10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Frv. þetta er að vísu flutt af meiri hl. hv. fjhn., og bjóst ég við, að frsm. n. mundi fylgja því úr hlaði. En grb. ber með sér, að það er flutt að minni tilhlutun. Í daglegu tali hefur þetta verið kallað dýrtíðarmálið. Það er á allra vitorði, að þau efni hafa verið til meðferðar hjá ríkisstj. og í flokkunum, frá því að Alþ. byrjaði störf sín í vetur. Hins vegar hafa komið fram nokkuð mismunandi skoðanir á því, hvort eða hve mikið vinna ætti að lausn málsins og einnig hver leið væri heppilegust til að hafa áhrif á þróunina í þessum efnum. Þrátt fyrir þessar umleitanir um málið hefur ekki fengizt samkomulag um það, hvaða leið sé skynsamlegust í einstökum atriðum. Það var um miðjan maí, að ríkisstj. fannst rétt, að skríða skyldi til skarar. Voru þá valdir í dýrtíðarnefnd tveir þm. úr hverjum stjórnarflokkanna og þeim afhent uppkast að frv. til að vinna úr. Áður en þingfundir hófust eftir hvítasunnu, afhenti nefndin frv. uppkast, sem nú hefur verið birt í einu dagblaði bæjarins. Það er byggt á sama grundvelli og uppkastið, er hún tók við frá ríkisstj. í fyrstu. En ýmsir nm. höfðu sérstöðu. Frv. var meira ábending en lausn vandans. Þar sem ekki var unnt að ná samkomulagi á þeim stutta tíma, sem til umráða var, var það ráð tekið, að ég sendi fjhn. Nd. þetta frv. og óskaði eftir, að það væri flutt í þinginu, sérstaklega til þess, að sá skriður kæmi á málið, að úrslit fengjust á einhvern hátt. Alþingi gat ekki lokið störfum án þess að til skarar skríði með þetta mál. Hvernig sem fer, vildi ég að málið fengi þá afgreiðslu, að Alþ. gæti orðið lokið fyrir næstu helgi, eða 14. þ. m. Það finnst mér vorkunnarlaust eftir allar þær umr., sem fram hafa farið um þessi efni í flokkunum.

Eins og ég tók fram í bréfi til fjhn., er þetta frv. ekki eins og ég mundi hafa flutt það af eigin hvötum, og ekki eins og verið hefði, ef ég hefði aðeins tekið tillit til skoðana Framsfl., heldur er reynt að taka tillit til manna í öllum flokkum og eins þess, sem fram kom í sex manna nefndinni. Ég geri mér því von um, að frv. geti í aðalatriðum orðið samningsgrundvöllur, þótt sjálfsagt sé að gera ráð fyrir breytingum.

Um almennar horfur á framkvæmd málsins vil ég tala síðar og einnig hitt, hvort mér finnst hægt að draga nokkuð úr þeim ráðstöfunum, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég held, að nú megi segja, að sú þróun, sem hér hefur átt sér stað, hafi valdið flestum mönnum nokkrum áhyggjum. Um það eru ekki deildar meiningar, að í óefni stefnir, þegar kaupgjald og verðlag halda stöðugt áfram að hækka hvort annað á víxl. Ég vil minna á, að fram til ársloka 1940 voru í gildi lög, sem leyfðu kauphækkun, er nam allt að 85% vísitölunnar og ekki meir, en síðan var kaupgjaldið með frjálsum samningum hækkað svo sem nam 100% vísitölunnar og fylgir henni þannig eftir. Þingið og ríkisstofnanir samþykktu þetta fyrirkomulag á sínum launagreiðslum, og nær það til opinberra starfsmanna yfirleitt. Ýmsar stofnanir, eins og Landsbankinn, höfðu áður tekið upp þetta fyrirkomulag á sínum launagreiðslum. Það er náttúrlega þægilegt fyrir marga að geta látið sér standa á sama, hvað varan kostar, því að þeim mun fleiri krónur fái þeir í laun. Og framleiðendur gætu kannske talið, að þeim mætti standa á sama um kaupgjaldið, ef vörurnar seljast þeim mun dýrar sem það verður hærra. Mér er ekki grunlaust um, að þetta kalli sumir harla gott fyrirkomulag og haldi, að með slíkri hækkun skapist aukin verðmæti. Þótt þetta geti litið vel út, fylgja því stórkostlegar hættur fyrir atvinnulífið, og það skyldi enginn ímynda sér, að með slíku kapphlaupi verði sköpuð ný verðmæti.

