13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Bjarni Ásgeirsson:

Ég byrja með sama formála og flestir aðrir, sem talað hafa hér, að ég sat á mér við 1. umræðu, til þess að flýta málinu og mun því sennilega ekki alveg fylgja reglum þingskapa, að ræða aðeins einstakar gr. við þessa umræðu, og vona ég, að hæstv. forseti sýni mér sama langlundargeð og öðrum.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefur að vísu ekki legið fyrir þessari hv. d. nema fáa daga. Samt sem áður er það ekki alveg nýtt mál í þinginu, vegna þess að það hefur verið rætt allmikið innan flokkanna, áður en það kom hér fyrir hv. deild. Ég veit a. m. k., að í Framsfl. hefur það verið rætt svo að segja allan þingtímann, og geri ég ráð fyrir, að það sama hafi líka átt sér stað í öðrum flokkum.

Annar aðaltilgangur þessa frumv. er að afla ríkisstj. heimilda til aukinna tekna, í þeim tilgangi að halda niðri dýrtíðinni í landinu, svo að koma megi í veg fyrir, að allt verðlag skrúfist upp úr öllu hófi og hafi það í för með sér, að verðgildi peninga minnki smátt og smátt, svo að það jafnvel verði að engu. Og ég fyrir mitt leyti segi ekki nema allt gott um þennan tilgang.

Það hefur verið nokkuð rætt um það á hæstv. Alþingi, hvort sá stuðningur, sem þetta frumv. á að veita stéttum þjóðfélagsins, sé stuðningur til framleiðenda eða stuðningur til neytenda. En mér er næst að segja, að það sé stuðningur til hvorugrar þessarar stéttar út af fyrir sig, heldur megi það frekast teljast stuðningur til þeirra manna, sem eiga peninga, og sé tilraun til að halda þeim í gildi, borið saman við það verðmæti, er þeir hafa haft í þjóðfélaginu að undanförnu. Og í raun og veru má segja, að það sé stuðningur til þjóðfélagsins alls, því að tilgangurinn er að reyna að koma í veg fyrir þá eignaröskun og ófyrirsjáanlegu atvinnuröskun, sem hlyti af því að leiða, ef peningar yrðu verðlausir, og kæmi niður á þjóðinni allri, eins og t. d. bezt sást í Þýzkalandi eftir stríðið 1914–18. Um tekjuöflunarhliðina skal ég ekki ræða mikið, en aðeins skýra frá því, að ég mun fylgja þeim tillögum um þá hlið málsins, sem bornar voru fram í frumvarpinu upphaflega. Og ég tel, að gildi frumvarpsins rýrni mikið, ef samþ. verða brtt. meiri hl. fjhn., þær sem hér liggja fyrir.

En það, sem ég vildi sérstaklega ræða um, er hin hliðin, sem ekki liggur eins ljós fyrir, það er, á hvern hátt beri að verja þeim peningum, sem samkv. frumv. er artlað að afla. Og vil ég þá sérstaklega snúa mér að þeirri hliðinni, sem að landbúnaðinum veit. Það var að heyra á ýmsum ræðumönnum við 1. umr. þessa máls, að þeir óttuðust, að hér ætti að fara að ausa fé í landbúnaðinn í óhófi og skapa bændum með því gróða, á kostnað annarra stétta þjóðfélagsins. Mig langar til að fara nokkrum orðum um þær umr. og þann tón, sem mér finnst bera nokkuð mikið á í þessum efnum í hinu opinbera lífi, bæði nú og að undanförnu.

