10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég veit að sönnu ekki, hvort hv. þm. þurfa á því að halda að hlýða á mál manna hér í þessari hv. d. En sannleikurinn er þó sá, að þetta mál, eins og það er til komið og eins og umr. er um það hagað, þarfnast þess mjög, að sem flestir hv. þm., sem taka vilja þátt í ákvörðun um það, fylgist með í öllum atriðum.

Ég vil nú, án þess að lengja mikið þessar umr. nú á fyrsta stigi málsins, því að það er nú til l. umr., láta þess getið, að aðdragandi málsins er að vísu ekki svo merkilegur eða fullkominn, að hæstv. ríkisstj. geti hrósað sér af miklu þar. Þar með er ekki sagt, að þetta mál hafi ekki verið til meðferðar hjá hæstv. ríkisstj. um nokkra hríð, og kannske nokkuð lengi. En fyrir hæstv. Alþ. eða hv. þm. og jafnvel fyrir þingflokkunum hefur málið legið mjög takmarkaðan tíma, og ekki nema þá í ígripum. En eins og kunnugt er, var það þó tekið fyrir, og það varð að sameiginlegu ráði ríkisstj. og þingflokkanna, sem að henni standa, að þetta mál skyldi athugað nokkru betur en áður hafði gert verið, af færri mönnum, og var þá tekið það til bragðs að fela 6 mönnum, tveimur úr hverjum fl., sem styðja ríkisstj., að athuga málið í vikutíma, frá því um miðja vikuna fyrir hvítasunnu og þar til eftir hátíð. Þessi n. starfaði eins og fyrir hana var lagt og skilaði síðan til ríkisstj. sínum till., sem voru að vísu í tvennu lagi að nokkru leyti, þannig að frv. voru tvö. Það frv., sem aðallega gæti komið hér til umr., er það, sem nokkuð er tekið úr af þeim till., sem liggja hér fyrir í frv. hæstv. viðskmrh. En það er aðeins nokkuð, sem þar er tekið. Nokkur fleiri voru þau atriði, veigamikil, sem sex manna n. vildi koma fram með og lagði til, að tekin yrðu til athugunar, og þá af þeim tekið það til meðferðar í Alþingi, sem helzt mætti við hlíta. En það er ekki svo, að þessi n. — ef ég mætti frá því skýra — hafi ætlazt til þess, að málið allt gæti verið jafngott, hvernig sem úr hennar till. yrði unnið, því að hennar till. voru þannig, að þær voru bindandi hver við aðra, þannig að ef reytt var mikið úr þeim, gat það orðið falsmynd af vilja n., sem fram kæmi eftir það.

