13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Það hefur ekki margt komið fram í umr. um þetta mál umfram það, sem áður var vitað við undirbúning þess, bæði á flokksfundum og á nefndarfundum. Þó eru nokkur atriði, sem að mínum dómi eru ýmist nýjar blekkingar eða rangfærslur, sem ég vildi minnast á, viðvíkjandi 5. gr. frv., enda þótt hv. þm. sé ljóst aðalatriði málsins. — Það, sem um er að ræða, er, að skilninginn fyrir nauðsyn þessa máls brestur allverulega hjá miklum þorra þm. Hv. þm. Borgf. lýsti því vel í ræðu sinni, hve nauðsynlegt það væri að standa saman um málið, og vildi láta gera eina tilraun enn til þess að reyna að komast að samkomulagi. — Ég er hv. þm. sammála um, að það væri æskilegt að ná slíku samkomulagi, en það hefur nú verið reynt allan þingtímann og ekki tekizt, þótt blöð sumra flokkanna hafi látið sér sæma að segja, að málið væri ekkert undirbúið. Í þingflokki Framsfl. hefur málið a. m. k. verið til umræðu allan þingtímann. — Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. sagði um nauðsyn þess, að samkomulag næðist milli flokkanna um lausn málsins, vil ég benda á, að það getur orðið hættulegt fyrir stjórnarfarið í landinu, ef samkomulag á alltaf að byggjast á vilja þeirra manna, sem minnstan skilning sýna á málunum. — Þessi orð mín meina ég engan veginn til hv. þm. Borgf., enda vill hann ekki, að þannig sé tekið á málum. — Það má ekki sveigja undan vegna dekurs við álit almennings í svip, sem ekki hefur haft aðstöðu til að mynda sér skoðun á, því, hvert stefnir. Þetta dekur hefur gengið svo langt, að eitt dagblað bæjarins lýsir því með ákaflega sterkum litum, hve óskaplegt það sé, að nú eigi að læðast aftan að mönnum og taka af þeim skatt, er nemur 25 kr. á 4000 kr. nettótekjur, sem skattgreiðendur fá þó goldinn í lægra vöruverði. — Nei, það má vissulega ganga of langt í því að reyna að ná samkomulagi um lausn mála.

Ég vil með fáum orðum víkja að nokkrum atriðum, sem fram komu við umr. hér í dag, einkum því, sem hv. þm. A.-Húnv. drap á fræðu sinni, vegna þess að í hans afstöðu kemur fram ótti við að fylgja því, sem hann þó álítur réttast. — Hann sagði, að út af fyrir sig fyndist sér ekki ósanngjarnt að leggja þennan skatt á, en hans skoðun hafi orðið að víkja fyrir þunga þess, sem aðrir segðu og aðrir héldu, enda þótt þeir hafi ekki sömu aðstöðu til að mynda sér skoðun um málið og þm. Hann sagði enn fremur, að sér fyndist aðferðin óviðfelldin, að taka nýjan skatt af mönnum, þar sem skattalöggjöfin hefði nú nýlega verið ákveðin, enda þótt þetta sé aðeins til bráðabirgða. En svo var hv. þm. ekki sjálfum sér samkvæmur, því að hann kvaðst mundu geta fallizt á, að slíkur skattur yrði innheimtur á næsta ári!

Þá sagði hv. þm. ennfremur, að hann vildi ekki fylgja þessu fram vegna þess, að samþykkt 5. gr. frv. gæti valdið ósamlyndi innan ríkisstj. og á Alþ. En ég vil spyrja: Hvort er líklegra til að vekja ósamlyndi, sú leið, sem farin er með 5. gr. frv., eða með til. fjhn.? Með till. fjhn. er farið gegn till. þess ráðherra, sem með málið fer og mest hefur undirbúið það. Innan ríkisstj. hygg ég, að með 5. gr. frv. sé komið næst því að ná samkomulagi, enda er það yfirlýst, að ríkisstj., að kannske einum ráðh. undanskildum, geti hugsað sér að fara þessa leið með einhverjum breyt. Ég veit, að hv. þm. A-Húnv. kannast við, að annar ráðherra Sjálfstfl. hefur lýst yfir því í n., að hann myndi hér við umr. gefa greinilega yfirlýsingu um það, að hann gæti hugsað sér, að farin yrði leið 5. gr., en hann hafi orðið að beygja sig fyrir flokki sínum. (GSv: Hvenær gaf ráðh. slíka yfirlýsingu?). Ef hv. þm. V.-Sk. nær tali af þessum ráðh. sínum, sem að vísu er hér ekki staddur nú, trúi ég ekki, að hæstv. ráðh. gangi á bak þeirra orða sinna. (GSv: Er það skylda mín?) Ef hv. þm. V.-Sk. rengir orð mín, ber honum skylda til að afla sjálfur réttra upplýsinga. Það má vera, að hv. þm., sem líka er dómari, telji sér heimilt að fella dóma a priori, en ég skora á hann að leggja þau gögn á borðið, er sanni, — að ég fari hér rangt með. — Ég hef ekki tíma til að skattyrðast við hv. þm., ef hann telur sér sæma slíkar dylgjur.