Þó að við getum leikið okkur með þessar tölur, ráðum við hvorki nú né síðar verðlagi á íslenzkum vörum erlendis, og þótt sumar þær vörur hafi nú hækkað þar mjög, aðrar ekki, munu þær fara lækkandi, þegar áhrif styrjaldarinnar verða minni. Því hærra verðlag og kaupgjald sem við sköpum innan lands, því stórfelldara verður tap framleiðslunnar, þegar lækkunin kemur, svo að bein hætta er á, að atvinnuvegirnir stöðvist. Þá yrði áreiðanlega erfiðara en nú að bæta úr afleiðingum þeirrar óheillaþróunar, sem hafin er. Þá yrði mikið atvinnuleysi óumflýjanleg afleiðing og stöðnun á flestum sviðum. Þá yrði annað hvort að fella gildi krónunnar enn eða lækka stórkostlega kaupgjaldið í landinu með þvingunarráðstöfunum, ef ekki fengist um það samkomulag. Því hærra kaupgjald og verðlag nú á stríðstímunum, því meiri örðugleikar síðar. Það liggur í augum uppi, eins og ég hef drepið á, að þróunin gengur ákaflega mikið í þá átt að skapa hér háan framleiðslukostnað og hátt kaupgjald og mikinn kostnað við atvinnurekstur, og það getur ekki endað öðruvísi en með stórkostlegum erfiðleikum, þegar verð lækkar á erlendum gjaldeyri. Síðast, þegar við stóðum frammi fyrir svipuðum erfiðleikum og hér verða eftir stríðið, en það var fyrir tveimur árum síðan, 1939, þá tókum við það ráð að lækka verðgildi íslenzku krónunnar, vegna þess að kaupgjald og framleiðslukostnaður var í raun réttri hærra en hægt var að borga af rekstri framleiðslunnar. Ég geri ráð fyrir því, að menn sjái þá hættu, sem er því samfara, ef menn verða nú þegar að fara að ganga út frá því, að gengi krónunnar verði fellt eftir styrjöldina, ofan á það, sem áður er komið í þeim efnum, og flestir kannast við, hversu auðvelt það er að samræma kaupgjald við afkomu framleiðslunnar á krepputímum, — eða hitt þó heldur.

Nú kann að líta svo út, að þetta, sem ég hef sagt, sé talað frá sjónarmiði atvinnurekenda einhliða. Það er mesti misskilningur, því að þegar allt kemur til alls, er ekki hægt í þessu sambandi að slíta sundur hagsmuni framleiðenda og hag þjóðarinnar í heild sinni. Það getur litið vel út fyrir launamann og verkamann að fá fullar bætur vegna dýrtíðar og að kaupið hækkar í samræmi við verðlagið. En hvernig verður svo viðhorf verkamanna, þegar næsta stíg þessarar þróunar kemur með samdrætti framleiðslunnar, vegna þess að framleiðslukostnaður er orðinn of mikill og ekki fæst það verð á erlendum markaði, sem þarf? Þá kemur atvinnuleysið. Þá er ekki lítið atriði fyrir alla launþega landsins, og ekki sízt verkamenn, hvort hægt hefur verið að halda niðri verðlaginu og kaupgjaldinu meðan verðbólgan var mest. Það verða menn að gera sér ljóst, að engum launamanni er neinn greiði gerður með því að búa til fyrir hann einhverjar háar launatölur á pappírnum, ef hann þarf þeim mun fleiri krónur til þess að lifa af.