Nú er það svo, að tvö þýðingarmikil atriði a. m. k. eru tekin upp í fyrirliggjandi frv. af því, sem dýrtíðarn. hafði lagt til. Og það er ákvörðunin um útflutningsgjaldið og ákvæðið um skatt á hreinar tekjur. En það var langt frá því, að það væri skilningur allra þeirra, sem í n. voru, að svo mætti að fara sem hér er þó gert í þessu frv. Nú voru vinnubrögð þessarar dýrtíðarn. þannig, að unnið var saman, og svo var í einstökum atriðum gert ráð fyrir, að þau yrðu meira og minna lögð til grundvallar, þó að nokkuð væri fleirþætt það, sem menn komust að niðurstöðu um, að væri þannig, að sumt eða jafnvel flest af því hlyti að verða tekið upp í þá löggjöf, sem ætti að setja um þetta efni. Sú grind, sem fyrir n. var lögð af hálfu ríkisstj. um þetta mál, hefur verið rædd, en lítið rannsökuð af flokkunum, og er hún í raun og veru mest áberandi í frv. hæstv. viðskmrh., sem hér liggur fyrir, og miklu meir áberandi en till. dýrtíðarn. eins og þeim var skilað til hæstv. ríkisstj., Þessar till., sem dýrtíðarn. skilaði til ríkisstj., í þeim tveimur álmum, sem ég nefndi, voru á sömu línu eins og sá rammi, sem ríkisstj. hafði verið að vinna með. En í raun og veru var það ekki mikið annað, sem sameiginlegt var í till. n. og þessu frv., og allt öðruvísi. er með þær till. farið hér en þær voru frá n., hvort sem allir nm. vildu binda sig við það orðalag eða ekki. Nefndarmenn gerðu það upp með sér, að þeir væru óbundnir um að taka annað orðalag upp eða jafnvel ýmis ákvæði, sem ekki fundust í till. n., eða þá að skáka eitthvað til um þau. En mér er óhætt að fullyrða, að n. öll vildi, að þessar till. yrðu gaumgæfilega athugaðar, og ég býst við, að meiri hl. n, hafi viljað fara þá leið að halda af þessum till. miklu meiru en hæstv. viðskmrh, hefur viljað taka í sitt frv. Frá mínu sjónarmiði er frv. hæstv. viðskmrh. mjög einhliða. Og ég er dálítið hissa á því, að hann skyldi bera fram svona einhliða frv. í svona margþættu máli, því að ekki vantar aðeins í það ýmis höfuðákvæði, sem dýrtíðarn. lagði fram, heldur eru þau ákvæði, sem hæstv. ráðh. hefur tekið, allt öðruvísi með farin og frá þeim allt öðruvísi gengið, miklu lélegar og lauslopalegar, þannig að engar hömlur verða þar á. Og ákvæðin um útflutningsgjaldið og skattinn eru einmitt þau ákvæði, sem öllum hv. þm. þykja í raun og veru varhugaverð og mest var áberandi, að n. gæti ekki komizt að sameiginlegri niðurstöðu um. Og þó að nm. væru óbundnir um það í einstöku falli, þá var þó línan þessi, að ganga þannig frá þessum till., að ekki skyldi hafa það sem aðalatriði að leggja á og innheimta þessa skatta, og skal ég víkja nánar að því.

Í fyrsta lagi taldi n. og var öll á því máli, að sjálfsagt væri að víkja frá því, sem ríkisstj. hafði áður haft með höndum, þannig að byrja að tala um fjárplógsaðferð, byrja á því að fyrirskipa — í orðalaginu að heimila — að innheimta skatta, og hafa svo það ákvæði, að ríkissjóður ætti að leggja fram nokkra fjárfúlgu, og svo loks að tala um tilganginn. Það er bert, að það ber að tala um tilganginn fyrst, hvað eigi að gera við það, sem innheimtu álaga þarf til. Í sjálfu sér var það svo, að fyrir n. var það og er enda enn mjög á huldu, hvað það er, sem þarf að gera. í 1. gr, þessa frv. — og tek ég þá þær till., sem dýrtíðarn. skilaði — er farið inn á það á þann hátt, að þetta eigi að vera. til viðbúnaðar gegn þeim erfiðleikum atvinnuveganna, sem gætu stafað af styrjaldarástandinu, o. s. frv. Ég býst við því, að þó að hæstv. viðskmrh. og ýmsir fleiri jafnvel hefðu nú verið spurðir hér um það, hvernig væri hægt að gera frekari grein fyrir þessu, þá muni það erfiðleikum bundið að svara því. Því að þegar ýmsir menn úr þeirri n., sem ég tala hér um, leituðust við að fá botn í þetta, þá var enginn, hvorki utan þings né innan, ekki ríkisstj., ekki hagfræðingar, hagstafan né skattstjóri, engir menn eða stofnanir, sem til náðist, sem gátu reiknað út eða tiltekið nokkuð ákveðna upphæð, sem hér þyrfti með. Aðeins var það, að ríkisstj. taldi, að það væri rétt að ætla fé ýmsu af þessu, sem 1. gr. talar um, og að sumu leyti sé það óhjákvæmilegt, ef sama ástand ríkir, sem nú er, að til þessara ráðstafana, sem í 1. gr. getur, þurfi fé.

