10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Ísleifur Högnason:

Þetta frv. er, eins og hæstv. félmrh. lýsti framtíðinni, nokkuð í þoku. Tvennt er þó skýrt í frv. Í fyrsta lagi, að stjórnin fær tugi millj. kr. til umráða í nýjum sköttum, og í öðru lagi ótakmarkaða heimild til að ráðstafa þessu fé eftir eigin geðþótta.

Fyrsta grein er nokkurs konar greinargerð fyrir frv. Þar er talað almennt um viðbúnað gegn erfiðleikum atvinnuveganna, að minnka þurfi verðbólguna í landinu og draga þurfi úr hækkun framfærslukostnaðar og kaupgjalds.

Þetta er svo loðið og óskýrt orðalag, að furðu sætir. Og þar sem ekki finnst nein nánari skýring á þessu, hvorki í öðrum greinum frv, sjálfs né grg., þá kemur ekki til mála, að nokkur þm. með snefil af ábyrgðartilfinningu greiði atkv. með frv., eftir allt, sem á undan er gengið hér á Alþingi.

Í 2. gr. er sagt, að ríkisstj. skuli heimilt að ákveða hámark farmgjalda af vörum, sem fluttar eru með íslenzkum skipum. Stjórnin hefði fyrir löngu getað fengið slíka heimild, ef viljinn hefði verið fyrir hendi.

3. gr. er svo hljóðandi: „Í því skyni, er í 1. gr. getur, er ríkisstj. heimilt að verja allt að 5 milljónum króna af tekjum ríkissjóðs á árinu 1941“.

Í sambandi við þessa grein má minna á það, að ríkisstj. hefur handbærar aðrar 5 millj. kr., sem greiða á útflytjendum í uppbót vegna markaðstaps. Þar eru komnar 10 millj.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir afurðaslætti, eða útflutningsgjaldi allt að 10% af fob-verði afurðanna. Ef á ári verður 104 millj. kr. útflutningur, þá verður þessi skattur 10 millj. kr. Þá hefur stjórnin 20 millj. til „viðbúnaðar erfiðleikunum“. Nú getur útflutningurinn orðið 150 millj. ef allt gengur að óskum. Þá gæti útflutningsgjaldið numið allt að 15 millj. kr.

Þá er í 5. gr. talað um sérstakap tekjuskatt. Það gjald er ekki gott að segja, hve miklu getur numið, en ætla má, að það skipti milljónum. Samkv. þessu felst í frv. heimild til ríkisstj. til að skattleggja almenning í landinu um allt að 25 millj. kr. til viðbótar öllum tekjuliðum fjárl., sem nema svipaðri upphæð.

En þetta er aðeins tekjuhliðin. Í frv. er hvergi með einu einasta orði á það minnzt, hvernig eigi að verja þessum gífurlegu fjárfúlgum.

Þá vík ég að ræðu hæstv. viðskmrh. Hún var að innihaldi ákaflega áþekk greinargerð frv., og er mér því nær að halda, að hann hafi samið hana sjálfur, þótt meiri hluta fjhn. sé eignuð hún.

Aðalatriðið í hans augum virtist vera, að Alþingi tæki að spyrna á móti kauphækkunum. Hvað eftir annað er staglazt á því í grg. frv., að hreinn voði sé fyrir dyrum vegna þess, að kaupgjald sé allt of hátt í landinu.

Í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Aðalefni þessa frv., er það, að ríkisstj. er gefin heimild til þess að gera ráðstafanir til að draga úr verðbólgunni innanlands og koma, eftir því sem unnt er, í veg fyrir frekari hækkun framfærslukostnaðar og kaupgjalds“.

Athyglisverð er og í grg. þessi setning : „En það er ekki einungis um „stríðsgróða“ að ræða hjá þeim, sem selt hafa vörur sínar á erlendum markaði við háu verði, heldur hafa tekjur mjög margra stóraukizt beinlínis vegna ríkjandi styrjaldarástands“.

