13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Jón Pálmason:

Við 1. umr. þessa máls tók ég ekki þátt í umr., og vegna þess vænti ég, að hæstv. forseti taki ekki hart á því, þó að ég víki nú nokkuð almennt að því stórmáli, sem hér liggur fyrir. Í rauninni er þetta frv. hið stærsta mál, sem fyrir þinginu hefur legið, og eitthvert stærsta mál, sem þingið hefur haft með að gera um langt skeið, og satt að segja hefði mönnum fundizt eðlilegast, að þetta mál hefði verið eitt af fyrstu málum þingsins en ekki eitt þeirra síðustu.

Um það bil sem núverandi ríkisstj. var mynduð og tók við völdum, þá var komið svo í okkar þjóðfélagi, að framleiðslan til sjávar og sveita var komin í stóran vanda, sjávarframleiðslunni lá við strandi, og sveitaframleiðslan hafði undanfarin ár verið að komast í meiri vanda. Orsakirnar, sem til þessa liggja, eru sjálfsagt margar, en hluturinn er sá, að höfuðorsökin lá í því, hvað mikil hlutfallsbreyt. varð á milli launakjara og vinnulauna annarsvegar og framleiðslukostnaðar hins vegar. Hvað landbúnaðinn snertir hefur breyt. að þessu leyti orðið sú frá árinu 1914 til ársins 1939, að framleiðslan hefur fallið mjög í verði. Kaupgjaldið 1938 er komið upp í 420, miðað við það, að á sama tíma , er mjólkurverð til bænda hér í nágrenni Reykjavíkur ekki hækkað nema úr 100 upp í 137, og afurðir af sauðfé hækka ekki meira en úr 100 upp í 183. Þessi stórkostlega hlutfallsbreyt. var það, sem olli því, að landbúnaðurinn átti við stöðugt meiri og meiri örðugleika að stríða. Fólkið streymdi úr sveitunum til bæjanna og jarðir fóru að leggjast í eyði.