Eitt af því, sem er allra nauðsynlegast í nútíma þjóðfélagi, er, að menn glati ekki trúnni á gjaldmiðil þann, sem þeir nota. Í staðinn fyrir vöruskiptaverzlunina, þegar menn áður skiptust á því, sem við köllum raunveruleg verðmæti, þá eru viðskiptin nú byggð á því að nota gjaldmiðil, eða peninga: Undirstaða þess, að þjóðfélag eins og okkar geti staðið á eigin fótum fjárhagslega, er sú að landsmenn eyði ekki jafnharðan öllum verðmætum, sem til þeirra berast, og að menn þori og vilji eiga peninga til þess að auka fjármagn það, sem nauðsynlegt er til nýrra framkvæmda í landinu. Nú vita allir, að eftir því sem verðlag hækkar, eftir því rýrnar raunverulegt verðgildi peninga. Og ef þar við bætist trú á það, að verðgildi peninga lækki enn meir síðar, er í því fólgin stórkostleg hætta á, að alls konar kæruleysi í peningamálum festi rætur með þjóðinni, hætta á því, að menn líti á peninga sem lítilsverða hluti, með þeim afleiðingum, sem af því verða, ekki aðeins nú, heldur einnig framvegis. Það er ekki lítil meinsemd fyrir þjóðina, ef sú skoðun festir rætur, að bezt sé að eyða öllum fjármunum, sem menn komast yfir, vegna ótta um, að þeir verði svo lítils virði.

Það er sama, frá hvaða sjónarmiði litið er á þetta mál. Það eiga allir að vilja gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir eða draga sem mest úr þeirri hækkun, sem á sér stað á verðlagi og kaupgjaldi, einmitt nú, meðan verðbólgan er mest. En til þess þarf meira en orðin tóm. Og þá er spurningin: Hvernig er hægt að gera ráðstafanir til þess að vinna í þessa átt, — hvaða leiðir eru hugsanlegar og hvers árangurs er að vænta af þeim?

Eftir því, sem fram hefur komið um þetta mál, bæði innan stjórnarinnar, frá þeim mönnum, sem ríkisstj. hefur leitað álits hjá um þessi efni, og eins hjá þeim, sem af eigin hvötum hafa ritað um þessi mál, þá virðist það liggja í augum uppi, að hér sé aðeins um tvær aðalleiðir að ræða.

Önnur leiðin er sú, að hækka gengi íslenzku krónunnar, til þess þannig að hafa áhrif í þá átt, að verðlagið og kaupgjaldið hækki minna en ella, og þá einnig og kannske engu síður til þess að hafa þá fremur einhverja möguleika síðar að breyta verðgildi krónunnar aftur til lækkunar, ef hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess, þegar verðlag fer aftur lækkandi.

Hin leiðin, sem kemur til mála, er sú, að innheimta eða taka verulega fjármuni, þar sem þeir nú eru mestir, og verja því fé beinlínis til þess að halda niðri innanlandsverðlaginu í landinu og þar með kaupgjaldinu.

Um fyrri leiðina, sem ég minntist á, gengishækkunina, er það að segja, að á síðasta ári fóru fram samningar milli brezku og íslenzku ríkisstjórnanna um viðskipta- og fjárhagsmál. Eitt af því, sem í þessu sambandi var af Breta hálfu lögð áherzla á, var að semja um það við Íslendinga, hvaða verðhlutfall skyldi vera á milli íslenzku krónunnar annars vegar og sterlingspundsins og dollars hins vegar. Íslenzka stjórnin áleit það heppilegra fyrir Íslendinga að hafa ekkert slíkt ákvæði í samningum milli landanna og áleit, að það ætti að vera mál Íslendinga sjálfra, hvernig þeir skrásettu sína krónu í hlutfalli við sterlingspund og aðra erlenda mynt. En Bretar héldu fast fram sinni skoðun á málinu. Niðurstaðan varð sú, að í samningunum við Breta var ákveðið, að það gengi, sem þá var, skyldi standa óbreytt, nema um annað semdist milli ríkisstjórnanna síðar. Af þessum ástæðum hefur sú leið ekki verið okkur opin að breyta skráningu krónunnar. Bretar hafa eigi viljað fallast á breytingu í þeim efnum. Af því hefur svo aftur leitt hitt, að ekki hefur verið gert upp hér á hæstv. Alþ., hvort Alþ. hefði viljað fara gengishækkunarleiðina, ef hún hefði verið opin.