Það kom fram í n., að ýmsir töldu, að hér væri nú þegar svo um búið, að nokkurs fjár væri von, — það væri þegar fullvíst, að á þessu ári, 1941, kæmu í ríkissjóð miklar tekjur, að áliti sumra, sem nærri stóðu þeirri stofnun (ríkissjóði), yfirfljótanlegar tekjur, með þeim ákvæðum um tekjuöflun, sem þegar gilda, og mætti því ætla, að eitthvað talsvert mikið yrði til þess að ráðstafa til viðbúnaðar gegn erfiðleikum, sem af þessu óvenjulega ástandi stafa. Og í annan stað var þegar á þinginu búið að samþ. löggjöf, sem þegar var staðfest og komin til framkvæmda, um þennan skatt, sem hér hefur verið nefndur í umr. og ekki virðist hafa verið nógsamlegur gaumur gefinn, sem sé stríðsgróðaskattinn. Og þessi skattur er eingöngu lagður á vegna ástandsins, styrjaldarinnar, og einmitt til þess að fé sé fyrir hendi til þessara nota, sem talað er um, til að veita viðnám erfiðleikum, sem beinlínis stafa af styrjöldinni. En þessum skatti, sem nemur milljónum, er alls ekki á þessu ári neitt ráðstafað, það hafa ekki verið gerðar neinar áætlanir um hann í fjárl. þetta ár, og engin áætlun um það, hvernig honum skuli varið, öðruvísi en ég hef greint. Það lá því nærri, frá sjónarmiði sumra í n., að ætla stríðsgróðaskattinn til þessara þarfa. Og ýmsir töldu, að þetta gæti nægt með öðrum tekjum til þess að veita viðnám erfiðleikunum af styrjaldarastandinu. Og svo kemur þarna í viðbót, að vel má tala um að gera ástandið þolanlegra en nú horfir með ýmsum öðrum ráðstöfunum, þannig að ekki þyrfti eins mikils fjár til uppbótar eins og menn tala um. Og það eru vitanlega margvíslegar ráðstafanir, sem hér geta komið til greina. Vel má tala um einhverja fjáröflun til þessa með tollum á ónauðsynlegum vörum, sem menn kalla stundum velmegunarvörur. En inn á þetta hefur nú hæstv. ríkisstj. eða hæstv. viðskmrh. alls ekki viljað fara, og var það þó önnur almenna tillagan af þeim, sem lagðar voru fram af hálfu n., þó að nm. hefðu alls ekki bundið sig við það. En það, sem flestir hv. nm. voru á ýmsan hátt sammála um, að mætti gera til þess að leiðrétta ástandið, er vitanlega það að koma einhverju öðru lagi á það, sem verkaði á undirstöðu vísitölunnar, því að það er greinilegt, að ef tekst að lækka ýmislegt af þeim greinum, sem þarna eru undirstaða, hefur það sín áhrif á verðlag og kaupgjald, og við það skapast meira jafnvægi, meira sjatn í þessari bólgu, sem eðlilega er áhyggjuefni fyrir þá, sem með þessi mál eiga að fara. N. vikur að þessu, en hæstv. ráðh. hefur ekki viljað taka neitt með af þessu, sem vænta mætti, að gæti orðið til mikillar leiðréttingar í þessu falli. Og eitt er enn, sem menn eru alls ekki sammála um, en vel mætti orða og ákveða, — og ég er einn af þeim mönnum, sem telja það nauðsynlegt og ríkisstj. haldkvæmt að fá þá heimild —, og það er heimild sú, sem getur í 2. gr. frv. þess, sem dýrtíðarn. skilaði. Verð ég að biðja hæstv, forseta velvirðingar á því, þó að ég fari við þessa 1. umr. málsins nokkuð inn á einstök atriði þess; finnst mér það óhjákvæmilegt á Þessu stigi málsins, og getur þá líka sparað síðar umr. um málið. Því að öll atriði málsins koma til greina almennt, þegar gefa skal yfirlit