Menn tala mikið um dýrtíðina og nauðsynina á að halda henni niðri. En það er eins og menn sjái þá fyrst hækkun vöruverðs og aukna dýrtíð, þegar vörur landbúnaðarins hækka í verði, þó ekki sé nema smáræði, hvort sem um er að ræða kjöt eða mjólk. Þá fyrst finnst mörgum eins og allt þjóðfélagið sé að ramba norður og. niður. Þessi einsýni hefur gengið svo langt hjá sumum flokksblöðunum að í sama tölublaðinu hefur á 1. síðu verið fagnað yfir því, að fiskiafurðir hafi hækkað um eða yfir 100%, en á annarri síðu hefur verið átalið harðlega sem ófyrirgefanlegt okur, að landbúnaðarvörur hafi hækkað um rúman helming af því. Menn gleðjast yfir velgengni ýmissa atvinnufyrirtækja, enda þótt gróði þeirra hljóti að hafa í för með sér stórkostlega verðhækkun og aukna dýrtíð í landinu. Ýmsir minnast í þessu sambandi á Eimskipafél. Íslands, sem græddi um 3 millj. króna á síðastl. ári, og er gleðin yfir því yfirgnæfandi, þó að nokkrum þyki hér nóg um, því að vitanlega verður þessi gróði til þess að auka dýrtíðina í landinu, þar sem hann hlýtur að hafa í för með sér hækkað vöruverð. En hér horfa menn aðeins á Eimskipafélag Íslands, af því að það hefur opinberlega birt reikninga sína, þó að vitanlega sé hér sömu sögu að segja af öðrum fyrirtækjum, sem hafa með höndum verzlun og siglingar fyrir þjóðina. Ég ætla ekki að fara að sjá eftir þessu handa Eimskipafélagi Ísland. Sú stofnun er betur að þeim gróða komin en margar aðrar. Og vel má vera, að Eimskipafélaginu veiti ekki af þessu til þess að standast áföll, er það kann að verða fyrir síðar af völdum styrjaldarinnar. En þessi gróði er sem næst því, sem nemur öllu verði nýmjólkur þeirrar, er seld er og er einn höfuðliður í tekjum baenda úr 5–6 nágrannasýslum höfuðstaðarins. Nú er ég sannfærður um það, að hefði mjólkin verið hækkuð á síðastl. ári umfram það, sem varð, um aðeins 10% af þessari upphæð, þá hefði sú hækkun orsakað það Ramakvein í blöðum höfuðstaðarins, að seint hefði linnt.

Eins og ég sagði fyrr, hafa þau ummæli fallið hér í umr., að tilgangurinn með frumv. þessu væri sá að skapa bændum óeðlilegan stríðsgróða, og hefur verið sagt í því sambandi: „Hvaða stríðsgróða hafa embættismenn og fastlaunamenn fengið?“ „Bændum er ekki vandara um en þeim“, hafa þessir menn sagt. Það er réttlátt, að þeir fái verðhækkun á vörur sínar, sem nemur þeirri verðlagsvísitölu, er launamönnum í landinu er reiknuð sín kauphækkun eftir. Í þessu sambandi hafa menn enn fremur talað um hina hastarlegu og ósanngjörnu verðhækkun, er orðið hafi á landbúnaðarafurðum, kjöti og mjólk, haustið 1940 og rætt um það eins og að sú verðhækkun hafi orðið til þess að koma dýrtíðaröldunni af stað. En sú verðhækkun, sem varð á vörum þessum þá, var lítið fram yfir það, sem verðvísitalan sagði til um á þeim tíma. Og á það hefur verið bent áður, þegar um þessa verðákvörðun hefur verið rætt, að t. d. sauðfjárafurðir bænda, kjötið, fellur til á markaðinn aðeins einu sinni á ári, og það verð, sem bændur fá fyrir að þá, verður að standa undir allri verðhækkuninni, sem lendir á þeim til jafnlengdar næsta árs. En ef búskapurinn á að vera fjárhagslega heilbrigður, þurfa tekjur, sem haustinnleggið gefur, að geta staðið undir útgjöldum búsins fram undir næstu sláturtíð. Verðhækkun kjötsins haustið 1940 þurfti því, ef alls réttlætis átti að gæta, að koma að nokkru leyti fyrir sig fram, svo að það stæði undir hækkuðu verði allrar þeirrar vöru, sem bóndinn þurfti að kaupa til búsins þetta tímabil, og það eins, þótt þeirri reglu væri fylgt, að bændur fengju aðeins verðuppbætur, sem næmi hinni almennu verðhækkun í landinu samkv. vísitölu kauplagsnefndar. En nú tel ég, að bændur eigi kröfu á að fá mun hærra verð en sem því nemur. Fyrst og fremst vil ég halda því fram, að það hlutfall, sem var á milli afurðaverðs bænda og annars verðs í landinu áður en stríðið skall á, hafi ekki verið réttlátt. Verði á framleiðsluvörum þeirra hafi, a. m. k. í sumum greinum, verið haldið niðri á sultarlínu framleiðendanna, eða jafnvel þar fyrir neðan, vegna margvíslegra söluörðugleika bæði innan lands og utan. Skal ég taka hér eitt dæmi, sem sýnir, hvað verð á vörum bænda var ósanngjarnlega lágt.