Ég get ekki sagt um það hér á þessu stigi, hvort þessi leið verður útilokuð til frambúðar eða ekki. En hún hefur verið það, og það verður að gera ráð fyrir, að hún sé það, þangað til annað liggur fyrir. Þegar af þeirri ástæðu hefur það ekki heldur verið gert upp í ríkisstj. til hlítar, hvort hún fyrir sitt leyti mundi hafa viljað leggja til gengisbreytingu, ef sú leið hefði verið opin. Sé ég því ekki ástæðu til þess, að ég gefi hér yfirlýsingu um mína skoðun í því efni, þar sem málið hefur legið þannig fyrir og liggur þannig fyrir enn. Hitt er aftur á móti ljóst, að eftir því, sem lengur dregst að gera slíka ráðstöfun, eftir því verður það örðugra, vegna þess, hversu ört hækka innieignir íslenzkra banka erlendis. Það er augljóst, að eftir því, sem bankainnieignir verða meiri, eftir því verður það reikningslega tap, sem kemur fram við það, að gengið breytist, meira, og erfiðara að koma slíkum breytingum við; jafnvel þó að menn telji þær nauðsynlegar. Ef horfið yrði að því að breyta gengi ísl. krónu meðan innieignir bankanna eru mjög stórfelldar, þá yrði með engu móti hægt fyrir bankana að bera óstuddir þann halla, sem þar kæmi fram. Yrði þjóðfélagið að einhverju leyti að hlaupa þar undir baggann og jafna honum niður á landsmenn á einhvern hátt.

Þar sem þannig hefur verið ástatt um aðra leiðina í þessum málum, þá hefur allur undirbúningur hnigið í þá átt, að undirbúa hina leiðina, sem ég nefndi: Innheimtu fjár, sem varið yrði til þess að reyna að hamla á móti hækkun dýrtíðarinnar og þar með hækkun kaupgjaldsins. Hefur þá orðið fyrst fyrir að álykta, að eðlilegt væri, að útflytjendur, sem nú hafa undanfarið, og vonandi fá enn, þó að það sé ekki að fullu vitað, — fengið mjög gott verð fyrir sína vöru, og einmitt fengið þetta háa verð að eigi svo litlu leyti í skjóli þess, hve íslenzka krónan hefur verið lágt metin í hlutfalli við sterlingspundið, leggi eitthvað verulegt af mörkum til þess að koma í veg fyrir þá háskalegu rás viðburðanna, sem ég hef lýst. Hér má og minna. á, að þegar aftur fer að halla undan fæti, má búast við, að það komi einmitt erfiðast niður á þeim framleiðendum, sem framleiða fyrir erlendan markað, og þeir eigi því ekki hvað minnst undir því, að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar.

Þess vegna er lagt til í þessu frv., að lagt verði á sérstakt útflutningsgjald, allt að 10%, þ. e. heimilt verði að leggja það á allar útfluttar afurðir, og fénu, sem með því móti innheimtist, sé síðan varið sérstaklega til þess að lækka dýrtíðina, eða koma í veg fyrir hækkun hennar, væri sennilega réttara að segja. Það mætti segja, að þessi ráðstöfun, að taka sérstakt gjald af útfluttum afurðum, kæmi þá í staðinn fyrir hækkun á gengi íslenzku krónunnar.

Á síðasta ári var afkoma útflytjenda, a. m. k. þeirra, sem fluttu út sjávarafurðir, með eindæmum góð, og má vera, að ef þetta mál hefði komið fram meðan siglingar gengu óhindrað til Bretlands og verðlag var jafngífurlegt á fiski og það var síðari hluta síðasta árs og fyrri hluta þessa árs, þá hefði verið látið nægja að leggja til, að innheimt yrði útflutningsgjald og heimildin til þess þá höfð rýmri en nú er lagt til. En nú hafa þessi mál tekið töluvert aðra stefnu. Það liggur í augum uppi, að afkoma útflytjenda verður ekki eins glæsileg á næstunni eins og hún var síðasta ár og framan af þessu ári. Valda því ástæður, sem óþarft er að rekja hér nánar. Hitt liggur og nokkuð í augum uppi, að sá stríðsgróði, sem svo hefur verið kallaður, þ. e. það peningamagn, sem inn í landið flýtur í sambandi við ófriðinn og þau viðskipti, sem við höfum nú, bæði með vörusölu til Bretlands og í sambandi við setuliðið hér, muni dreifast meira meðal þjóðarinnar en stríðsgróðinn gerði á síðasta ári, vegna þess að allt kaupgjald hefur nú hækkað mjög verulega.