um málið í heild, og hér er ekki hægt að skilja einstök atriði frá höfuðefninu, því að í þessu má vel segja, að hver einstök gr. eigi að vera höfuðatriði. En í 2. gr. hess frv. var heimild fyrir ríkisstj. til að skrá íslenzka krónu í samræmi við viðskiptaástandið, þ. e. a. s. hækka gengi krónunnar. Mér hefur heyrzt hæstv. viðskmrh. telja mikil tormerki á því, að það væri hægt, án þess þó að skilja hann svo, að hann sé í raun og veru þessu mótfallinn. Því að ég býst við, að hann hafi gert nokkrar tilraunir til að fá þetta mál leyst úr þeim viðjum, sem það nú ei í, og vitnað hefur verið f, að það mundi vera að meira eða minna leyti á valdi þeirrar þjóðar, sem við nú verðum að semja við um viðskipti okkar: En mér er það, eins og fleirum og sjálfsagt hæstv. viðskmrh. líka, í raun og veru óskiljanlegt, að Bretar telji sig nauðbeygða til þess að halda Íslendingum við rangt og skaðlegt gengi síns gjaldeyris, vegna þess að í raun og veru græða þeir ekkert á því, og viðskiptin vitanlega lagast þá eftir því, hvernig gengið veltur. Verði einhver munur á þeirra reikningum, eftir því hvort gengi okkar er hagstætt okkur eða óhagstætt, þá er það svo hverfandi litið í þeirra búskap, að ekki tekur tali að reikna það með. En það er mjög svo rétt, sem hæstv. ráðh. hefur sagt, en Það er ekki hv. þm. að kenna, að eftir því sem lengur dregst og hefur dregizt að fara inn á þetta svið og taka þetta föstum tökum, eftir því verður það erfiðara og eftir því verður það dýrara að leiðrétta gengið. Og hæstv. ráðh. tók réttilega fram, sem hann virtist þó ekki vilja taka afleiðingunum af, að annaðhvort yrði að taka þetta föstum tökum eða að ógöngurnar yrðu enn meiri. Ef það er erfitt í dag, verður það enn erfiðara á morgun o. s. frv. Miklar fúlgur eru nú erlendis í enskum peningum. Íslenzkt fé liggur þar bundið, og enginn veit, hvað úr verður. En bankarnir eiga einnig mikið fé hér, og þeir mundu bera skarðan. hlut frá borði, ef gengið á íslenzku krónunni væri hækkað, en sterlingspundið lækkað. En það er skellur, sem verður að meira eða minna leyti að lenda á þjóðinni og á landinu. Og spurningin verður sú, hvort betra muni að taka á sig þann skell fyrr eða eiga undir högg að sækja um það, að allsherjarskellur dynji á, sem ekki verði leiðréttur og ekki lendi aðeins á bönkunum og fjárfúlgum erlendis, heldur verði ókjör og dýrtíð innanlands, sem ekki verði leiðrétt, svo að fyrir liggi ekki annað en fyrirsjáanlegt hrun. Þó að tvennt sé ef til vill erfitt, jafnvel illt, þá ber að hafa opin augu fyrir því, ef annað tveggja er skárra, en annað verra getur skollið yfir, að skárri leiðin sé því valin. Ég tel, að það sé ekki á neinn hátt skaðlegt, þó heimild sé fyrir ríkisstj. til þess að fara inn á þessa braut. Hún gerir það ekki nema hún telji það gerlegt og frá víðtækara sjónarmiði hagkvæmt. En hins vegar gæti það haft áhrif til þess að sýna, hvað fyrir hæstv. Alþ. vakir, og þar af leiðandi, hvað fulltrúar þjóðarinnar telja hentast, að gæti orðið niðurstaðan. Ef menn kvíða því, að Bretar sitji mjög við sinn keip, gæti þessi heimild orðið til þess að sýna þeim, að sérstakur vilji þingsins væri fyrir því að koma þessu máli fram. Heimildin gefur til kynna, að málið á að takast ákveðnum tökum. Þessu hefur nú hæstv. ráðh. algerlega sleppt, — virðist ekki hafa þorað inn á það í frv. sínu. Mætti þó e. t. v. gera ráð fyrir því, að ríkisstj. léti af sinni hræðslu við þetta og gengi inn á það með þingmönnum að fá að hafa þessa heimild.

