16.06.1941
Neðri deild: 81. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

136. mál, ófriðartryggingar

Gísli Guðmundsson:

Ég hef leyft mér, ásamt hv. þm. Borgf., að bera fram brtt. við þetta frv. á þskj. 754. Þessar brtt. eru tvær, við 7. gr. og við 21. gr. Í 7. gr., sem er í þeim kafla, sem fjallar um fasteignatryggingar, er svo ákveðið, að ef iðgjöld, sem greidd eru, nægi ekki til að greiða fullar bætur, þá skuli bætur greiddar úr ríkissjóði eftir því, sem fé verður til þess veitt í fjárlögum. Við hv. þm, Borgf. leggjum til, að þetta ákvæði um, að bætur skuli greiddar úr ríkissjóði, verði fellt niður og að fyrst um sinn a. m. k. verði ekki önnur ákvæði um þetta í 1. en þau, að tryggingarnar standi straum af sér sjálfar, þ. e. a. s. að þau 10%, sem ætlazt er til, að greidd séu í Ófriðartrygginguna, standi straum af tryggingunni, og ef þau nægja ekki, þá verði bæturnar lækkaðar hlutfallslega. Okkur finnst það óvarlegt og ekki ástæða til þess á þessu stigi að gera ríkissjóð að baktryggingu þessara bóta á þann hátt, sem gert er í frv.

Brtt. við 21. gr. er sama efnis, en 21. gr. er í þeim kafla frv., sem fjallar um lausafjártryggingar. Það er gert ráð fyrir á sama hátt, að ríkissjóður standi á bak við, ef iðgjöldin nægja ekki, en við leggjum til, að þetta sé sömuleiðis fellt niður, en í staðinn komi, að ef iðgjöldin nægi ekki, þá skuli bæturnar lækka hlutfallslega.

Mér hefur verið tjáð, að á Norðurlöndum, þar sem sett hafa verið 1. um ófriðartryggingar, hafi hvergi verið gert ráð fyrir slíkum baktryggingum, sem þarna er gert ráð fyrir. Hef ég þetta frá mönnum, sem ég tel ástæðu til að taka trúanlega um þessi efni. Enn fremur hefur mér verið — tjáð, að af þeim 4 mönnum, sem undirbjuggu frv., en það voru allt hagfræðingar og tryggingarfræðingar, þá hafi tveir verið þeirrar skoðunar, að þetta ætti ekki að vera í frv. Ég veit ekki, hvort skoðun hæstv. ráðh. hefur ráðið úrslitum um það, að álit hinna tveggja hagfræðinganna var tekið upp í frv.

Það er ástæða til að taka það fram, að jafnvel þó að menn hugsi sér, að það geti komið til mála, að ríkissjóður taki einhvern beinan þátt í slíku tjóni sem þessu, þá virðist það ástæðulaust að ákveða nokkuð um það að svo stöddu. Það er nógur tíminn að gera það, þegar þar að kemur, sem vonandi verður aldrei. Hins vegar er of óvarlegt að setja slik ákvæði nú.