Þess vegna er einnig lagt til í frv., að fyrir utan útflutningsgjaldið verði aflað tekna til þessara ráðstafana af almennum gróða landsmanna. Það er gert út frá því sjónarmiði, að ef gera á nauðsynlegt átak til þess að stöðva dýrtíðina eða hafa áhrif á,. að hún hækki minna en ella, þá duga til þess engir smámunir og að þá verða sem flestir að leggja eitthvað af mörkum. Enn fremur ber þess að minnast, að ekki er réttmætt að ætlast til þess, að útflytjendur einir leggi fram fé til þessara ráðstafana. Það má einnig alveg sérstaklega benda á það í þessu sambandi, að það eru ekki aðeins útflytjendur, sem fá meiri tekjur að krónutölu vegna hins lága gengis krónunnar, heldur allir landsmenn, og þá ekki sízt þeir, sem fá greiðslur með mörgu móti frá hinu erlenda setuliði, sem starfar hér.

Höfuðáherzlu vil ég leggja á það, að nægilegt fjármagn fæst aldrei nema báðar þessar fjáröflunarleiðir séu notaðar.

Ég geri ráð fyrir, að ýmsum leiki hugur á að fá fram breyt. á ýmsum atriðum í sambandi við þetta almenna gjald, sem hér eru sett ákvæði um í frv., og má vel vera, að samkomulag geti tekizt um breyt. í því efni, svo framarlega sem þær draga ekki verulega úr tekjuvonum af skattinum.

Ég vil gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna þetta gjald er hugsað á lagt jafnt á allar hreinar tekjur, eftir að kemur upp að vissu marki. Hér hafa nýlega verið afgr. skattal. frá þinginu. Í þeim skattal. hafa verið ákaflega mikið lækkaðir skattar á þeim, sem hafa meðaltekjur, og talsvert á hærri meðaltekjum. Hins vegar hækkuðu mjög skattar á hærri tekjum, svo sem réttmætt var. Ég tel, að með þessari afgr. skattal. — og ég fór ekkert dult með það, þegar sú afgreiðsla var undirbúin — hafi of langt verið gengið í því að lækka skatta á þeim, sem hafa meðaltekjur og nokkuð þar yfir. Hins vegar mun það svo hafa verið sameiginlegt álit flestra þingmanna, að eigi vær í auðvelt að ganga lengra í skattaálagningu á hæstu, tekjur nema með gerbreyttu fyrirkomulagi, sem ekki fékkst samkomulag um að taka upp. Af þessum ástæðum er ekki í þessu frv. gert ráð fyrir stighækkandi skatti, heldur er frv. byggt á því, að þingið sé búið áður að gera mismun á skattgreiðslum meiri en ástæða sé til að óbreyttum grundvelli skattaálagningarinnar. Þess vegna er það talið eðlilegt, að þessi skattur sé jafn af hverju hundraði, þegar komið er yfir visst hámark skattskyldra tekna. Ef skatturinn væri lagður á eftir öðrum skattaálagningarreglum, mundi skatturinnverða töluvert hærri af háum tekjum en flestir hv. þm. mundu sætta sig við. En af miðlungstekjum mundi skatturinn verða lægri með því móti en ég fyrir mitt leyti teldi eðlilegt. Ég ætla að nefna eitt dæmi til þess að skýra þetta nánar í skattal., sem afgr. voru hér af þinginu, er gert ráð fyrir, að allar tekjur séu lækkaðar með umreikningi áður en skattur inn er lagður á, um það, sem verðvísitalan sýnir, að verðlag hefur hækkað. Einstaklingur með 10 þús. kr. tekjur mundi hafa átt að borga án Þessa umreiknings 720 kr. í skatt, en af því að þessi umreikningur var samþ. á Alþ., ætti þessi maður að borga 420–430 kr. Mér finnst það ekki ná nokkurri átt, að einhleypur maður með 10 þús. kr. tekjur eigi að borga einar 420 kr. til opinberra þarfa, eins og nú standa sakir. Þegar allir eru í rauninni sammála um, að almennri fjárhagslegri þróun í landinu stafi stór hætta af því gífurlega aukna peningaflóði, sem hefur orðið á stuttum tíma, þá er ekki nokkurt vit í að lækka skatta á einhleypum manni með Þessar ástæður úr rúmum 700 kr. í rúmar 400 kr. Það er bókstaflega skylda Alþingis að koma í veg fyrir þetta, og það væri blátt áfram sorglegt tímanna tákn, ef menn veigruðu sér við að samþykkja þessar tillögur mínar um tekjuöflun. Það mun láta nærri, ef þetta frv. verður samþ. eins og það liggur fyrir, að þessi maður mundi þurfa að borga rúmar 300 kr. í viðbótarskatt til þess að halda niðri dýrtíðinni. M. ö. o., hann yrði að borga, að þessum skatti viðbættum, álíka mikið og hann hefði orðið að borga án „umreiknings“ eftir skattal., sem nú gilda.

