13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Meiri hluti fjhn. bar þetta frv. fram eftir ósk hæstv. fjmrh. án þess þá að hafa haft tíma til að tala um það og mynda sér skoðanir um ýmis ákvæði þess. Enda stendur í grg., sem því fylgir, að nm. áskilji sér allir rétt til þess að bera fram eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Eftir að málið svo hafði verið hér til umr., tók n. það fyrir til athugunar og gerði það í samráði við ríkisstj., sem var með henni um undirbúning á þessu máli, til þess að leita samkomulags um þau efni frv., sem hægt væri að fá samkomulag um. Það samkomulag, sem fengizt hefur í n., er í raun og veru á þskj. 741, í þeim brtt., sem fjhn. öll flytur við þetta frv. Um 5. gr. frv. gátu hv. nm. ekki átt samleið, og flytur meiri hl. n. brtt. við brtt. n. á öðru þskj., sem ég mun víkja að síðar. Ég held, að þessi brtt. sem n. flytur á þskj. 741, þurfi ekki skýringa við. Skal ég þó aðeins lítillega minnast á ýmis atriði þeirrar brtt.

Í fyrsta lagi er hér brtt. við 1. gr. frv. um að í stað orðanna „og kaupgjalds“ komi kaupgjalds og framleiðslukostnaðar, — þannig að greinin verði með breyt. svo hljóðandi: „til þess að minnka verðbólguna innanlands og draga þannig úr hækkun framfærslukostnaðar, kaupgjalds og framleiðslukostnaðar“, o. s. frv. Enn fremur er lagt til, að aftan við 1. gr. bætist ný málsgr., sem er útskýring á því, sem felst í gr., sem fyrir er, og hljóðar viðbótin þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin skal verja fé því, sem aflað er samkvæmt lögum þessum, til þess að koma í veg fyrir, svo sem unnt er, að verðlag á innlendum og erlendum nauðsynjavörum hækki til neytenda frá því, sem nú er, og til að styðja þá framleiðendur, sem af styrjaldarástæðum eru neyddir til að selja vöru sína óeðlilega lágu verði, allt að undangenginni athugun á þeim ástæðum, sem fyrir hendi eru.“ Það eru m. ö. o. tekin fram nánar í þessari viðbót þau höfuðsjónarmið, sem eiga að vera fyrir samþykkt þessara 1. og sem á að verja þessu fé til að ná, að reyna að halda verðlagi niðri á nauðsynjum, bæði erlendum og innlendum, og sömuleiðis hitt, að styðja framleiðsluna, sem af orsökum styrjaldarinnar selst við lægra verði heldur en framleiðsluverði.

2. brtt. n. er við 2. gr. frv., sem er um það, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða farmgjöld af vörum, sem fluttar eru til landsins með íslenzkum skipum. En brtt. er um það fyrst, að aftan við gr. bætist: „og þeim skipum, sem Íslendingar hafa á leigu til ákveðins tíma“ sem er vitanlega sjálfsagt, að þetta ákvæði gildi eins um slík leiguskip, sem Íslendingar hafa um skemmri eða lengri tíma, þegar þess er gætt einmitt, hve farmgjöld eru geysimikill þáttur í því, hvernig verðlag er í landinu á erlendum vörum. Þau hafa verið svo há, að nettóágóði eins einasta félags, Eimskipafélagsins, varð eins mikill á einu ári eins og aðalframleiðsluvara manna í sjö sýslum í landinu hefur selzt að brúttóverði; og sést þá, hve geysimikill þáttur þetta er til þess að hafa áhrif á verðlag. Og ekki síður ástæða til að hafa hönd í bagga um það heldur en um verð neyzluvara, sem seldar eru innanlands.

2, brtt., b-liður, á sama þskj. er um það, að aftan við 2. gr. komi ný gr., og er 1. tölul. 2. brtt. svo hljóðandi:

Ríkisstjórninni er heimilt:

1. Að fella niður til ársloka 1942 tolla af: baunum, ertum, linsum, hveiti, rúg, rís með hýði eða án hýðis, byggi, höfrum, maís og annarri ómalaðri kornvöru; mjöli: úr hveiti, úr rúgi, úr rís, úr byggi, úr höfrum, úr maís og öðru ótöldu; grjónum: úr hveiti, úr byggi, úr höfrum, úr rís og öðru ótöldu.“

M. ö. o., till. er um að afnema tolla af þessum helztu nauðsynjavörum, sem inn eru fluttar af matvörum; og aftur á móti er till. um það í 2. stafl. að lækka toll á sykri. Þriðja heimildartill. er í 3. tölul. 2.brtt. og er um það, að ríkisstj. sé heimilt að hækka um allt að 50% til sama tíma tolla af: áfengi og tóbaki, svo og gjald af innlendum tollvörutegundum, sbr. lög nr. 60 30. des. 1939, og aðflutningsgjald af sams konar vörum.