Næst þessu tók dýrtíðarn. ákvarðanir um það, sem hún taldi, eða flestir hennar, að gæti að haldi komið um verðlag. Og hér hefur verið talað um verðlag og nokkuð mikið bundið sig við að festa verðlagið á innlendum afurðum. En í þeirri gr., sem hér um fjallar frá n. hálfu, er skýrt tekið til, að það er allt verðlag, á innfluttum vörum og innlendum afurðum, og má taka enn meira til. Þessar heimildir eru sem sé ekki aðeins um innlendar afurðir, heldur um allt verðlag. Og n. taldi, að þessu væri bezt fyrir komið, og reyndar því aðeins tryggt með því móti, að ríkisstj. hefði líka vald til þess a. m. k. að ráða um það, hvernig undirstaðan yrði undir þeim ákvörðunum, sem hún fær heimildirnar til.

Frá mínu sjónarmiði er á slíkum erfiðleikatímum öðru máli að gegna en á venjulegum tímum, því að þessar verðlagsn., sem nú starfa lögum samkvæmt, eru einmitt miðaðar við venjulega og eðlilega tíma. Hæstv. ráðh. talar um, að þessu sé vel fyrir komið af ríkisstj. hálfu, þar eð hún tilnefni formenn þessara n., svo sem kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn., en við í mínum flokki, til dæmis, höfum aldrei viðurkennt þessa menn sem heppilega. Þegar komið er í óeðlilegt ástand, eins og það, sem nú er, verður að krefjast þess, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að skjóta sér bak við formenn þessara n., að þeir njóti þá að minnsta kosti almennara trausts en þessir formenn, sem hér er um að ræða, telja sig einmitt einhliða fulltrúa einnar, að vísu mikilsverðrar stéttar í landinu.

Þetta stríð krefst vissulega óvenjulegra ráðstafana. — Hv. þm. geymi sínar ræður, þar til þeir taka hér til máls, væntanlega þá á eftir mér. (Nokkur kliður heyrðist í salnum.) — En ýmsir hafa talið, að þessar verðlagsn. ættu ekki rétt á sér, því að í rauninni ættu allir þræðir, er ástand er jafnóvenjulegt og nú, að koma saman á einum stað, ef nokkurt vit ætti að verða í því, hvernig úr yrði rakið síðar. Það er talað um, að það sé hlutverk þeirra að ákvarða það verðlag, er innlendir framleiðendur verði að fá til þess að geta haldið uppi rekstri sínum. Hins vegar er talað um það verð, sem kaupendur geti sætt sig við að greiða fyrir vöruna. Þarna getur myndazt bil á milli, og það er þetta bil, sem hægt væri að segja, að brúa ætti þegar um það er rætt, hvert ætti að láta þetta mikla fé og hvers vegna verið væri að leggja á fólkið nýjar álögur. En þegar talað er um þetta verðlag, er það engan veginn fullnægjandi öllum, að þessar verðlagsn. séu starfandi alveg sjálfráðar og sem fulltrúar einnar stéttar eða tveggja. Hæstv. ríkisstj., sem á að bera ábyrgð fyrir Alþ., getur ekki látið við þetta sitja, nema á undan hafi gengið rannsókn á því, hvort þessar verðlagsn. hafi í rauninni sett verð á vörum eins og þarf og vera ber. Nær engri átt að tala, svo sem hæstv. viðskmrh. gerir, eins og þessar n. ættu að. dæma eða vera æðsti dómstóll. Hinn æðsti dómstóll í þessum málum verður að vera þannig, að Alþ. geti við hlítt, og ríkisstj., sem á að þjóna öllum þeim flokkum, er að henni standa, verður að skilja það, að hér eru sameinuð mörg sjónarmið, illu heilli kannske, og taka verður tillit til allra, er við þetta fyrirkomulag eiga að hlíta, sumir með sannri ánægju sjálfsagt, aðrir með nokkru minni ánægju. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. skilji þetta. En hér er um dálítið annað að ræða en það, er hann sagði, að nauðsynlegt væri þá líka að taka inn í frv. ákvæði um það, að ríkisstj. mætti ráða kaupgjaldinu. Það gæti að vísu verið rétt við ákveðin skilyrði, að Alþ. og ríkisstj. tækju þau mál í sínar hendur. En hér er aðeins um það að ræða að ákvarða verðlag. Hæstv. ráðh. talaði í sömu andránni um launafólk, að það gæti þvingað fram kaupbætur og launabætur. Hvernig? Embættismenn hafa að undanförnu búið við launakjör, sem ákveðin voru árið 1919, og hafa þeir engin tök á að breyta þeim.