Ég legg mikla áherzlu á, að þessi skattur verði samþ., að hann byrji með fullri hæð á miðlungstekjum og sé jafn hundraðshluti á tekjum þar yfir, og vil ég athuga að ákveða fastar um persónufrádrátt en gert er ráð fyrir í frv., til þess að koma í veg fyrir, að skatturinn geti orðið tilfinnanlegur fyrir þá, sem hafa verulegan fjölskylduþunga.

Ég hef nú gert nokkra grein fyrir málinu almennt og tekjuöflunarleiðunum, en ætla nú að víkja að því, hvernig ég fyrir mitt leyti hugsa mér, að því fé yrði varið, sem ætlunin er að innheimta skv. frv. Það er skemmst frá því að segja, að ég hef hugsað mér, að því yrði fyrst og fremst varið til þess að lækka útsöluverð á brýnustu nauðsynjum, bæði erlendum og innlendum. Það er hægt að hugsa sér framkvæmd á því með ýmsu móti. Tökum t. d. innlendu vörurnar. Þeir, sem sér staklega hafa það trúnaðarhlutverk að ákveða verðlag á þeim, mundu dæma, eins og verið hefur, um það, hvað vær í hið sanngjarna og eðlilega verðlag, en síðan mundi ríkisstj. verja fé, eftir því sem hægt væri, til þess að reyna að lækka þetta verð til neytenda og koma þannig í veg fyrir, að það þyrfti að verka með fullum þunga til hækkunar á vísitölunni. Ég get tekið dæmi: Nú hefur nýlega verið ákveðið af mjólkurverðlagsnefnd, að verðlagið þyrfti að hækka um 7 aura lítrinn. Ég hef hugsað mér, að það yrði sennilegast eitt fyrsta verk. stj., ef frv. yrði samþ., að gera Það upp við sig, hvort hún hefði nóg fjárráð til þess að lækka útsöluverð mjólkurinnar um þessa 7 aura og koma þannig í veg fyrir, að vísitalan hækkaði. Viðvíkjandi erlendum vörum er hægt að hugsa sér ýmiss konar aðferðir, t. d. að velja úr fáeinar vörutegundir, sem allir nota. Á þeim væri síðan, eins og hér liggur fyrir till. um frá fjhn., felldur niður tollur til bráðabirgða og síðan greiddur beinlínis úr dýrtíðarsjóði einhver hluti af flutningsgjaldi, en um leið mundi verðlagsnefnd setja fast verð á vöruna. Yrði þá gengið eftir, að verzlunarálagningin yrði eins lítil og rannsókn sýndi, að frekast væri hægt að komast af með. Hve langt væri hægt að komast í því að stöðva þá þróun, sem verið hefur um skeið, er erfitt að segja, en hitt er hægt að segja; að allar þær ráðstafanir, sem gerðar eru í þessa átt, verka til þess að gera erfiðleikana minni síðar og til þess að halda uppi verðgildi peninganna. Það er því engu tapað, því undir öllum kringumstæðum mundi verðlagið og vísitalan hafa hækkað meira, ef ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar. Þess vegna þarf enginn að óttast, að með þessu móti yrði nokkrum fjármunum kastað á glæ, því allt mundi þetta verka í eina og sömu átt, einmitt til þess að draga úr þeim háskalegu afleiðingum, sem fyrirsjáanlegar eru af áframhaldandi ótakmarkaðri hækkun verðlags og kaupgjalds. Það mundi svo m. a. fara eftir verðlaginu í öðrum löndum, hvort hægt yrði að stöðva hækkun vísitölunnar eða lækka hana. Það er engu hægt að spá um það fyrirfram, en hitt er ljóst, að allar þessar ráðstafanir gera ástandið betra en það hefði orðið, ef ekkert hefði verið aðhafzt. Ég vil mjög alvarlega benda mönnum á, að það þarf verulega fjármuni til þess að hægt sé að gera sér vonir um það, sem kalla mætti nægilegan árangur í þessu efni. Þetta er ósköp eðlilegt, þegar tillit er tekið til þess, að þessar ráðstafanir ættu að koma í staðinn fyrir gengishækkun. Mönnum hættir við að láta sér vaxa í augum þá flutninga á fé manna á milli, sem gerðir eru með því, sem kalla mætti beinu móti (sköttum), en taka minna eftir því, sem gert er, þegar gildi peninga er breytt, enda þótt séu með einu pennastriki gerðar enn stórfelldari ráðstafanir. Menn mega því ekki láta sér vaxa í augum, þótt hér þurfi mikils við. Ég vil sérstaklega taka það fram, að ég tel fulla þörf á því að nota allar heimildirnar, sem hér er gert ráð fyrir, að fullu til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessum málum. Eins og ég hef áður sagt, er ég fús til að ræða breytingar á frv., en ekki þær, sem draga úr fjáröflunarmöguleikum, nema það sé þá bætt um leið.

