14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

136. mál, ófriðartryggingar

Pétur Ottesen:

Í sambandi við þetta frv. hefur mér verið bent á það af tryggingarfróðum mönnum, að í því sé gert ráð fyrir, að ríkissjóður í vissum tilfellum leggi fram fé og taki þátt í skaðabótagreiðslum. Þessir tryggingarfróðu menn, sem ég hef talað við, hafa bent mér á það, að þar, sem reynsla hefur fengizt í þessum efnum á Norðurlöndum, þá bendi hún til þess, að yfirleitt sé reynt að hliðra sér hjá því að taka upp slík ákvæði sem þessi. Eins og kunnugt er, fengu Finnar mikla reynslu í þessu efni, og mér er tjáð, að sú reynsla er fullkomlega til varnaðar því, að gengið sé inn á þessa braut, og mér er enn fremur sagt, að þar, sem tryggingarlöggjöf gildir annars staðar á Norðurlöndum, hafi ekki þótt fært að blanda ríkissjóði inn í þetta. Ég vildi láta þetta koma hér fram til athugunar fyrir n.