13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Finnur Jónsson:

Fjhn. hefur milli funda starfað að þessu máli og skilað brtt., sem færa þetta frv. að ýmsu leyti til hins betra. Á ég þar sérstaklega við till. þá, sem meiri hl. n. flytur á þskj. 142, um að í staðinn fyrir allt að 5% gjald, sem frv. ætlast til, að lagt yrði á skattskyldar tekjur, komi allt að 10% viðauki við tekjuskattinn 1940–41. Nú er svo að heyra á hæstv. viðskmrh., að honum komi þetta mjög á óvart, því að í dýrtíðarn. hafi allir verið á einu máli um að fara heldur þá leiðina, sem brtt. fer fram á að nema úr frv. hans. Ég á bágt með að skilja þetta. Ég veit ekki betur en að fram kæmi frá 3 eða 4 nm. það álit, að réttara mundi að taka heldur upp álagningu á tekjuskattinn. Ég man, að honum var skýrt frá þessu áliti. Og ég man ekki betur en hann hafi skýrt mér frá, að hann hafi alltaf talið, að þessa leið bæri frekar að fara en þá, sem hann tók upp í frv. Það virðist svo sem þm. geri sér ekki alveg ljóst, hver munur er á þessum leiðum. Hv. þm. Mýr. afsakaði þetta með því, að stríðsgróðinn sé ekki nema fyrirframúttekt, sem menn verði að skila síðar. Mér er sem ég sjái það, ef allir, sem fengið hafa hagnað af breyttu ástandi, ættu að fara að skila honum af sér. (BÁ: Ætli það geti ekki verið, að Samvinnufélag Ísfirðinga fái að skila honum?). Það getur vel verið. (Viðskmrh.: A. m. k. ef hv. þm. Ísaf. fær að ráða.) Já, ýmislegt, sem til útgerðar þarf, er að verða svo dýrt, að e. t. v. fer hagnaðurinn aftur í súginn, en hér er ekki um það lögmál að ræða, að fyrir hvern fenginn ávinning þurfi að skila endurgjaldi, því síður að víst sé, að nýjar greiðslur til ríkisins hlífi við því endurgjaldi, sem þurfa kann. Það er t. d. vitað, að margir menn hafa keypt jarðir og aðrar fasteignir fyrir gróða sinn eða dregið féð á aðra vegu út úr áhættufyrirtækjum, og mér er til efs, að þeir menn skili því fé. Þó að tap kunni að bíða margra atvinnugreina, eins og hv. þm. Mýr. býst við, réttlætir það á engan hátt ummæli hans, að það sé nokkuð sama, hvort tekinn sé viðauki við tekjuskattinn eða sérstakur skattur af öllum tekjum eftir nýjum skattstiga. Ég geri ráð fyrir, að brtt. fjhn. nái samþykki, a. m. k. þær, sem hún stendur öll saman um, og sérstaklega get ég sem einn úr 6 manna nefndinni lýst ánægju yfir því, að tillögur hafa komið fram um að færa frv. meir í það horf, sem hún kaus, eins og í því að taka upp heimild til tollalækkana á nauðsynjum og tollhækkana á áfengi og tóbaki. Hæstv. viðskmrh. benti á, að í þessu væri ekki fólgið neitt nýtt, en sagði, að flutt hefði verið hér frv. um afnám á tollum og ríkisstj. hefði í undirbúningi hækkun á útsöluverði vínfanga og tóbaks. (Viðskmrh.: Um þetta er ekkert í frv. n.). Ef ráðh. rengir mig, bið ég hann að fletta upp till. l. frá dýrtíðarnefndinni, 5. gr., þar sem stendur skýrum stöfum, að ríkisstj. skuli heimiluð hækkun á tollum af áfengi og tóbaki. Ég sé, að hann hlýtur á augabragði að ganga úr skugga um þetta í skjalinu, og hygg, að ég muni hafa leiðrétt að fullu misminni hans. En ef það hefur nú verið svo, að ríkisstj. hefur alltaf haft þetta í huga, hvers vegna var hún þá ekki farin að leita beinnar heimildar til þess í þinginu fyrir hvítasunnu? Það var almennt talið, einkum af ráðherrum, að þingi ætti að verða lokið fyrir hvítasunnu. Ég vil ekki rengja hæstv. ráðh. um góðar fyrirætlanir hans. (Viðskmrh.: Hvers vegna spyr þm. þá?). Mér þykir það aðeins einkennilegt ósamræmi vilja og verks.. Og enn einkennilegra þykir mér það, að þessar till. skyldu vera numdar brott úr till. dýrtíðarn., þegar ráðh. lét leggja frv. fyrir þingið, þrátt fyrir þann áhuga, sem ríkisstj. og sérstaklega viðskmrh. hafði fyrir því að koma þessum till. fram. Nú hefur þetta sjálfsagt engin áhrif á úrslit málsins, en mér þótti rétt að taka þetta fram, af því að mér fannst hv. viðskmrh. ekki þræða að öllu leyti braut sannleikans í þessu máli.