Þá skal ég að lokum koma að öðrum þætti þessa máls, sem er engu síður mikilsverður. Eins og gerð er grein fyrir í grg. frv., þá er ráðgert, að ríkisstj. hafi ekki aðeins heimild til þess að verja fé til þess að reyna að lækka dýrtíðina innanlands, heldur standi einnig opið að verja fé til þess að styðja þær framleiðslugreinar, sem erfiðlega gengur vegna óhagstæðra viðskiptaskilyrða. Hér er byggt á því, að það sé óeðlilegt, að framleiðandi, sem verður fyrir því óhappi, að hans vara hækkar ekki nægilega í verði þrátt fyrir styrjöldina, beri einn af því skaðann, en annar, sem verður fyrir því happi, að hans vara margfaldast í verði, njóti þess algerlega. Það er gert ráð fyrir, að hægt sé að verja af þessu fé til þess að bæta upp verð þeirra afurða á erlendum markaði, sem verða útundan að því er verðlag snertir, og það er bezt að taka það fram, að það er nokkur hætta á því, að þetta geti átt sér stað og allar líkur til þess, að verulegra fjármuna verði þörf í þessu skyni. Ríkisstj. mun vera sammála um, að nauðsynlegt sé að hafa heimild til þess að afla fjár til að jafna metin, ef svo kynni að fara, að einhverjar framleiðsluvörur yrðu út undan í þessum efnum. Þetta er rétt að taka skýrt fram, vegna þess að slíkar ráðstafanir eru nokkuð annars eðlis en þær, sem ég hef mest rætt, en engu síður mikilsverðar og nauðsynlegar.

Ég minntist á það áðan, að þetta frv. væri ekki að efni til eins og ég mundi hafa haft það, ef ég hefði borið það fram eins og mér fyndist nauðsynlegt að taka á þessu máli. Ég skal sérstaklega taka það fram í því sambandi, að eins og nú er komið, mundi ég hafa álitið eðlilegt að gera ráðstafanir til að festa kaupgjaldið eins og það er nú. Það er að segja, að ekki væri leyfilegt að hækka grunnkaupgjald nema um 53% frá því, sem það er nú. Það hefði ég talið nauðsynlega byrjun eins og málin standa nú, og að jafnframt yrði gert allt, sem unnt væri, til þess að koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar. Þetta vil ég segja sem mína persónulegu skoðun. Ég hef ekki lagt þetta til, af því að ég veit, að því fer alls fjarri, að um það mundi nást samkomulag. Ég hef því ekki viljað blanda því inn í flutning málsins:

Ég skal ekki reyna meir á þolinmæði hv. þm. Ég geri ráð fyrir, að margir vilji taka til máls; og hef orðið þess var, að margir eru þegar búnir að kveðja sér hljóðs. Ég vildi skjóta því til hæstv. forseta, að mikils virði væri það, ef hægt væri að ljúka 1. umr. nú í dag. Þá vildi ég beina því til fjhn. d., að hún taki málið til athugunar á fundi hjá sér, enda þótt því verði ekki til hennar vísað, þar sem meiri hl. hennar hefur flutt það, og taki málið til meðferðar í kvöld og á morgun. Einnig vildi ég skjóta því til n., hvort hún vildi ekki leita samvinnu við fjhn. Ed. til þess að auka líkurnar fyrir því, að málið fái skjóta afgreiðslu. Það er búið að ræða málið mjög mikið í flokkunum — og það ætti að vera hægt að ráða því til lykta svo snemma, að þingstörfum yrði lokið fyrir helgi.