Hér er minnzt á það, að fleiri hafi gott af „blessuðu stríðinu“, eins og þeir vilja kalla svo, heldur en útflytjendur, og mun vera átt við launþegana.

Þá sný ég mér að 10% útflutningsgjaldinu, hvernig það verður í framkvæmd að því er snertir sjómennina. Gjaldið á að leggja á fobverð afurðanna. Það hefur í för með sér, að smáútvegsmenn og hlutamenn bera einir allt gjaldið, því að þeir selja, eins og kunnugt er, fiskinn fiskkaupmönnum fyrir ákveðið lágmarksverð.

Fiskkaupmennirnir munu hafa allan vilja og einnig öll tök á að draga þessi 14% frá, er þeir ákveða fiskverðið, þannig að allur þessi stóri skattur lendir á þeim framleiðendum, sem ekki hafa aðstöðu til að selja afurðir sínar á erlendum markaði sjálfir.

Milliliðirnir sleppa alveg við þennan eða annan tilsvarandi skatt. Enda hefur það víst líka verið meiningin, að braskararnir fái að halda sínum feng óskertum.

Þetta er svo athyglisvert og einkennandi fyrir alla stefnu og viðleitni núverandi ríkisstjórnar: Að gleyma því aldrei að tryggja bröskurum og fjárplógsmönnum allan ágóðann af verzlun með framleiðslu landsmanna, en velta jafnframt öllum þunga skatta og skyldna á bak fátækustu erfiðismannanna á sjó og landi.

Ég skal taka eitt nýtt dæmi til þess að sýna, hvernig ákvæði eins og þetta yrði í framkvæmdinni, ef frv. þetta yrði að lögum.

Eitt skip seldi fyrir fáum dögum ísfisksfarmi í Englandi fyrir 900 þús. kr. Fyrir þennan farm hafði útflytjandinn greitt í mesta lagi 300–400 þús. kr. 14% gjaldið er reiknað af kaupverðinu hér. En af 500–600 þús. kr. söluhagnaði útflytjandans er ekki greiddur einn einasti eyrir skv. þessu frv. Þessi braskari, sem hér á í hlut, þarf því ekkert að greiða, nema á sínum tíma e. t. v. 5% tekjuskattsálagið, ef ekki verður þá einnig fundin kænleg lögskýring til að létta þeirri „þungu byrði“ af ;,framtaki einstaklingsins“. En smáútvegsmaðurinn og hlutamaðurinn verða að láta af hendi 14. hluta afla síns, og greiða síðan að auki tekjuskattsálagið af „sínum stríðsgróða!“

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að almenningur væri orðinn mjög áhyggjufullur út af hinu síhækkandi kaupgjaldi.

Ég skal játa, að ég skildi ekki vel, hvað hann átti við. En ég geng út frá, að hann hafi verið að tala fyrir munn atvinnurekenda. Það er orðið svo, að þegar núverandi ráðh. og ríkisstjórn tala um þjóð eða almenning, þá meina þeir ekki alla alþýðu manna, heldur einungis stórgróðamennina.

Það er víst eitthvað annað fremur en launahæðin, sem verkamenn og aðrir starfsmenn þurfa að kvarta yfir. Ætli það sé ekki fremur ástæða til hins gagnstæða. Það er alkunnugt, og var nú seinast rétt áðan viðurkennt af hæstv. félmrh. hér í þessum umr., að verðvísitalan sé alls ekki í samræmi við dýrtíðina.

Ég man vel, að ég tók eftir því, að fyrst þegar vísitalan var reiknuð út skv. gengislögunum, voru teknar með ýmsar vörur, sem almenningur notar mjög lítið eða ekkert af, en höfðu ýmist ekkert hækkað eða beinlínis lækkað mikið frá því árinu áður; eins og t. d. tómatar. Þar af leiðandi var vísitalan ekki rétt mynd af framfærslukostnaðinum eins og hann var í raun og veru. Enda urðu allir hissa, þegar kauplagsnefnd gaf út þá niðurstöðu, að dýrtíðin hefði ekki vaxið nema um 2%.