Árið 1939 sannaði Sigurður Pétursson mjólkurfræðingur, að það næringargildi, sem fékkst. fyrir 1 krónu í mjólk, kostaði 2 kr. í fiski, með því útsöluverði, er þá var á báðum þessum vörum í Reykjavík. Og með samanburði á fleiri vörutegundum sannaði hann að mjólkin væri ein af ódýrustu vörutegundum á markaðinum, fyrir utan kornvörur, og er hún þó sú matvaran, sem heilnæmust er og þjóðin má sízt án vera. Þá munu bændur hafa fengið rúm 50% af útsöluverði mjólkurinnar í sinn vasa, — m. ö. o., þegar þeir keyptu fisk í soðið, urðu þeir að láta um 4 lítra af mjólk til þess að fá næringarefni, er jafngilti 1 lítra af mjólk. Svona var hlutfallið þarna og nokkuð í sömu átt um aðrar vörutegundir. Síðan þetta var, hefur hlutfallið raskazt þannig, að samkv. verðvísitölu í maí 1941 hefur fiskurinn hækkað um 90%, en mjólkin aðeins um 70 síðan fyrir stríð. Og þó var hlutfallið stórum óhagstæðara s. 1. vetur, því þá þurftu bændur samkv. þessum reikningi að láta 5 lítra af mjólk fyrir næringargildi 1 lítra í fiski. Og þó að verðlag á kjöti hafi nú um skeið verið hagkvæmara fyrir framleiðandann en mjólkurverðið, þá hafa þó kjötkaupin verið hagkvæmari fyrir neytandann en fiskkaupin. En jafnvel þó að þessi fyrirstríðsverðgrundvöllur hefði verið réttlátur, þá er verðvísitala kaupverðlagsnefndar samt ekki réttlátur grundvöllur til að kveða á um, hvað mjólk eða aðrar landbúnaðarvörur yfirleitt eigi að hækka, vegna þess að það eru stórir liðir í útgjöldum bænda, sem ekki eru teknir með í útreikningi verðlagsvísitölunnar, en hafa hækkað margfalt meira en hún. Samkv. upplýsingum frá Áburðarsölu ríkisins hefur verð á tilbúnum áburði hækkað á þessu tímabili um 125%, og hjá mörgum bændum, sérstaklega þeim, sem framleiða mjólk til sölu, er þetta stór útgjaldaliður. Þetta tekur kauplagsnefnd ekki með í reikninginn, og þó að kaupgjald hafi ekki hækkað nema um 50% nú, samkv. verðvísitölu kauplagsnefndar, hefur þó kaupgjaldið, sem bændur verða að greiða, víða hækkað milli 100 og 200%, og þetta er mjög eðlilegt. Kaupgjaldið eins og það var ákveðið á tíma fyrir stríð var miðað við hina stopulu vinnu, og þess vegna varð að borga mönnum meira fyrir hvern tíma en þurft hefði, ef þeir hefðu haft fasta vinnu. Þetta sáu margir verkamenn og vildu því heldur vinna, þar, sem þeir höfðu fasta vinnu og frítt fæði og húsnæði, þó að kaupið væri lægra um tímann, og þannig báru þeir oft meira úr býtum yfir árið, þó að tímakaupið yrði lægra. Nú er ekkert til, sem heitir stopul vinna, og tímakaup hið sama alla daga, og er því eðlilegt, að að sama skapi hækki kröfur þeirra til bænda, ag verða þeir því að borga verkafólki nú ekki aðeins 50%, sem nú eru greidd ofan á grunnlaunin, heldur líka alla þá hækkun, sem skapaðist við það, að vinnan breyttist úr stopulli vinnu í fasta. Þarna eru þá komnir tveir liðir, sem ekki eru teknir með í kauplagsvísitöluútreikningnum, sem bændur verða að taka á sig og hvor um sig felur í sér um á annað hundrað % hækkun. Það ætti því að vera ljóst, að ekki er nægilegt, ef bændur eiga að standa jafnt að vígi og fyrir stríðið, að þeir fái vöruverð sitt hækkað um aðeins það, sem nemur vísitölu kauplagsnefndar. Þeir verða að fá drjúgum meiri hækkun, þó að þeir eigi ekki að gera neitt meira en að standa í stað.

