20.05.1941
Efri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

136. mál, ófriðartryggingar

Sigurjón Á Ólafsson:

Ég vil ekki láta mál þetta fara út úr d. án þess að segja nokkur orð. Hv. frsm. hefur gert mjög skýra grein fyrir till. þeim, sem allshn. hefur orðið ásátt um að flytja, og fyrir efni frv. í heild. Ég verð að geta þess, að eins og kunnugt er, er prýðisgott samkomulag í þessari n., og er þar reynt að taka tillit til hinna ýmsu sjónarmiða einstakra nm. Ég hef nú ekki komið fram með neinar sérstakar till., sem ekki hafa fundið náð fyrir augum n. En við einstakar gr. hef ég komið auga á, að ef til vill er fulllangt gengið, og hefði, jafnvel verið ástæða til að gera brtt. Það hefur komið til orða, að allshn, þessarar hv. d. fengi að vera með um athugun málsins í Nd., svo að ekki þurfi að verða árekstur milli nefndanna síðar. Mun ég m. a. af þeirri ástæðu ekki hreyfa hér brtt. Þetta mál er að allra dómi mikið stórmál og hefur verið undirbúið af sérfróðum mönnum. Ég held, að hv. frsm. hafi getið þess, að við kölluðum fjóra sérfræðinga á fund n. Tveir þeirra hafa sérstaklega lagt sig fram í þessu máli, þeir Jón Blöndal og Ásgeir Þorsteinsson. Ég vildi leiðrétta það hjá hæstv. atvmrh., að ég hygg, að það séu þessir tveir menn fyrst og fremst, sem hafa lagt grundvöllinn að þessu máli, ekki hvað sízt Jón Blöndal. En það er vitanlegt, að eftir að málið kom úr höndum sérfræðinganna, tók það miklum breyt. í meðferð ríkisstj., og þær eru kannske sumar frá sjónarmiði tryggingarfræðinganna allvarhugaverðar.

Ég vil lauslega benda á, að það er nokkur ágreiningur milli sérfróðra manna um það, hvort leggja skuli þær þungu byrðar á ríkið, sem segir frá í 23. gr., og hvort leggja skuli svo þungan skatt á iðgjaldagreiðendur. Er í þessu sambandi vitnað til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur á Norðurlöndum, en öll gögn um það eru hér þegar fyrir hendi. Ég vil láta þessa getið hér, þó að engin brtt. liggi fyrir frá mér, og ég geng þess ekki dulinn, að frv. mun taka einhverjum breyt. í hv. Nd. Málið er þannig vaxið, að eðlilegt er, að sjónarmið manna verði nokkuð misjafnt. Læt ég svo úttalað af minni hálfu um málið.