Grundvöllurinn fyrir því, að núverandi stj. var mynduð og reynt var að gera breyt. í þessu efni, var sú, að nauðsynlegt var að gera breyt. á gengi íslenzku krónunnar. En það var augljóst mál, að sú ráðstöfun gat ekki komið að fullu gagni nema því aðeins, að aðrar frekari ráðstafanir væru gerðar. Á þetta reyndi fyrst verulega á þinginu, sem haldið var haustið '39, eftir að núverandi stj. var mynduð. Eftir alllangt þinghald og mjög mikil átök um það, hvernig fara ætti að um þá hluti, kom í ljós, að ráðstafanir í þá átt að gera verulega breyt. frá því, sem verið hafði, strönduðu og náðu ekki fram að ganga. — Ég hafði á því þingi og mörgum öðrum átt hlut í því að reyna að fá því til vegar komið, að einhver breyt. yrði gerð í þessum efnum. Þess vegna var það, að ég bar fram frv. á þinginu í fyrra, sem mér hafði skilizt, að meiri hl. þm. gæti fallizt á. Frv. fór í þá átt, að lagðar yrðu fram 2 millj. kr. til þess að borga mismuninn á milli þess framleiðsluverðs, sem bændur þurftu að fá fyrir kjöt og mjólk á innlendum markaði, og þess verðs, sem Bretar gæfu fyrir þær vörur. Ég skal ekki fara nákvæmlega út í það að lýsa átökunum um þetta mál, mönnum er það kunnugt. Nú hefur það komið í ljós, einkum nú síðan um áramót, að það hefur verið haldið áfram að greiða þeim mönnum, sem hafa föst laun, fulla verðuppbót á laun sín í samræmi við dýrtíðina án tillits til framleiðslunnar. Nú fór það svo, þó undarlegt mætti virðast, að frv. mitt náði ekki samþykki þingsins, en hið opinbera fékk í samningum við Breta 5 millj. kr. til verðuppbótar á þær framleiðsluvörur í landinu, sem harðast yrðu úti á innlendum markaði. En nú hefur það komið í ljós, að sá hluti bænda, sem þarna er um að ræða, hefur ekki farið illa út úr framleiðslunni á árinu 1940. En þetta kemur ekki að haldi þeim hluta bænda, sem byggja framleiðslu sína á mjólkinni, og þess vegna er allmikill hluti þeirra í sömu fordæmingunni, ef svo mætti segja, og var, áður en núverandi stj. tók við völdum. Þau loforð, sem hafa verið gefin um að bæta hag framleiðenda, hafa ekki verið efnd fyrr en nú, að viðleitni er sýnd með þessu frv. Það er alveg ljóst, að ef svo væri látið halda áfram, er, eins og raunar hefur verið tekið fram, auðsætt, að gengi krónunnar hrynur og dýrtíðin vex og hvað eltir annað, kaupgjaldið og dýrtíðin þess vegna er alveg ósæmilegt fyrir hvern, sem á setu sem fulltrúi á Alþ., að vilja ekki gera ráðstafanir til varnar því, sem framundan er. Það er engin von um að fá framlög af hálfu Breta til verðbóta innlendri framleiðslu og allsendis óvíst, hvernig fer um sölu landbúnaðarafurða. Þegar á að fara að gera ráðstafanir til bjargar, hefði ég fremur kosið, að þær væru gerðar svo, að ljóst væri, hvað ætti að gera og hvernig ætti að verja því fé, sem fyrir hendi er, en að allt sé í heimildarformi. En vegna þess að nú er komið að þinglokum og ekki hægt að sitja lengi enn, hef ég fallizt á að ganga frá þessu máli í þessu formi. — Það mun vera a. m. k. flestum þm. kunnugt, að um margar vikur hefur landbn. haft það til meðferðar að reyna að fá því til vegar komið, að trygging fengist fyrir bændur til þess að framleiðsla þeirra þyrfti ekki að dragast saman. Till. landbn. hafa ekki fengið, áheyrn, og harma ég það mjög, því að nú, þegar líður að slætti og engin fullvissa er fyrir, hverju hægt er að búast við um verð, er framleiðslan öll í óvissu.

Það er auðséð, að um tvær leiðir er hér að ræða. Önnur er að láta landbúnaðarframleiðsluna hækka stöðugt og láta í kjölfarið fara hækkun á launum, eða gefa á milli framleiðsluverðs og útsöluverðs. Það er auðsætt, að hér er um þýðingarmestu matvörur að ræða, og samkv. grundvelli þeim, sem kauplagsn. byggir á, er áætlað, að í bæjunum sé helmingur af öllum matvörum kjöt- og mjólkurvörur. Ég held, að það væri hægt að koma fæðunotkun þjóðarinnar í það horf, að þetta verði meira en nú, með því að auka framleiðsluna og tryggja söluna, því að sannleikurinn er sá, að eins og er með verðið á erlendum markaði, er hæpið, að það borgi sig að flytja út. Það er ekki hægt að komast hjá því, að ríkisvaldið gert ráðstafanir til þess, að hægt sé að halda framleiðslunni í fullum gangi.

Í öllum umr., sem fram hafa farið um málið, hefur komið fram mikill ágreiningur, ekki aðeins í blöðum, heldur og í ræðum manna, um það, hvort till. landbn. og till. þessa frv. væru styrkur til bænda eða til neytenda. Sumir mega ekki heyra nefndan styrk til bænda, aðrir ekki til neytenda. Þetta er mikill barnaskapur. Hér er um að ræða ráðstafanir, sem allri þjóðinni eiga að koma að gagni. Bændur og neytendur eru háðir sama lögmáli að því leyti, að það er báðum í hag, að fjármál landsins í heild séu í sem varlegustu lagi.

Ég skal nú víkja að þeim till., sem fyrir liggja, einkum brtt. meiri hl. fjhn. og till. minni og hv. 3. landsk. þm.