Nú var það í upphafi fundið að þessu frv. bæði af mér og öðrum, að við sæjum ekki, að það stefndi að því að gera eins konar varnargarð gegn dýrtíðinni í landinu. Frá hv. þm. Mýr. kemur önnur aðfinnsla, — það komi ekki nógu ljóst fram í frv., að tilgangur þess sé að borga af almannafé uppbót á framleiðsluvörur bænda. Nú vil ég ekkert segja um, hvort þess sé þörf. Eins og tekið var fram við 1. umr., höfum við Alþflm. staðið að hvers konar tillögum, sem við þóttumst sjá nauðsyn á, til að bæta hag bændastéttarinnar. Svo ætti það að geta verið enn. En hvers vegna er ekki gengið hreinna til verks í þessu frv., ef tilgangurinn er sá, sem hv. þm. Mýr. segir?

Samkv. frv., eins og það er nú, skal ríkisstj. heimilt að ákveða farmgjöld á vörum, sem fluttar eru til landsins með íslenzkum skipum. Þetta var í till. dýrtíðarn. og er í samræmi við það, sem hæstv. viðskmrh. hélt fram, að hann hefði áður viljað gera. Það er óþarft af hv. þm. Mýr. að kvarta yfir því, þótt bent sé á gróða af háum farmgjöldum á liðnu ári, fyrst mönnum kemur saman um, að nauðsyn sé að hafa þar á einhvern hemil.

Það hefur verið sagt hér af tveimur hv. þm., að hagur bænda væri yfirleitt bágborinn og að tekjur þeirra væru miklu minni heldur en tekjur annarra stétta hér á landi. Ég skal engar brigður bera á þetta. Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að ekki borgaði sig fyrir bændur að framleiða lengur vörur fyrir erlendan markað. En nú vitum við það, að á undanförnum árum hefur verið greitt verðjöfnunargjald af kjöti, er seldist á erlendum markaði, til þess að geta borgað dálitla verðuppbót á þessa vöru. Það hefur ýmist verið haldið fram, að þessa verðuppbót þyrfti að greiða, af því að kjötið á innlenda markaðinum væri ekki í nógu háu verði, samanborið við kjötið á þeim erlenda, eða þá að innlendi markaðurinn fyrir kjöt væri alls ekki sambærilegur við þann erlenda. En nú segir hv. þm. Mýr., að verð á afurðum bænda, bæði kjöti og mjólk, hafi ekki verið rétt, þegar stríðið hófst. Nú hefur þetta verðlag verið ákveðið af nefnd, þar sem bændafulltrúar voru í meiri hluta, og án þess að ég vilji rengja hv. þm. Mýr., þá kemur það undarlega fyrir sjónir, að þessi verðdómstóll, sem bændur hafa meirihlutavöld á, skuli ekki hafa gætt svo vel hagsmuna bændanna, að þeir hafi treyst sér til að sjá hagsmunum þeirra sæmilega borgið. Nú getur þetta að sjálfsögðu orðið deiluatriði milli manna, og það kunna að vera til menn, sem halda því fram, að þessar afurðir hafi verið í of háu verði. En aðrir segja, eins og hv. þm. Mýr., að þær hafi verið í of lágu verði. En þetta er eins og að deila um keisarans skegg, og enginn maður getur fært á þetta fullar sönnur nema með nákvæmri rannsókn, og hún virðist alls ekki liggja fyrr. Þó að ég telji þetta frv. taka breyt. til hins betra, ef samþ. verða brtt. fjhn., sem hún ber öll fram í einu lagi, og brtt. meiri hl. hennar, þá tel ég, að enn vanti inn í þetta frv. einhver ákvæði viðvíkjandi verðlaginu í landinu, einhver ákvæði um verðdómstól og rannsókn á verðlaginu. Ef það er svo ætlunin að