10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég skal nú lofa þeim, sem á eftir mér eru á mælendaskrá, að verða ekki langorður. Hæstv. félmrh. hélt hér langa ræðu og lýsti yfir því, að hann teldi mjög nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir aukning dýrtíðarinnar, en ágreiningurinn væri einungis um leiðirnar til þess. Mér fannst öll hans langa ræða svo einhliða, að hann geti ekki búizt við, að röksemdaleiðsla hans verði talin fullnægjandi. Hann taldi enga trygging fyrir því, að verðlag gæti lækkað eða haldizt óbreytt með þessum ráðstöfunum, og aðallega virtist hann óttast verðhækkun íslenzkra afurða, sem seldar eru á innlendum markaði. Hana vildi hann fyrirbyggja með því að taka úrskurðarvald verðlagsákvörðunar úr höndum nefnda þeirra, sem þar hafa verið gerðar að dómstólum og eru skipaðar fulltrúum neytenda jafnt sem framleiðenda og oddamanni frá ríkisstjórninni. Ríkisstj. getur með atkvæði oddamanns ráðið miklu um þá hlið dýrtíðarvarnanna, sem nefndirnar annast, svo að þar virðist ekki brýn þörf breytinga. — Hvorki hæstv. ráðh. né hv. þm. Seyðf. minntist hins vegar á það einu orði, að hætt væri við, að kaupgjald í landinu yrði spennt of hátt og að það hækkaði dýrtíðina, og þó er ekkert meiri né óviðráðanlegri þáttur í dýrtíðinni. Þetta kalla ég einhliða sjónarmið. Hvers vegna á að neita sumum stéttum um að hækka söluvöru sína, en leyfa launastéttunum að fá síhækkandi laun eftir fullri vísitölu dýrtíðarinnar og þó meira, ef svo bíður við að horfa? Ég er reiðubúinn til þess að fylgja því, að rammar skorður séu reistar gegn ótakmarkaðri hækkun innlendrar framleiðslu innan lands, en jafnframt verður að gera slíkt hið sama um kaupgjaldið.

Menn hafa minnzt á það, að frv. sex manna nefndarinnar væri allt annað og betra en þetta frv. Það eru aðeins tvö veruleg atriði, sem á milli ber annað er það, að hér er ekki gert ráð fyrir; eins og í hinu frv., að ríkisstj. geti hækkað gengið, en upplýst er, að það mál liggur að svo stöddu utan við svið þessarar lagasetningar. Hitt er vald ríkisstj. til verðlagsúrskurða, en upplýst er, að íhlutunarvald ríkisstj. er þegar allvíðtækt, og varhugavert að leggja þar inn á nýja braut, er ekki rekur nauðsyn til, nema þá séu um leið reistar skorður við kaupgjaldshækkunum. Í öðrum atriðum er aðeins stigmunur á þessum frv., og munar það mestu, að útflutningsgj. má samkv. þessu frv. nema allt að 10%, en samkv. hinu aðeins 5% að jafnaði og í sérstökum tilfellum allt að 10%.

Þó að hæstv. félmrh. væri stórorður um frv., virtist hann fallast á eða vera tilbúinn að ganga inn á almennan skatt til þess að hamla dýrtíðinni. Hann taldi þingið ekki geta æru sinnar vegna samþ. þetta frv., af því að skattstigi hefði verið ákveðinn í 1. um tekju og eignarskatt á þessu þingi. Þessa röksemd er ekki hægt að taka fullkomlega alvarlega, því að þá ætti eins að vera óleyfilegt að samþ. nýtt útflutningsgjald, af því að fyrr á þinginu hafa verið samþ. lagaákvæði, sem þau efni snerta. Allir vissu það, þegar tekju- og eignarskattsl. voru samþ., að dýrtíðarmálin var eftir að leysa og til þess mundi þurfa fé. Bæði hæstv. ráðh. og hv. þm. Seyðf. hafa fundið mjög að því, að hér sé gengið of langt í því að skattleggja miðlungstekjur og lágar tekjur. En ef litið er á frv., sést, að t. d. einhleypur maður með 5 þús. kr. tekjur mundi aðeins greiða 65 kr. viðbótarskatt. Fyrir einhleypa menn með 7000 kr. nettótekjur yrði skattaukinn 155 kr., og fyrir einhleypan mann með 10000 kr. tekjur yrði skattaviðaukinn rúml. 300 kr.

Þess vegna finnst mér það næsta broslegt, þegar ýmsir hv. þm., og jafnvel ráðherrar, eru að tala um, að með þessu sé hinn ógurlegi hrammur ríkisvaldsins að grípa fram fyrir hendurnar á mönnum og ætli nú að fara að reyta af mönnum þau fríðindi, sem þeim voru veitt í hinum nýju skattalögum.

Í því sambandi vil ég benda hv. jafnaðarmönnum á það, að það mun láta mjög nærri, þegar búið er að leggja skattaviðaukann samkv. þessu frv. við skattinn samkv. skattal., sem verið var að afgreiða hér í þinginu fyrir skemmstu, að þeir til samans séu álíka háir og sá skattur, sem menn greiddu eftir skattalögunum frá 1935, en þá löggjöf hafa jafnaðarmenn samþykkt.

Ég get ekki fullyrt, að þetta sé í öllum tilfellum jafnmikið, af því ég hef ekki haft tíma til að rannsaka það sérstaklega, en mér sýnist í fljótu bragði, að þetta láti mjög nærri.

En hv. þm. Seyðf., sem sagði, að hér væri allt of langt gengið, vil ég segja það, að með samanlögðum skatti og skattaviðauka þessa frv. er a. m. k. lítið lengra gengið en í frv., sem hann hefur sjálfur flutt hér á Alþingi á sínum tíma. Ég vil einnig beina því til Alþfl.-manna yfirleitt, að það situr sízt á þeim, sem alltaf segjast vera að berjast fyrir afnámi tollanna og fyrir beinum sköttum, að vera að gera veður út af þessu frv., vegna þess að þar er gert ráð fyrir beinum skatti.

Hitt er annað mál, að ég get vel þolað það, að skattgjaldinu sé breytt í frv. á lægstu tekjum, ef samkomulag yrði gert í þá átt, en ég vil alvarlega benda á, að betra væri að hafa persónufrádráttinn fyrir ómaga ríflegri heldur en að sleppa alveg skattgjaldinu á lægri tekjur skattskyldar.

Ég held sem sé fast við það, að mér finnst, að skatturinn á einhleypum eigi ekki og megi ekki vera minni en gert er ráð fyrir hér í frv., að viðbættum skatti samkv. skattal., en mætti þá heldur lækka á fjölskyldumönnum.

Þá vildi ég enn á ný sérstaklega leiðrétta þann misskilning, sem virðist ríkjandi hjá sumum hv. þm., að það sé einhver reginmunur á þessu frv. og frv. sex manna nefndarinnar. Á þessum tveim frv. er enginn grundvallarmunur, í hæsta lagi nokkur stigmunur, eins og ég hef áður sýnt fram á. Að því er snertir það atriði, sem nú veldur gagnrýni helzt — almenna skattinn — þá er munurinn á þessu frv. og frv. sex manna nefndarinnar mjög óverulegur.

Mér skildist, að allir fulltrúar í n. gætu vel hugsað sér að leggja á slíkt almennt gjald, til þess að standast þann kostnað, sem lagt verður í til að berjast gegn dýrtíðinni, t. d. lækkun tolla o. s. frv. Virðist nú hins vegar bera nokkuð á því, að sumir þm. vilji hörfa frá þessu, þegar á hólminn er komið.