17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

136. mál, ófriðartryggingar

Frsm. (Magnús Gíslason) :

Málið hefur borizt aftur frá Nd., sem hefur gert á því nokkrar breyt. Þessar breyt. eru flestar aðeins orðabreyt. og skipta ekki máli að því leyti, að þær breyta ekki efni frv. En þó er ein breyt., sem ég sé ástæðu til að geta um, af því að þar er um verulega efnisbreyt. að ræða frá því, sem var, þegar frv. var afgr. héðan úr d. Þessi breyt. er á 6. gr., en það var þannig ákveðið, að áfallnar bætur og eftirstöðvar þeirra skyldu ávaxtast með 5% frá því tjón yrði og þangað til bæturnar væru greiddar að fullu. Þessum vöxtum átti að verja þannig, að þeir áttu fyrst og fremst að ganga til að greiða vexti af skuldum, sem hvíldu á hlutaðeigandi fasteignum, og jafnframt vöxtunum skyldu greiddar afborganir eins og þetta fé hrykki til, en annars er gert ráð fyrir, að veittur sé gjaldfrestur á afborgunum. En í síðustu málsgr. hefur verið gerð sú breyt., að í staðinn fyrir, að eftir því, sem frv. leit út, þegar það fór héðan, að greiða átti eigendum út það, sem eftir yrði, þegar búið væri að greiða vexti og afborganir, þá stendur hér í frv., að ef eitthvað verði afgangs, þegar greiddir hafa verið vextir af veðkröfum, þá skuli allt hitt greitt til eiganda. Þetta er veruleg efnisbreyt. frá því, sem gert var ráð fyrir í frv. eins og það var, þegar það fór til Nd., og ég hygg, að þessar breyt. hljóti að stafa af einhverjum misgáningi hjá hv. Nd., vegna þess að annars staðar í frv. er líka gert ráð fyrir, að af þessum vöxtum verði líka greiddar afborganir; þannig er t. d. í 6. gr., en þar segir: „Jafnframt vöxtum greiðast afborganir af hinum þinglesnu veðskuldum, og skal draga þær frá bótunum, er þær verða endanlega greiddar.“ En þetta stangast við það, sem stendur í niðurlagi 6. gr. Sömuleiðis er í 7. gr. talað um vexti og afborganir í þessu sambandi og loks er í 30. gr. gert ráð fyrir, að taka skuli lán til þess að greiða með vexti og afborganir, ef iðgjöldin hrökkvi ekki. Allt þetta bendir til þess, að hér hafi átt sér stað misgáningur. En n. átti tal um þetta við form. allshn. Nd., og hann tjáði okkur, að þetta væri með ráði gert. En hafi svo verið, hefur láðst að breyta öðrum ákvæðum til þess að allt stangist ekki.

Vegna þess að þingslit eru ákveðin í dag, hefur n. ekki treyst sér til að gera till. til breyt. á þessu, vegna þess að ef frv. tæki breyt. hér í d., væru ekki líkindi til, að frv. næði fram að ganga, heldur verður að treysta því, ef til þess hemur, að ríkisstj. þurfi að nota heimildina, áður en Alþ. kemur saman næst, að hún breyti þá 1. þannig, að samræmi fáist í þetta, annaðhvort með því að breyta því í það form, sem það var, þegar það var afgr. héðan úr d., eða þá að þeim ákvæðum frv., sem nú eru í ósamræmi við niðurlag 6. gr., vegna þeirrar breyt., sem Nd. gerði á henni, verði breytt til samræmis við hana. í trausti þess, að ríkisstj. ráði bót á þessu, hefur n. ekki séð ástæðu til að gera brtt. við það.