Það er því nokkuð út í hött að segja, að ríkisstj. megi ekki setja ákvæði um verðlag án þess að koma þar undir alls konar málum öðrum, svo sem t. d. kaupgjaldsákvörðunum. En heimildin til handa ríkisstj. um úrskurðarvald í verðlagsákvörðunum var frá sjónarmiði okkar flestra, sem í n. vorum, höfuðatriði, sem sett var í frv. á undan öllum heimildarákvæðum til fjáröflunar. Átti þetta að tryggja það, að ekki yrði rasað að þessum málum. Í þessa gr. er einnig tekin upp heimild til handa ríkisstj. til að gera ákvörðun um lækkun farmgjalda aðfluttra vara, eða festa þau yfirleitt eða jafnóðum og þurfa þykir, eða á misjafnan hátt, eftir því sem heppilegast telst, þannig að sem mest. áhrif hafi til lækkunar á verði nauðsynjavara. Hæstv. ráðh. hefur tekið upp í of stuttu máli eitt ákvæði um þetta í frv. sitt, þar sem segir, að ríkisstj. skuli heimilt að ákveða farmgjöld af vörum, sem fluttar eru til landsins með íslenzkum skipum. En hér ber þess að gæta, að engan veginn er sjálfsagt að ráðast á farmgjöldin og lækka allt af handahófi. Getur verið ástæða til að lækka á sumum vörutegundum, en ekki á öðrum, o. s. frv. Enn er ákveðið í sömu andrá hér í frv. n., að jafnframt sé notuð heimild í 1. um tollskrá, nr. 62 30. des. 1939, þar sem ríkisstj. er heimilað að „normera“ farmgjöldin. Það vita allir, að farmgjöld fara upp úr öllu valdi á stríðstímum, ef þau eru ekki ákvörðuð af öðrum en þeim, sem græða vilja á þeim, og er það þá að fara úr öskunni í eldinn að leggja tolla ofan á þannig hækkuð farmgjöld. Við leggjum nú til, að farið sé inn á þá braut að lækka farmgjöldin einnig með þetta fyrir augum. Við viljum hér leiðrétta ákveðið ástand, sem ríkjandi er. Nú liggja hér fyrir hv. Alþingi frv. um breyt. á tollskránni, þar sem lagt er til, að niður sé felldur tollur á kornvöru og sykri, svo sem nauðsynjavörum landsmanna. Þetta hefur allt bein áhrif um það að lækka verðvísitöluna, en hún hefur svo aftur áhrif um ýmislega aðra lækkun, svo sem á kaupgjaldi og framfærslukostnaði.