Þá var viðskmrh. auk félmrh. mjög að hampa því í sínum ræðum, að allar þessar ráðstafanir

væru gerðar til þess að mæta erfiðleikunum, þegar hrunið kæmi yfir þjóðina að stríðinu loknu, og að þetta vær í ekki sízt gert til þess að tryggja verkamenn gegn því atvinnuleysi, sem þá mundi koma yfir þjóðina. Mikið var einnig talað um nauðsyn þess að safna peningum og leggja á skatta í þessu skyni.

Atvmrh. sagði, að það háskalegasta, sem komið gæti fyrir þjóðina, væri það, ef hún tapaði trúnni á peningana. Enn þá munu menn hafa þá trú á peningunum, að ég þykist vita, að flestir verkamenn, bændur og launamenn vilji gjarnan hafa úr svo miklu að spila fyrir vinnu sína, að þeir geti lagt nokkuð af núverandi tekjum sínum til hliðar, til þess að mæta sínum eigin erfiðleikum síðar meir. Og þetta er ekki undarlegt, þegar peningarnir flæða svo yfir landið, að margir vita ekki aura sinna tal. Hins vegar mun allur almenningur ekki hafa enn þá áttað sig á því, hve lítils virði þeir peningar eru, sem nú eru greiddir fyrir vinnu og afurðir landsmanna.

Atvmrh. veit það eins vel og 2 og 2 eru 4, að engum fjármálamanni dettur í hug að geyma peninga sína á banka, ef annars er kostur. Hann mun því sjálfur skilja ofur vel, að peningainnstæða í banka er ekki mikils virði. Heldur sendir hann og stéttarbræður hans sendimenn út um allt land til þess að kaupa upp jarðir og húseignir, sem bændur og aðrir fasteignaeigendur kynnu að fást til að selja. Þess vegna þarf umfram allt að glæða trú almennings, bænda og annarra, sem einhverjar fasteignir eiga, svo þeir fáist til að selja eignir sinar fyrir hinar sviknu krónur. En hitt ber þegar að taka fram, að braskið mun aldrei þroska þessa þjóð né leiða hana út úr ógöngunum.

Eins og kunnugt er, samdi þessi ríkisstj. um það við Breta að festa gengi ísl. krónunnar við sterlingspundið, og síðan hefur verðgildi krónunnar fallið með því.

Hernaðarútgjöld Breta vaxa með hverjum degi, og skuldir þeirra vaxa að sama skapi og erfiðleikar þeirra í ófriðinum. Og það er vitað, að pundið fellur í samræmi við það. Og þó að Bretar ynnu styrjöldina, og það innan skamms, þá mundi pundið falla samt og aldrei komast í sitt skráða gengi hér, 22,22 ísl. kr.

Bankarnir eiga tugi milljóna kr. innstæður í Englandi. Segjum svo, að sterlingspund félli um helming. Þá mundu bankarnir tapa helmingnum af innstæðum sínum í Englandi. En þó að bankarnir gerðu ekki annað nú en að bókfæra á réttu gengi innstæður sínar í Englandi, mundi koma í ljós, að hagur þeirra er næsta bágborinn. Atvmrh. gaf að vísu í skyn í sinni ræðu, að opin leið væri til þess í samningum við Breta að breyta gengisskráningu krónunnar í réttara horf, en hann væri persónulega andvígur því.

Mig furðar ekki á því. Enginn maður innan þessara veggja né utan hefur haft annan eins hagnað af þeirri ráðstöfun að halda pundinu í 26.22 kr. og þessi ráðherra. Hann og stéttarbræður hans hafa dregið tugi milljóna kr. af því fé, sem hefði getað orðið til þess að draga úr dýrtíðinni í landinu, ef gengið hefði verið rétt skráð í samræmi við bættan viðskiptajöfnuð okkar við önnur lönd.

Það mun koma á daginn, að bankarnir eiga eftir að súpa seyðið af þessu braski. En þá er það ríkið, sem ber ábyrgðina á bönkunum, og það mun eins og að vanda velta töpunum yfir á hið breiða bak almennings.