En er þá rétt að halda bændum á sömu línunni og fastlaunamönnum ríkisins? Ég segi nei og aftur nei. Það er talað um, að embættismenn hafi ekki fengið stríðsgróða. Það er rétt, og þeir eiga enga kröfu á stríðsgróða. Hvað er eiginlega þessi svokallaði stríðsgróði atvinnuveganna? Ekkert nema fyrirframúttekt atvinnulífsins, fyrirframúttekt, sem það vafalítið verður að skila aftur síðar með rekstrarhalla, þegar afturkastið kemur. Allt fjármálalíf er gengið úr skorðum. Það gengur í bylgjum, og nú erum við á háfaldi bylgjunnar, og færir hún mörgum mikla fjármuni. En það er eins víst og tveir og tveir eru fjórir, að sú bylgja á eftir að falla og við með henni niður í öldudalinn. Samkv. reynslu okkar frá styrjöldinni 1914–18 eigum við það víst, að fjárhagslegir örðugleikar sigla í kjölfar hennar, svo að því, sem atvinnuvegirnir nú græða, verða þeir þá að skila aftur með rekstrartapi. En það verður ekki heldur annað sagt en að margur maðurinn hafi fengið aðstöðu til að búa sig undir þetta afturkast, sem í vændum er. Þeir, sem sjávarútveg stunda, bæði útgerðarmenn og sjómenn, hafa nú þegar hlotið svo mikinn stríðsgróða, að annað eins hefur ekki áður þekkzt, jafnvel ekki í fyrra stríðinu. Verkamenn hafa að vissu leyti einnig fengið stríðsgróða. Ég hygg, að það séu engar ýkjur, þegar sagt er, að fyrir stríðið hafi verkamenn ekki haft fulla vinnu nema sem svarar 2 daga af hverjum þremur. Nú hafa þeir örugga vinnu, alla daga jafnt, og það út af fyrir sig er sama og a. m. k. 50% hækkun á tekjum þeirra. Og ofan á það fá þeir svo dýrtíðaruppbót samkv. samningum við atvinnurekendur, sem nú er um 50%. Þannig hafa þeir fengið sínar tekjur hækkaðar alls um á annað hundrað %. Um verzlunina, iðnaðinn og siglingarnar má segja nokkurn veginn hið sama, enda er velgengni þessara atvinnuvega ætíð tryggð, þegar hið almenna atvinnulíf í landinu er í blóma. Embættismenn hafa að vísu ekki fengið hinn svokallaða stríðsgróða, en ég álít, að þar sé öðru máli að gegna. Það hefur verið og er svo, að embættismönnum eru greidd föst laun, hvernig sem gengur. Þeir hafa fengið uppbót, sem nemur hinni auknu dýrtíð í landinu, og ég tel, að þeir eigi ekki kröfu á meira en því, vegna þess að þegar kemur niður í öldudalinn og erfiðleikarnir koma niður á atvinnuvegunum og ríkinu, þá greiðir það sinn síðasta pening til fastlaunamannanna. Þá verða hinar stéttirnar að sjá um sig sjálfar og bændurnir líka. Nú tel ég ekki nema rétt og gott, að sjómenn og útgerðarmenn skuli hafa fengið aðstöðu til að græða, því að þeir eiga eftir að mæta erfiðleikunum, sem hljóta að koma eftir stríðið, enda hefur Alþingi viðurkennt þá nauðsyn með því að veita þeim undanþágu frá skatti á nokkrum hluta tekna þeirra, til varasjóðssöfnunar o. fl., svo að þeir standi betur að vígi til að mæta erfiðleikunum síðar meir. Ég sé ekki heldur eftir þeim gróða, sem verkamennirnir fá. Þeim veitir ekki af honum. Það er víst, að þegar erfiðleikarnir koma á ný, þá bitna þeir ekki síður á verkamönnunum en atvinnurekendunum, og ég óska, að þeim mætti takast að nota þær miklu tekjur, er þeir fá þessa dagana, til að búa í haginn fyrir sig, áður en atvinnuleysið skellur yfir á ný. En hvað er þá um bændurna? Halda menn, að erfiðleikar komandi tíma komi ekki niður á þeim eins og öðrum? Vissulega! Og er þá ekki nauðsyn, að þeir, eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins, sem verða munu fyrir barðinu á kreppunni, þegar hún kemur, fái aðstöðu til, eftir því sem mögulegt er, að búa í haginn fyrir sig? Á að skilja þá eina eftir á þeirri sultarlínu, sem þeir hafa verið á? Hvernig halda menn, að fari fyrir þeim, þegar þeir eiga að taka á móti erfiðleikunum, án þess að hafa getað safnað nokkrum varasjóði á þeim tímum, er peningarnir flæða yfir landið? Þetta vil ég undirstrika hér, því mér virðist, að á þessu hafi lítill skilningur komið fram í umræðum margra í þessu máli. Ég vil því halda því fram, að nauðsynlegt sé, að bændum gefist aðstaða til þess, meðan uppgangstímar eru í landinu, að búa í haginn fyrir sig, borga niður eitthvað af skuldum sínum og helzt safna nokkrum varasjóði, til þess að geta staðið af sér áföllin síðar. Og ég er sannfærður um, að það fé, sem bændur hafa fengið handa á milli, mundu þeir ekki nota verr en aðrir til styrktar atvinnurekstri sínum.