Um það erum við sammála að leggja til, að varið sé allt að 5 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs 1941 til þeirra hluta, er um getur í 1. gr. frv., og er ákvæðið um þetta samhljóða í báðum frv. En með þessu er þó ekki nema hálfsögð sagan, því að þegar lengra kemur og um tekjuöflunarleiðirnar er að ræða, þá er allt miklu meir bundið hjá n. Það var álit ýmissa af nm., að taka bæri þetta „successivt“, að ekki mætti byrja á vitlausum enda, aðeins til að ná inn fé á einhvern hátt, og reiða sig algerlega á verðlagsn., sem miðaðar. eru við eðlilega tíma. N. fellst á heimild til handa ríkisstj. að leggja á með reglugerð sérstakt útflutningsgjald af íslenzkum afurðum, en þó því aðeins, að óumflýjanlega nauðsyn þyki til bera. Hæstv. ráðh. vill ekki hlíta þessu skilyrði. (Viðskmrh.: Hv. þm. hlýtur að sjá, að þessi nauðsyn er þegar fyrir hendi.) Nei, það þykjast ekki allir sjá svo glöggt, að búið sé að rannsaka allt ástandið. Minna má á það hér og í þessu sambandi, að milljónir króna komu í ríkissjóð á fyrra ári, svokallaðar Bretabætur, og einhvers staðar hlýtur það fé að lenda. Hér er nú ekki um voðalegra skilyrði að ræða en það, sem ég og ýmsir aðrir vilja setja, að sagt sé: “ef óumflýjanlega nauðsyn þykir til bera“, og var ég að vona, að hæstv. ráðh. tæki þetta orðalag upp í frv. sitt, en það hefur ekki orðið. Auk þess hefur hæstv. ráðh., eins og hann gat um sjálfur, vikið frá till. n. um hæð þessa útflutningsgjalds. N. taldi, að 5% væri nóg, en ef alveg sérstakar söluástæður væru fyrir hendi, mætti þó fara hærra og ákveða gjaldið allt að 10%. Skyldi það vera á valdi ríkisstj., hvort hún vildi nota sér þann fjárplóg, en ef hún veldi þá leiðina, yrði hún auðvitað að svara til saka og standa fyrir sínu máli. Hefði hún ekki þurft að óttast þetta svo mjög, því að það hefur verið farið vel með þessa stj. af flokkum þeim, er að henni standa, eins og vænta mátti, því að samstjórn getur ekki blessast að öðrum kosti, en þess verður þá jafnframt að krefjast, að fleiri fái einhverju um þetta að ráða en hæstv. ríkisstj. sjálf, svo sem sjálft Alþingi.

Einnig hefur n. annað orðalag en hæstv. ráðh. þar sem hún talar um, að gjald þetta megi aðeins taka af þeim útfluttu afurðum, sem framleiddar eru eftir að það hefur verið ákveðið með reglugerð, en ekki af fyrirliggjandi áður öfluðum birgðum, nema sýnt sé, að þær seljist hærra verði en aður seldar vörur, er framleiddar voru á sama tíma, og þá einungis af verðmuninum. Ég tel það ekki skaða, þó að ákveðið sé, að taka megi gjald þetta af áður öfluðum birgðum, ef áður nefndu skilyrði er fullnægt, samkvæmt þeirri reglu, að rétt sé að taka gjald af miklum gróða, og þeir, sem selt hafa fisk til Bretlands að undanförnu, hafa mikið grætt.

Hefði mátt vera búið að leggja þetta gjald á nokkru fyrr.