Fyrsta till. okkar er í samræmi við till. og kröfur, sem landbn. hefur haldið fram undanfarið, að það skuli reiknað út af Búnaðarfél. Ísl., hvaða verð bændur þurfi að fá á kjöt og mjólk. Það er undarlegt, sem kemur fram hjá hv. frsm. fjhn. og fleirum, að þetta sé óeðlileg krafa. Hitt er líka rangt hjá hv. frsm., að í þessari till. felist nokkuð um að afnema mjólkur- og kjötl., heldur á hún að tryggja, að það séu ekki verðlagsn. einar, sem ráða verðinu, því að þær njóta. ekki þess trausts, sem æskilegt væri. Að verið sé að láta fagfélögin ákveða verðið, er ekki rétt, því að það er bara farið fram á, að það sé reiknað út, hvað þurfi til þess að framleiðslan geti haldið áfram með fullum krafti.

till., sem fjhn. stendur að við 1. gr. frv., bætir svolítið úr, en samt felst ekki í henni sú trygging, sem felst í brtt. á þskj. 743. Ég vil því að hún verði samþ. Ef mönnum finnst hún reka sig á 1. gr., má leiðrétta það við 3. umr.

Þá vil ég líka víkja að till., sem hv. meiri hl. fjhn. flytur, og þeirri afstöðu, sem hefur valdið mestum ágreiningi um skattana. Í sjálfu sér er ekki ósanngjarnt eins og nú er komið, þó að sá skattur verði á lagður, sem um ræðir í frv. hæstv. viðskmrh. En að ég hef flutt brtt. við þessa gr. byggist á því í fyrsta lagi, að það er komið í ljós, að ef frv. væri samþ. óbreytt, mundi það valda svo miklu ósamlyndi, að ég álít, að við mættum ekki við því, en í öðru lagi er það svo, að þó að þessi skattur sé í sjálfu sér ekki ósanngjarn, þá er aðferðin um álagninguna óviðfelldin, því að á þessu sama þingi er búið að ákveða álagningu á tekjurnar 1940. Í þriðja lagi er það að athuga, að í till. fjhn. kemur fram, eins og hv. þm. Seyðf. vék að, að það eru tryggðar aðrar tekjur á móti lækkuninni á skattinum samkv. till. meiri hl. n. með því að heimila 50% álagningu á áfengistoll, tóbakstoll og gjald af innlendum tollvörutegundum. Samkv. síðasta landsreikningi, 1939, voru þessir tollar rúmar 3 millj., þannig að tekjur af þessu hefðu numið 1½ millj. Auk þess er í þessari gr. heimild til að hækka aðflutningstolla á vörum, sem þar um ræðir. Till. um þetta var flutt af hæstv. fjmrh. við n. Hér er því ekki orðinn mikill munur á tekjum, sem heimilt er að innheimta samkv. frv. óbreyttu og samkv. till., sem fyrir liggja, með samþ. brtt. meiri hl. fjhn. A. m. k. er ekki , svo mikill munur, að mikið veður sé út af því gerandi.

Í fjórða lagi er það sú ástæða, sem gerir að verkum, að ég fellst á að vera meðflm. brtt., að mér er ljóst, að það er fullkomið tækifæri fyrir næsta þing til að leggja aukaskatt á tekjur þessa árs, og ég verð að segja, að ég tel æskilegt, að það sé ákveðið í byrjun þings, hvaða skatta og aukaskatta á að leggja á.

Annars fer það nokkuð eftir því, hvernig fer um brtt., hve mikið samlyndi verður um afgreiðslu frv., og ég skal taka það fram, að mér er ljóst, að það hve mikið gagn verður að aðgerðum okkar, fer fyrst og fremst eftir því, hvernig ríkisstj. tekst um framkvæmd á heimildum þeim, sem henni eru fengnar. Ég vil segja, að það hvernig ríkisstj. tekst um framkvæmdina á komandi ári, fer eftir því, hvort henni lukkast að vinna aftur það traust, sem hún frá ýmissa sjónarmiði hefur glatað, eða hvort framkvæmdin verður svo að traustið minnki enn á ný.

Ég vænti að það verði samþ. að setja inn í frv. brtt., sem fyrir liggja í þremur þskj.