ná nokkrum millj. inn á ríkissjóðinn, dreifa þeim síðan út og. láta þær nefndir, sem nú hafa einveldi með verðlagið, um að hækka vöruna, þegar búið er að greiða uppbótina, þá hlýtur slíkt að geta valdið þungum deilum. Ég skil ekki, hvers vegna stj. fór ekki sjálf fram á, að inn í þetta frv. yrðu sett fyllri ákvæði viðvíkjandi verðlaginu í landinu heldur en þar eru nú, og að settar yrðu grundvallarreglur um úthlutun úr öllum þessum stóru sjóðum, sem ætlunin er að stofna. Hæstv. viðskmrh. sagði að vísu, að hér væri um mörg hófleg gjöld að ræða. En mér hafði skilizt, að eftir því, sem frv. kom fyrst fram frá hans hálfu, mundi úthlutunin úr þessum sjóðum með hóflegu gjöldin varla nema minna en 10–15 mill. kr. Það má mikið vera, ef ríkisstj., jafnvel þó að hún viti, að hún hafi fullt traust þm. bak við sig, óskar eftir því að fá fyllri ákvæði um verðlagið heldur en eru í frv. Nú er til úthlutunar frá Bretum ákveðin allmikil fjárupphæð, 5 millj. kr. að ég hygg, og mér er kunnugt um, að sú n., sem til þeirrar úthlutunar hefur verið skipuð, virðist vera í vandræðum með úthlutunina, sem virðist svífa í lausu lofti, af því að fyrir henni eru, ekki settar fastar reglur. Fimm menn hafa verið tilnefndir til að sjá um þessa úthlutun, og mér er sagt, að hæstiréttur hafi úrskurðarvald yfir þessari 5 manna nefnd. Ríkisstj. sjálf hefur lýst því yfir, að hún taki ekki á sig neina ábyrgð. M. ö. o.: hún skýtur sér undan því að taka pólitíska ábyrgð á þeirri úthlutun, sem hér er um að ræða. Hún hefur líka komið sér undan því að setja nokkrar fastar úthlutunarreglur fyrir þessari upphæð. Ef ætti að fara á sama hátt með þær millj., sem í þennan nýja sjóð kynnu að safnast, þá segi ég fyrir mitt leyti, að ég mundi ekki treysta mér til að greiða atkv. með þessu frv., jafnvel þó að það hefði tekið þeim breytingum, sem fjhn. og meiri hluti hennar hafa lagt til. Ég vildi, um leið og ég gæfi ríkisstj. þær heimildir, sem hér er farið fram á, krefjast þess, að hún sjálf gerði nákvæma rannsókn á þessum málum og bæri sjálf pólitíska ábyrgð á úthlutuninni. Ég vildi þess vegna leyfa mér að leggja 3 spurningar fyrir hæstv. ríkisstjórn og mælast til þess, að hæstv. viðskmrh. svaraði þeim. Þessar spurningar eru allar í sambandi við það atriði, sem mér finnst óljóst í frv., en það er um verðlagið og úthlutunina. Fyrsta spurningin er sú, hvort ríkisstj. ætli sér að taka verðlag á innlendum og erlendum vörum til sérstakrar athugunar í sambandi við þá úthlutun, sem gert er ráð fyrir með l. þessum. Í öðru lagi, hvort ríkisstj. ætli að hafa sjálf úrskurðarvald um úthlutun fjárins eða fela það öðrum. Ég set þessa spurningu fram að gefnu tilefni, sem ég hef tekið fram áður og snertir þær 5 millj. kr., sem nú skal úthluta. Þriðja spurningin er: Hvað verður gert, ef upp kemur ágreiningur um úthlutunina? Verður afl atkv. látið ráða innan ríkisstj. eða verður Alþ. kvatt saman til að fjalla um þær úthlutunarreglur, sem ríkisstj. kynni að hafa sett? Afstaða mín í þessu máli hlýtur að markast af því, hvaða svör ég fæ við þessum fyrirspurnum.