Ef Alþingi hefði viljað bæta þjóðinni þann órétt og tap, sem hún hefur orðið fyrir vegna hinnar röngu gengisskráningar, þá hefði það átt að svipta braskarana hinum illa fengna stríðsgróða með þungum eignarskatti og hækka síðan gengi krónunnar.

Þegar þingi er lokið, álít ég, að þm. ættu að ganga fram fyrir landsmenn og skýra þeim drengilega frá því, að krónan sé vonarpeningur, og segja þeim, sem einhverjar fasteignir eiga, að þeir skuli varast að selja þær, jafnvel þótt stórfé sé í boði. Menn verða að varast það framar flestu öðru að láta tæla út úr sér það litla, sem þeir eiga, fyrir hinar fölsku Kveldúlfskrónur.

Hæstv. viðskmrh. lýsti því í ræðu sinni, að hann væri óánægður með þetta frv. sitt að því leyti, að hann fékk því ekki ráðið að festa hækkun kaupgjaldsins við 53% verðvísitöluna, hvað mikil sem dýrtíðin yrði.

Ég verð að segja, að við ýmsu mátti búast úr þessari átt, en við svo takmarkalausri óskammfeilni hafði jafnvel ég ekki búizt.

Hér í þinginu hafa þeir flokkar meiri hluta, sem eitt sinn nefndu sig „fulltrúa hinna vinnandi stétta“. Mér er ekki ljóst, hvernig Alþfl. og Framsfl. geta leyft þessari ríkisstjórn, sem þannig hagar sér, að sitja við völd deginum lengur. En þeir skeyta hvorki um skömm né heiður og eru sennilega orðnir svo „handjárnaðir“, að þeir verða að beygja sig skilyrðislaust undir vilja Ólafs Thors og annarra stórgrósera í ríkisstjórninni. Og svo hugsa þeir víst sem svo, að ef þeir gefi stjórninni þessar 25 milljónir kr. að auki öðrum tekjum, þá muni eyrir og eyrir geta hrokkið ofan í vasa þeirra sjálfra.

Hafi þm. verið ósjálfstæðir áður og oft og einatt „handjárnaðir“, þá mun það sannast, að „handjárnin“ munu halda enn betur, eftir að Þeir hafa sjálfir, með samþykki sínu við kosningafrestun einræðisstjórnarinnar, firrt sig allri aðstöðu til að leggja málin undir dóm kjósendanna í landinu.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, er enginn stafkrókur um það í þessu frv., hvernig Þessum miklu peningum skuli varið.

En þótt bein ákvæði skorti um, það þarf ekki að draga í efa, að þeim verður að mestu varið í eiginhagsmunaskyni einræðisstjórnarinnar, í kjördæmabrask, pólitískar mútur o. s. frv., því reynslan hefur sýnt og sannað, að þessir einræðisherrar, sem með völdin fara, eru gersneyddir allri sómatilfinningu og hafa ekki minnsta snefil af ábyrgðartilfinningu gagnvart þjóðinni.

Ég mun ekki að svo komnu máli lengja umr. um þetta. Ég geri ráð fyrir, að það fari um þetta eins og ýmislegt fleira, að menn dansi nauðugir. Það er nú mjög stutt síðan meiri hl. þessarar hv. d. greiddi atkv. með því að vísa máli frá samkv. till. hæstv. atvmrh., þrátt fyrir það, að málið var afgr. af þinginu og samþ. af því við fimm umr. í báðum deildum þingsins. Og ég geri ráð fyrir, að að því er þetta frv. snertir, þá sé það ákveðið, hvort sem sumir hv. þm. eru mótfallnir því eða ekki, að ríkisstj. fái sínar 25 millj. kr. og fái að nota þær eftir geðþótta, hvort sem þær renna til vildarvina ríkisstj. eða verða frystar inni í Englandi með öðrum sterlingspundum, sem þar liggja.