, ef um umboðssölu hér á landi er að ræða og sá aðili, sem umboðssöluna hefur á hendi, er heimilisfastur og greiðir öll almenn gjöld hér á landi.