10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég get ekki stillt mig um að segja örfá orð um það, sem hv. þm. Ísaf. sagði nú um þetta mál. Hann og aðrir hafa slegið því fram órökstuddu og á ósæmilegan hátt, eftir því sem ég bezt fæ séð, að mál þetta sé illa undirbúið af hálfu ríkisstj. Ég held því fram, að málið hafi verið undirbúið eins og hugsanlegt sé, að mál af þessu tagi geti verið undirbúið. Það er ekki hugsanlegt að leysa slíkt mál sem þetta, nema með heimildum handa ríkisstj. Það er ekki hægt að setja nákvæm ákvæði um, hversu því fé skuli varið, sem aflað er til þess að vinna gegn dýrtíðinni. Það getur enginn hv. þm. fært rök. fyrir því, að þetta sé hægt. Annaðhvort er að játa, að bezt sé að láta allt „dankast“ afskiptalítið eða afskiptalaust með öllum afleiðingum, sem af því hljóta að leiða, eða viðurkenna, að ekki er hægt að afgr. þetta mál með öðru móti en heimildum til ríkisstj., þannig að hún hafi talsvert rúmar hendur í þessum málum. Málið er ekki illa undirbúið. Það hafa legið skýrslur fyrir ríkisstj., sem sýna greinilega, að ef á að orka verulega á verðvísitöluna, þarf til þess mikla fjárhæð. Við vitum, að það þarf hundruð þúsunda til þess að hreyfa vísitöluna um eitt stig, þó að við vitum það ekki nákvæmlega, enda fjárþörfin mismunandi eftir því, hvaða vörur eru verðlækkaðar á innanlandsmarkaðinum. Þetta kemur fram af skilríkjum, sem legið hafa fyrir ríkisstj. Þess vegna er það líka helber misskilningur, að það sé hægt að orka verulega á dýrtíðina án þess að hafa verulega fjármuni undir höndum. Við þetta eru þær till. miðaðar, sem hér liggja fyrir. Það getur verið afsakanlegt, þó að hv. þm. vaxi í augum að gera svona stórfelldar ráðstafanir. En þegar þess er gætt, að þær eiga að koma í staðinn fyrir gengishækkun og verka í stað hennar, þá er ljóst, að ekki nægja neinir smámunir, svo að gagni komi. Ég vil taka hér fram, að það getur vel verið, að hv. þm. takist að klípa svo utan úr þessum heimildum, sem hér liggja fyrir till. um, að þær verði ófullnægjandi fyrir ríkisstj. til þess að starfa eftir með sómasamlegum árangri. Þá eru það hv. þm., sem bera ábyrgð á afleiðingunum.

Ég geri nú ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf. hafi talað fyrir hönd þeirra útgerðarmanna, sem líta til Alþf1., en hinir Alþfl.-menn, sem talað hafa, fyrir verkamennina, því að þeir hafa sagzt geta gengið inn á hærri útflutningsgjaldsheimild en gert er ráð fyrir í frv. En mér skilst, að hv. þm. Ísaf. geti ekki fallizt á, að komið geti til mála að hækka útflutningsgjaldið nokkuð frá því, sem nú er: Það getur vel verið, að það sé vinsælt nú að halda ræður af því tagi, sem hv. þm. Ísaf. gerði, og halda því fram, að útgerðin þoli ekki útflutningsgjald og enginn geti neitt af mörkum látið til þess að sporna við dýrtíðinni. En ég er ekki eins viss um, að þessi afstaða verði jafn vinsæl síðar, né þessum hv. þm. til framdráttar, þegar það fer að sýna sig, hvað það kostar að hafast ekkert að í þessum málum. Þá getur verið, að launamenn og útgerðarmenn og aðrir fleiri óski þess heitt og innilega, að þeir hefðu borgað núna jafnvel meira en 5% eða 10% af verði útfluttra afurða og önnur þau gjöld, sem lagt er til í þessu frv., að á menn verði lögð, til þess að koma í veg fyrir þá hækkun á framfærslu- og framleiðslukostnaði og það hrun, sem fyrirsjáanlega verður, ef ekkert er aðhafzt. Það getur verið, að hv. þm. geti dregið svo úr frv., að lítið verði eftir af því, að það komi ekki að tilætluðum notum og ekki verði hægt að framkvæma það á neitt líkan hátt og þörf er á. En þá eru það þeir, sem bera á því ábyrgðina, en ekki hinir, sem hafa bent á það, að ef eitthvað á að gera, sem um munar í málinu, þá þarf til þess að hafa verulegt fé. Ef menn eru einlægir í því, að það verði að gera einhverjar ráðstafanir til þess að lækka dýrtíðina, þá verða þeir að fylgja þeim till. til tekjuöflunar, sem fram koma, eða benda á aðrar leiðir, sem geta náð sama marki. En það er þýðingarlaust að halda því fram eins og sumir hv. þm. gera, að þeir vilji gera átak til þess að draga úr dýrtíðinni og hækkun framleiðslukostnaðarins og framfærslukostnaðarins, — halda því fram í öðru orðinu, en mæla í hinu orðinu gegn tekjuöflunarleiðunum án þess að benda á aðrar leiðir í þeirra stað. (GSv: Er hæstv. ráðh. að tala við mig?) Ég átti sérstaklega við sessunaut hv. þm. V.-Sk., einn manninn úr sex manna n., hv. þm. Ísaf., en borið hefur mjög á þessu sama hjá fleirum, og ég hef grun um, að hv. þm. V.-Sk. sé tregur til þess að fylgja róttækum aðgerðum í þessum málum.