16.06.1941
Neðri deild: 81. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

136. mál, ófriðartryggingar

Gísli Guðmundsson:

Ég get út af fyrir sig verið ánægður með undirtektir hæstv. atvmrh., því að mér skilst á honum, að jafnvel þó hann væri brtt. okkar frekar andvígur, þá teldi hann ekki, að það skipti neinu höfuðmáli um 1., þó hún yrði samþ. Og ég vil þess vegna vænta þess, að það verði niðurstaðan og að við förum sömu leið í þessu efni og aðrar þjóðir, sem við höfum fregnir af, hafa farið. Það er oft hyggilegt að notfæra sér reynslu annarra þjóða, og virðist það einnig eiga við um þetta mál.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að slíkt tjón, sem hér kynni að verða af völdum ófriðarins, er tjón allrar þjóðarinnar. En það, sem um er að ræða, er þá aðeins það, hvers þjóðin verður megnug, hvað hún getur bætt og á hvern hátt sýnist gerlegt að gera það. En eins og ég tók fram, stendur það opið á sínum tíma að ákveða bæturnar, ef mönnum þá virtist það tiltækilegt eftir öllum aðstæðum.