3. brtt. er við 3. gr. frv., sem verður 4. gr., ef brtt. n. verða samþ., um það, að upphaf gr. orðist þannig: „Í því skyni, er í lögum þessum greinir, er ríkisstjórninni“ o. s. frv.

Og loks er 4. brtt. við 4. gr., sem verður 5. gr., um að aftan við fyrri málsgr. greinarinnar bætist : „svo og að undanþiggja þær útflutningsvörur, sem seljast lægra verði en hún telur, að framleiðslukostnaði nemi“. En eins og hv. þdm. sjá, stendur í gr. sjálfri, að ríkisstj. sé heimilt að leggja mismunandi hátt útflutningsgjald á íslenzkar afurðir, sem fluttar eru út úr landinu, Sem sé ákveðinn hundraðshluti af fob-verði varanna, og sé gjaldið miðað við framleiðslukostnað og söluverð. En brtt. er um, að ríkisstj. sé heimilt að undanþiggja þessu útflutningsgjaldi þær vörur, sem seljast við mjög lágu verði.

Þetta eru þau atriði, sem nm. allir voru sammála um að flytja sem brtt. við frv., og hefur staðið alllengi yfir að ná þessu samkomulagi, sem þó er fengið um þessi atriði.

En 5. gr., sem er ákvæði um sérstakan skatt af nettótekjum manna eins og þar hermir, hafa nokkrir nm., sem eru meiri hl. n., ekki getað fallizt á. Vilja þeir ekki hafa þau ákvæði með þeim hætti, sem þar hermir, og telja þau ekki réttlát, en flytja í stað þess brtt. á þskj. 742 um það, að ríkisstj. sé heimilt að innheimta á árinu

1941 viðauka á tekjuskatt og eignarskatt álagðan á árinu, og megi viðauki þessi nema allt að 10%. Það gefur að skilja, að þetta eru margfalt minni tekjur heldur en ætlazt er til í 5. gr. frv., og rýrir þetta mjög gildi frv. Við fulltrúar Framsfl. í n., ég og hv. þm. V.-Húnv., höfum hins vegar litið svo á, að þær heimildir, sem í 5. gr. felast til þess að ná þessum tekjum af nettótekjum manna, séu það lágmark, sem við getum gert okkur ánægða með til þessara ráðstafana, og viljum þar af leiðandi ekki skerða það á nokkurn hátt, hvað þá eins og lagt er til í brtt. á þskj. 742. Við lítum svo á, að það sé alveg sjálfsagt, að þeim, sem nú hafa mestar nettótekjur og mestan gróða þar af leiðandi í þessum tíma, beri ekki síður skylda til að leggja verulega af mörkum til þess að halda uppi verðgildi peninganna. Því að þetta frv. er í raun og veru ekkert um annað en það. Því að hvers virði eru þeim, sem nú taka hæst laun, þau laun, ef verðgildi peninganna fellur jafnt og þétt eftir því, sem launin hækka? Og það er ekkert launungarmál hér á hæstv. Alþ., að hjá mönnum yfirleitt eru allmiklir peningar, sem fólk nú hefur milli handa, bæði þeim, sem vinna að ýmiss konar framkvæmdum í daglaunavinnu, einhleypum og öðrum, og viðkomandi þeim, sem teljast til launastétta, má segja í bili, að það sé sama, hvort dýrtíðin helzt eða ekki, því að laun hækki eftir dýrtíðinni. En sama gildir um þeirra peninga, að með aukinni dýrtíð minnkar verðgildi þeirra.

Ég verð að segja, að það er dálítið einkennileg hugsun, að ekki megi taka neitt af þeim, sem hafa mesta peningana á milli handa, í því augnamiði að gera ráðstafanir til þess að halda uppi verðgildi peninganna. Þeir menn eiga, svo að segja, algerlega að geta skotið sér undan þeirri skyldu, sem hvílir nú á allri þjóðinni, að hún reyni að reisa skorður við þeim voða, sem framundan er, ef ekki er spyrnt við fótum, áður en það er um seinan. Ég vil aðeins benda á það í sambandi við þessa gr., að það hafa komið fram mótmæli vegna þessa skatts, sem í frv. felst, bæði frá félögum launamanna hér í bænum og einnig frá Alþýðusambandi Íslands. Í báðum þessum mótmælum eru tekin fram mjög svipuð sjónarmið. Ég skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr mótmælum þeim, sem Alþýðusamband Íslands hefur sent Alþingi:

„Stjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir framkomnu frumvarpi um heimild fyrir ríkisstjórnina til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna, þar sem verklýðs- og aðrar launastéttir landsins eru fyrst og fremst sérstaklega skattlagðar í þessu augnamiði og tiltölulega hæst þær stéttir, sem lægst hafa launin: M. ö. o., þessar stéttir hafa mestar nettótekjur, það kemur greinilega fram í mótmælunum gegn frv. viðurkenning á því. Svo eiga þessir menn sérstaklega að vera undanþegnir því að verja nokkru af tekjum sínum til þess að halda uppi verðgildi peninganna. Við getum ekki séð, að það sé neitt réttlæti í slíku, og getum þar af leiðandi ekki fallizt á, að þessi hópur manna eigi með öllu að skjóta sér undan þessum byrðum. Við verðum að gæta þess, að það eru mjög breyttir tímar frá því, sem var fyrir einu ári, og það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn um það, að það verður að taka tillit til þeirra breyttu aðstæðna, þegar verið er að gera kröfur til manna um slíka skattaálagningu sem þessa. Ég skal svo ekki hafa öllu fleiri orð um brtt. meiri hl. n.; og munu án efa gefast tækifæri til þess að ræða nánara um þær síðar við umr. Það er kominn tími til þess að þjóðin í heild geri sér grein fyrir því, hvert stefnir með þeim tilslökunum, sem felast í brtt. n.

Þá er enn fremur ein brtt. frá 2 nm., hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk., sem er á þskj. 743 og fer í þá átt, að ríkisstj. heimilist að verja fé, sem næst inn samkv. þessum ákvæðum, ef að 1. verða, til þess „að tryggja framleiðendum að verð á kjöti og mjólk og öðrum landbúnaðarvörum, sem nauðsynlegt telst, að dómi Búnaðarfélags Íslands, til þess að framleiðsla þeirra afurða dragist ekki saman.“ Náist ekki þetta verð með verðlagsákvæðum verðlagsn., þá á stj. að vera heimilt að ákveða með 1. lægra útsöluverð, og annað eftir því. M. ö. o., í þessari brtt. felst ekki annað en það, að afnumið verði söluskipulag landbúnaðarins eins og það er nú. Það kann að vera, að ýmsir bændur gætu, eins og nú er, selt afurðir sínar, hvað hátt verð sem á þær væri sett. En ég segi og fullyrði, að þeir menn, sem þannig líta á málin, horfa aðeins til þess ástands, sem ríkir í dag; þeir horfa ekki fram til þess tíma, þegar aftur kreppir að og búið er að eyða öllum þeim verðmætum, sem þessi styrjöld hefur skapað. Og ég hygg, að mörgum framleiðanda mundi þykja skarð fyrir skildi eftir styrjöldina, ef það ætti að taka frá þeim söluskipulagið. Ef það ráð yrði upp tekið, að láta Búnaðarfélag Íslands ákveða verðlag á framleiðsluvörum bænda, þá er mjög sennilegt að næsta afleiðingin af því yrði sú, að Alþýðusamband Íslands vildi sjálft ákveða, hvaða laun verkamenn fengju. Þar á eftir kæmu svo ýmis fagfélög, sem vildu fá að ákveða laun meðlima sinna. Þetta hefur t. d. átt sér stað um háskólaprófessora, að þeir hafa ákveðið sín laun á bak við þingið. Þetta mundi svo endurtaka sig um allar raðir þjóðfélagsins, og er ekki að vita, hvar það tæki enda, ef ekki væri spyrnt fótum við. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, ef það verður ekki skemmt, er spor í þá átt að spyrna fótum við því kapphlaupi, sem nú er milli verðlags og kaupgjalds og enginn veit, hvar muni enda. Frá sjónarmiði okkar, sem flytjum brtt., er þetta hið minnsta, sem við getum hugsað okkur, að þjóðfélagið reyni að leggja á sig til þess, að ekki stefni að þeim voða, sem sjáanlega er fyrir höndum, ef ekki er eitthvað gert til bjargar. Ég álít, að ef ekki verður gert allt, sem unnt er, til þess að koma í veg fyrir, að krónan haldi áfram að lækka verulega mikið, þá séum við áður en varir komnir á svipað stig eins og þegar verst fór í Þýzkalandi eftir styrjöldina síðustu, að þúsund marka seðlar voru minna virði en ógild frímerki.