Það er yfirlýst, að sú lausn, sem felst í 5. gr. frv., er nær samkomulagi innan ríkisstj. en till. meiri hl. fjhn., svo það er ekki samkomulag innan stjórnarinnar, sem fyrir hv. þm. A.-Húnv. vakir, ef hann treystist ekki til að fylgja því, er hann álítur rétt vera. Það er líka alveg óreynt, hvort betra reynist til samkomulags á þingi, en ég hygg, að það muni vera fleiri þm. en hv. þm. A.-Húnv., sem kunna að greiða atkv. gegn betri vitund. (GSv grípur fram í). Ég vona, að þetta fari ekki svo í taugarnar á hv. þm. V.-Sk., að hann geti haldið sér í skefjum meðan ég flyt þessi fáu orð. Hann ætti bara að vera hinn rólegasti, því þó að hann sé valdsmaður, getur hann ekki gefið fyrirskipanir hér.

Ég hef nú minnzt á tvær aðalröksemdir hv. þm. A.-Húnv. og sýnt fram á, hve það er fjarri sanni, að þær geti réttlætt, að hann hlaupi frá sannfæringu sinni.

Þá kem ég að þriðju afsökuninni og hinni síðustu, er hv. þm. færði fyrr því, að hann valdi samt verri leiðina. Hv. þm. sagði, að það, sem bætt væri inn í með brtt. n. til tekjuöflunar, mundi vega á móti því, sem tapaðist, ef 5. gr. væri felld niður. Þetta er ekki rétt. Í brtt. n. er lagt til að fella niður tolla af allmörgum vörutegundum, og það vakir fyrir n. að bæta tollum á ónauðsynjavörur, til þess að vega á móti því svo að tekjur ríkissjóðs minnkuðu ekki af þeim orsökum. Þetta var búið að undirbúa áður, og er því ekki um nýtt atriði að ræða hér. — Það, sem bætt er við eftir að búið er að heimila að fella niður toll af helztu matvörum og nauðsynjavörum, er ekki annað en hækkun á tolli af tóbaki og innlendum tollvörum, því að hækka toll á áfengi hefur verið heimilt til þessa. Ég efast um, að tollahækkun sú, sem um ræðir á tóbaki og innlendum tollvörutegundum, geri meira en

að vega á móti afnámi þeirra tolla, sem um getur í fyrri heimildinni. — Hér er því sýnilega ekki um annað að ræða hjá hv. þm. en yfirklór, til þess að hann geti fylgt flokki sínum á þeirri óhappaleið, er hann hefur valið sér í þessu máli.

Þá kem ég að ræðu hv. 5. þm. Reykv. (SK). Þar kenndi margra grasa, en það tæki of langan tíma að rekja ræðu hans og sýna fram á veilurnar í málflutningi hans. Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast á nokkur atriði.

Hv. þm. áfelldi ríkisstj. mjög fyrir það, hve litið hún hefði gert í dýrtíðarmálinu og hve seint frv. væri fram komið. En jafnframt því, sem hann taldi hér um mikla vanrækslu að ræða, fann hann frv. allt til foráttu og sagði, að í raun og veru kæmi ekkert annað að gagni en nógu ströng verðlagsákvæði. Þetta voru aðalatriðin í fyrri hluta ræðu hans, og ber víst að skilja þetta á þann veg, að ef takast eigi að stemma stigu fyrir dýrtíðinni, beri að leggja þær aðgerðir á bak einnar stéttar í landinu, framleiðendanna, og fastsetja verð á innlendum framleiðsluvörum. Skilur hver maður, hvert þessu er stefnt, og svipuð ummæli lét hv. þm. Seyðf. (HG) sér um munn fara.

Hv. 5. þm. Reykv, gerði sér allmikið far um að sýna fram á, að bændur landsins hefðu fengið hækkun vegna dýrtíðarinnar eins og aðrir, og það mátti skilja á hv. þm., að með þeim ráðstöfunum, sem fyrir lægju í frv., væri ekki um annað að ræða en styrk til bænda. Hv. þm. þarf að lesa frv. aftur og rækilegar en áður. En það get ég sagt hv. þm., að bændur kæra sig ekki um neinn styrk frá neytendum fyrir sínar framleiðsluvörur. Fé því, sem inn kemur, mun frekar verða varið til þess að halda niðri verðlagi til neytenda en að hækka verð til bænda. En þótt einhverjum kjósendum hv. 5. þm. Reykv. þyki gott að eiga peninga, hygg ég, að ef að sverfur, muni þeir heldur kjósa matvæli en aurana. Og þeim er hollt að minnast þess, þegar sagt er, að verið sé að skattleggja neytendur vegna bænda, að það er ekki síður í þeirra þágu, að hægt sé að halda framleiðslunni í horfinu, því að seint mun svo fara, að bændur geti ekki framleitt nauðsynlegar landbúnaðarafurðir fyrir sjálfa sig. Ég hygg, að frv. beri það ljóslega með sér, að það sé ekki ætlazt til styrks til bænda öðruvísi en ef þeir eru neyddir til að senda vörur úr landi langt undir framleiðsluverði. Og að bændur eigi að taka á sig slíkan skaða, nær engri átt. — Þegar Bretar hertóku landið og settu okkur nauðungarsamninga um útflutningsverð á landbúnaðarafurðum, lögðu þeir jafnframt fram nokkurt fé til þess að bæta bændum upp það tap, er þeir þannig yrðu fyrir. Það er raunalegt til þess að vita, að skilningur okkar eigin landsmanna skuli vera minni hvað þetta snertir en útlendinga, sem hafa hernumið landið.