Af þessu, sem ég nú hef sagt, má það ljóst vera, að afurðir bænda þurfa að hækka stórum frá því, sem nú er, ef fullkomins réttlætis á að gæta í málum þessum. En þá kemur vitanlega að því, sem þráfaldlega hefur verið rætt hér á þingi, að eins og málum þessum er nú komið, mundi þetta hafa það í för með sér, að vísitalan hækkaði og kaupið hækkaði og skrúfan héldi áfram upp á við. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að fram komi tillögur um það, að stemma stigu fyrir því, að ráðstafanir, jafnnauðsynlegar og þessar eru, verði til þess að hjálpa þeirri kvörn að mala, sem nú er byrjuð að mala peningagengið í landinu. Þess vegna er nauðsynlegt og sjálfsagt að afla tekna til að greiða af opinberri hálfu nokkurn hluta hinnar réttlátu hækkunar á verði landbúnaðarafurða, til þess að vísitalan hækki ekki jafnóðum. Sú greiðsla er út af fyrir sig ekki til framleiðenda né neytenda, eins og ég hef áður sagt, heldur til hins, að halda uppi viðunandi gengi peninganna í landinu.

Ég vil nú enn nefna eina ástæðu til viðbótar, um hversu mikilvægt það er að halda framleiðslumætti landbúnaðarins ólömuðum einmitt nú. Eins og nú er ástatt, er það fyrst og fremst nauðsyn þessarar þjóðar að tryggja sem mesta framleiðslu landbúnaðarins. Það hefur verið, er og verður verkefni landbúnaðarins að leggja til mikinn hluta þeirrar fæðu, sem þjóðin lifir á, og þann hlutann, sem hún má hvað sízt án vera. Nú er það svo, eins og kunnugt er, að landið er lýst í hafnbann af öðrum stríðsaðilanum, og samgöngur okkar við önnur lönd eru svo miklum erfiðleikum bundnar, að segja má, að siglingarnar hangi nú á hárþræði, og við vitum ekki, hvenær á þann þráð verður skorið. Hvernig færi nú, ef við einn góðan dag vöknuðum upp við það, að við værum hér inni brenndir og kæmumst ekkert út fyrir landið til aðdrátta, og ef við þá einnig værum búnir að ganga svo frá þeim atvinnuvegi, er aðallega aflar þjóðinni fæðu, að hann væri þess ekki lengur megnugur að inna það verk af hendi nema að litlu leyti? Það getur hver sagt sér sjálfur. Það eina, sem þjóðin hefur í hendi sér til að tryggja það, að hún svelti hér ekki inni á þessu eylandi, en að fólkið geti lifað, á hverju sem gengur, er það, að landbúnaðurinn geti haldið fullum mætti til þess að framleiða sem mest af fæðu úr skauti náttúrunnar. Þess vegna má segja, að mál þetta. sem hér er minnzt á, sé alveg sérstök öryggisráðstöfun fyrir þjóðina sem heild, til þess að hún þurfi ekki að svelta, og því sé sérstök nauðsyn nú að framleiða sem mest, framleiða meira en nokkru sinni fyrr, en það getur landbúnaðurinn ekki gert nema honum sé tryggð sú fjárhagsafkoma, að hann geti greitt þeim, sem við landbúnaðarstörf vinna, eitthvað svipað kaup og aðrar stéttir þjóðfélagsins greiða sínum starfsmönnum. Það þýðir ekki að hrópa upp í sveitirnar og segja: „Verið þið á ykkar pósti, bændur góðir, það er ykkar skylda að sjá þjóðinni fyrir fæðu.