Þá vil ég að lokum benda á það, að sú leiðin, sem síðast er talin í frv., var að dómi n. jafnframt sú, sem síðast mætti fara og aðeins ef óumflýjanlega nauðsyn þætti til bera. Taldi n. að ekki mætti grípa til þess að leggja beinan skatt á almenning, fyrr en allt annað hefði verið athugað. Er nýbúið að tala um það, að gert hafi verið samkomulag um þessa skatta, sem lögleiddir hafa verið á þessu þingi, og féllust víst allir hv. þm. á það, a. m. k. í orði kveðnu, að við þetta skattafyrirkomulag mætti hlíta og þá ívilnun, sem lágtekjumönnum var ákveðin. Ég hélt, að þetta hefði verið gert með fullu tilliti til ástandsins. Og þó að ég og aðrir taki neyðarúrræðum, þar sem þau eru óhjákvæmileg, verða einhverjar hömlur að vera á þessu. Má vera, að þeir menn, sem fyrir þessu verða, deyi ekki út af, þó að þeir greiði þennan aukaskatt, en alltaf er varhugavert að leggja á skatta, ef ekki er fyllsta gætni viðhöfð. Og þess ber að gæta, að hér er um heimild að ræða. Þegar samþ. hafa verið l., sem eru skilyrðislaus, vita allir, á hverju þeir mega eiga von, en öðru máli gegnir um heimildarl. Allir menn voru nú sammála um, að rétt væri, að það væri borið fram a. m. k. sem till. til hæstv. ríkisstj., að þegar að þessum skatti kæmi, þá væri ákvæðið um hann ekki orðað hömlulaust eins og í frv. hæstv. ráðh.: „Ríkisstj. er heimilt“ o. s. frv., heldur væri tekið fram: „ef óumflýjanlega nauðsyn þykir til bera, og ríkissjóð skortir fé til þeirra ráðstafana“. Hér átti, með öðrum orðum, að vera tröppugangur í þessu, það átti að, vera „successivt“. Ekkert af þessu kemur fram í frv. hæstv. viðskmrh., sem ég tel vera að öðru leyti mjög einhliða. Og yfirleitt eru settar allt of litlar tryggingar fyrir framkvæmd 1. bæði í orðalaginu og sjálfum ákvæðunum. Þetta má að sjálfsögðu bæta í meðferð málsins, og tel ég vafalaust, að flestir hv. þm. vilji vinna að því að bæta úr þessu og reisa þær skorður, sem að mínu áliti eru ekki aðeins nauðsynlegar, heldur alveg sjálfsagðar. Ég tel það líka sjálfsagt, að hv. þm. vilji sjálfra sín vegna ganga sem bezt frá þessu máli. Ég tel það líka heppilegast fyrir hæstv. ríkisstj., að hún hafi í þessu máli ákveðinn og yfirlýstan þingvilja til að styðjast við. Ég tel einnig rétt, að stj. viti fullkomlega af því, að hún mun fá sinn dóm fyrir framkvæmd þessara mála. Hún mun fá sinn dóm frá þinginu, hvort sem hún leggur meira eða minna upp úr þeim dómi.

Það má auðvitað deila um einstök atriði þessa máls, svo sem það til dæmis, hvert hámark viðbótarskattsins skuli vera, en ég tel, að menn ættu að geta komið sér niður á eitthvað í því efni. Ég tel 5% hámark mjög hæfilegt. Ég játa hins vegar, að eitthvað mætti frá því víkja, en ég tel, að ekki megi mikið að því kveða, ef um sanngirni á að vera að ræða. Eins má deila um það, hvort aðrar aðferðir ætti að taka upp. En hvað sem þessu líður, álít ég sjálfsagt að taka málið föstum tökum frá grunni og búa svo um hnútuna, að við getum sagt, að ekki sé ætlunin að rasa neitt um ráð fram. Það verður að taka tillit til allra ástæðna í þessu máli, ekki aðeins

þess, sem veita á fé til, heldur líka þeirra, sem taka á féð frá.

Ég þarf ekki að lengja þetta mál frekar. Það getur vel verið, að einhverjum hv. þm. þyki ég hafa verið nógu langorður. En ég taldi sjálfsagt og óhjákvæmilegt að taka þetta fram af minni hálfu og fleiri þm., sem unnu saman í n. að þessu máli.