— Þá talaði hv. 5. þm. Reykv. mikið um það, hve það væri hörmulegt að skattleggja samkv. Þessu frv. launastéttir landsins, sem hann þó viðurkenndi, að hefðu nú talsverð peningaráð. Hann sagði, að þessir menn hefðu áður orðið að svelta, þeir hefðu ekki átt stól til þess að sitja á, og að því er mér skildist skv. lýsingu hans, hefðu þeir orðið að standa naktir inni í herbergjum sínum. Þyrftu þeir því nú á fé sínu að halda til þess að bæta úr allri þessari eymd.

En það voru fleiri en þessar stéttir, sem voru á heljarþröminni áður. Flestir þm. muna eftir sífelldum söng þessa sama hv. þm. um, hvernig komið væri hag framleiðenda við sjávarsíðuna. Og þá er það ekki síður vitað, hvernig ástatt er fyrir bændastéttinni. Ég býst við, að það séu fáar stéttir hér á landi komnar í aðrar eins kröggur, en það er ekki þar með sagt, að hún hafi ekki komizt í kröggur áður. — En við verðum að líta til nútímans og þarfa þess tíma, en ekki horfa á myrkrið bak við okkur, en reyna að bjarga því, að fleiri skuggar falli á leið okkar og þeirra, sem eiga framtíðina fyrir sér, og ekki víst, að þess sé langt að bíða, ef allar stéttir taka höndum saman og verja, að slíkt komi fyrir aftur. — Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta.

Hv. þm. V.-Sk. var að tala um tekjuöflunina að þessu, að það væri líklegt um framlag frá Bretum áfram. Ég hygg, að engir aðrir þm. hafi heyrt nefnt, að þess væri von framvegis a. m. k. hef ég ekki heyrt það.

Hv. þm. V.-Sk. minntist sömuleiðis á það, að verja einhverju af stríðsgróðaskattinum til þessa, en ég man ekki betur en að því hafi verið lýst yfir, að honum yrði varið til þess að greiða skuldir landsins út á við, en ekki eyða upp á góðárunum því, sem nú hefur safnazt saman, og er það nokkuð einkennilegur hugsunarháttur, ef nú á að fara að sleikja hvern krók, til að varna því, að leggja smáskatta á menn, sem hafa mikla peninga nú, og láta þá frekar eyða þeim á annan veg, sem verður til þess að auka á það öngþveiti, sem nú er í þessum efnum, að gengið falli meira og meira á íslenzkum peningum og þeir verði minna og minna virði með hverjum degi, sem líður.

Ég skal að lokum aðeins benda á það, að það virðast ekki miklir möguleikar til samkomulags um þetta efni, meðan blöð vissra flokka stagast á því dag eftir dag, að gera þessar ráðstafanir á vissum stéttum manna til annarra stétta, því að meðan það er ríkjandi í hugum einhverra þm., eins og sjálfsagt er, því að frá þeim kemur það sennilega í blöðin, þá eru lítil líkindi til þess, að sá grundvöllur og sá samhugur fáist, sem nauðsynlegur er fyrir þjóðina að væri, eins og sakir standa nú.

En mér kemur það dálítið einkennilega fyrir sjónir, að þegar sagt er í tekjuöflunargreininni, að lagt skuli svo og svo mikið gjald á nettótekjur manna í landinu, þá skuli einhver sérstök stétt manna hlaupa fram og segja: „Þetta er allt lagt á mig handa öðrum.“ En eru þær þær einu stéttir, sem hafa nettótekjur hér á landi? Ef það væri rétt, þá er það mikil spurning, hvort ekki væri réttlátt, að þær stéttir bæru þennan skatt. En ég er á annarri skoðun. Ég álít, að það séu allar stéttir, sem hafa meiri og minni nettótekjur og allar koma til með að bera þennan skatt, og þess vegna er það ekkert nema blekking að segja, að verið sé að afla tekna á vissum stéttum og láta þær ganga yfir til annarra stétta. Það sýnir aðeins, hvað viljinn

er mikill á því að koma þessu áfram, og meðan svo er, er ekki annað að gera en að þm. láti það í ljós með atkvgr. sinni, sem þeir álíta, að sé heppilegast og réttast.