“ Það þýðir ekki, ef mönnum er ekki um leið gefin aðstaða til að greiða verkafólki sínu svipað kaup og greitt er annars staðar og tryggja þeim fjárhagslega hagkvæma afkomu, svo að atvinnuvegur þeirra sökkvi ekki dýpra og dýpra í þær skuldir, sem sannarlega eru allt of miklar fyrir. Það er ekki nema skiljanlegt, að ungir menn leiti burt, þangað sem þeir sjá peningana renna í stríðum straumum, þaðan sem þeir fá ekki nema rétt til fæðis og klæðis. Þá langar til að afla sér fjár, til að geta veitt sér menntun og til að undirbúa atvinnurekstur sinn síðar meir. Það er ómögulegt að halda þeim á heimaklafanum, nema kjör þeirra séu í einhverju samræmi við þau, sem aðrir hafa við að búa. Það er ekki heldur hægt að lá bændum, þegar þeir eru að sjá, að þeir sökkva dýpra í skuldir og erfiðleika við búskap sinn, þó að þeir leiðist til að afla sér atvinnu og peninga við betur launuð störf, þegar þeir sjá, að á þann hátt geta þeir staðið í skilum við lánardrottna sína og bætt aðstöðuna. Þess vegna er ekki annað ráð til að halda uppi þessari framleiðslu en að skapa bændum aðstöðu til að greiða það kaup, sem af þeim er heimtað, og til að standast þann kostnað, sem á þá er lagður vegna atvinnurekstrarins. Ég hefði því talið það ekki óeðlilegt, að Alþingi hefði nú undir þessum sérstöku kringumstæðum tryggt bændum lágmarksverð fyrir framleiðsluvörur þeirra, á komandi ári, svo að þeir vissu, að hverju þeir gengju, og gátu lagt fram krafta sína við framleiðsluna, fyrir sjálfa sig og alla þjóðina. En þetta fær ekki byr hér á Alþingi, og þess vegna mun ég fyrir mitt leyti taka því næstbezta, en það er að fylgja því frumv., sem hér liggur fyrir, því að ég tel, að í því felist möguleiki til að framkvæma það, sem ég tel þurfa til að veita landbúnaðinum viðunandi fjárhagsafkomu og að tryggja landsfólkinu nauðsynlega framleiðslu landbúnaðarafurða. En eins og ég tók fram áður, hefði ég kosið, að frumv. þetta hefði verið ákveðnara í þessu efni, og skal ég þá strax geta þess, að mér finnst til bóta brtt. sú frá fjhn., sem borin er fram á þskj. 741, 1. gr., þar sem látið er skína í einmitt þetta, sem ég hef lagt aðaláherzlu á, að gert yrði. Heiti ég nú á hæstv. ríkisstj. að nota heimild þá, sem hún fær í hendur með frumv. þessu, ef að lögum verður, til að tryggja þá hlið málsins, sem ég hef nú gert að umtalsefni.

Ég vil þá að lokum leiðrétta þann misskilning, sem virtist koma fram hjá hv. 1. þm. Rang., að með brtt. tveggja fjhnm. á þskj. 743 sé verið að kollvarpa öllu kjötsölu- og mjólkursöluskipulaginu. Það er langt frá, að svo sé.

Hins vegar það, sem brtt. sérstaklega felur í sér, er það, að höfð verði samráð við Búnaðarfélag Íslands um það verðlag, sem sett yrði á landbúnaðarvörur, og tillit tekið til þeirra upplýsinga, sem það getur gefið um þau atriði. Þetta yrði að gera til þess að allra sjónarmiða yrði gætt betur en gert hefur verið. Og þó ég vilji engum steini að þeim kasta, sem hafa haft þetta vandasama starf með höndum, þá finnst mér þeir hafa gengið of skammt í að taka tillit til þess gífurlega kostnaðar, sem fallið hefur á. bændur á undanförnum árum.

Ég skal svo ljúka máli mínu. En ég vildi óska þess og ég vil skara á ríkisstj. að nota í fyllsta máta þá heimild, sem hún fær, til þess að bændur þurfi ekki að fara halloka og að hægt verði að halda landbúnaðarframleiðslunni sem þróttmestri á þessum alvörutímum, þegar okkur ríður meira á að hafa öflugan landbúnað en nokkru sinni fyrr.