13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Eiríkur Einarsson:

Verði svo, sem líkur eru til, að þessari umr. verði lokið nú og gengið verði til atkv. og kylfa látin ráða kasti um niðurstöðuna, þá álít ég, að með þeim ágreiningi, sem uppi er um málið og niðurstöðu þess, sé réttast, að sem flestir og einnig þeir, sem ekki hafa ætlað sér að taka til máls, láti nokkur orð falla um þau atriði, sem sérstaklega valda ágreiningi svo mun vera með fleiri, — að þetta málefni, eins og það liggur fyrir nú, er komið á breiðari og víðari vettvang en ég geri ráð fyrir, að því hafi verið ætlað, þegar fyrst var farið að hugsa og tala um þörf á lagasetningu, sem lyti að þessu málefni. — Það hefur spunnizt langtum lengra út í hin ýmislegu málefni þjóðarinnar og vandkvæði í sambandi við hernámið en upphaflega var sérstaklega rætt um, að þyrfti að liggja til grundvallar fyrir bráðabirgðalagasetningu.

Það var upphaflega rætt um, hvernig ætti að tryggja það, að nóg matvæli væru í landinu og að framleiðslan drægist ekki saman, ef svo skyldi fara, að tæki fyrir aðflutning til landsins. Og þetta var rætt með alveg sérstöku tilliti til þess, hvernig komið var með vinnuafl í landinu, því að það eru miklar líkur til þess, að til vandræða horfi fyrir bændur við að yrkja jörðina á þessu sumri.

Ég veit þess dæmi, að margur bóndinn, sem er vanur að afla heyja handa nautgripabúi með 10 kúm, hefur sparað við sig að kaupa mann, sem hann þarf að greiða eftir þeim taxta, sem nú er, og vill heldur farga 2 eða 3 nautgripum, sem hann annars hefði haft. Ef slíkt endurtekur sig á mörgum stöðum, sjá menn, hvaða afleiðingar það mundi hafa og hvernig það mundi verka á mjólkurmarkaðinn hér í höfuðstaðnum og annars staðar, einmitt á þeim tímum, sem þörfin er mest á því, að þetta sé fyrir hendi. Þetta er dæmi, sem engrar skýringar þarf við, og mætti nefna þau mörg fleiri.

Það er þessi brunnur, sem þarf að byrgja, og allir eru sammála um, að það þurfi að gera strax, því að það er nokkuð annað að afla heyja í júlí og ágúst heldur en í sept., því að þá er nokkuð langt liðið á sláttinn.

Þetta getur átt sér nokkuð víðtækar afleiðingar, og það var lengi vel þessi hlið málsins, sem rætt var um, hvernig ætti að tryggja svo að það þyrfti ekki að koma fyrir, að bændur gætu ekki verið öruggir með tilliti til afkomu sinnar, en haft þann vinnuafla, sem þeir þyrftu, svo ekki drægi úr framleiðslu þeirra.

En það er nú svo, að þegar þetta mál er hér til umr. undir þinglausnir, þá get ég ekki dulizt þess að hafa orð á því, að ég álít, að það hefði verið réttara, að þetta hefði verið rætt og tekið til úrlausnar samtímis tveimur öðrum málum, sem nú þegar hafa verið afgreidd. Ég þarf ekki að gefa nánari skýringu á því, við hvaða mál ég á, en þau eru skattalögin annars vegar og sjálf fjárlögin hins vegar. Hvað hefði verið eðlilegra en að afgreiða þessi mál með hliðsjón til og í samræmi hvert við annað? Vitanlega hefðu þau verkað á afgreiðslu fjárl. og sveiflað ýmsu til frá niðurstöðu þeirra, en það er of seint að tala um það núna, en ég vil bara geta þess, að ég tel réttláta óánægjuna fyrir því, að þetta hefur dregizt, en hitt verið afgr. á undan.

Það hefur verið orðað, að sá heimildarbragur skuli nú vera tekinn upp á Alþingi, sem áður hefur átt sér stað, þegar verst hefur gengið, að í staðinn fyrir að halda beint að niðurstöðu málefnisins, sem um hefur verið að ræða, þá skuli samhliða því meira og minna lenda af hinni gömlu trú. Hver er þiggjandinn, og hver er veitandinn?

Þetta hefur alltaf orðið til tjóns, aldrei til bóta, og svo mun enn reynast. Það lagast aldrei fyrr en önnur hugsun er lögð til grundvallar fyrir því, hvert sambandið eigi að vera milli framleiðenda, sveitamanna í þessu tilfelli, og neytenda í Reykjavík, og annar skilningur sé lagður í þetta en verið hefur fyrir hendi enn sem komið er.

Störf mjólkurverðlagsnefndar og kjötverðlagsnefndar eiga að vera þau að finna, hvort verðið er of hátt með tilliti til framleiðenda og of lágt til neytenda. Þar liggja takmörkin, og ef farið er út fyrir þessi eðlilegu endamörk, þá verður það beggja skaði. Ef mjólkurverðið fer hærra en almennur kaupvilji neytenda vill, þá verður það aðeins til þess að salan dregst saman. Að þetta sé rétt, segir sig alveg sjálft. Þess vegna vil ég segja það viðvíkjandi brtt. á þskj. 743, frá þremur hv. þm., að ég get vel fallizt á að greiða henni atkv., enda þótt ég telji vafasamt hvort síðasta setningin hefur rétt á sér. Því ef verðlagsnefndin setur annað verð en réttlátt er frá beggja sjónarmiði, þá er eitthvað bogið við það. Þá er um falskt viðskiptaverð að ræða. Að vísu ber ekki að telja verðlagsnefnd óskeikula, því mörgum getur skjátlazt, en n. er mikill vandi á höndum, og ég álít, að stjórnarvöldin hafi bæði fyrr og síðan n. tók til starfa tekið of lausum tökum á þessum hlutum. Kjötverðlagsnefnd og mjólkurverðlagsnefnd ættu að vinna sameiginlega, því þeirra starfsgrundvöllur er líkur, en ekki meira um það. Ég álít fjarstæðu, þegar talað er um hjálp eða ölmusu í sambandi við þetta. Þetta er þörf, gagnkvæm þága til að tryggja öryggi landsmanna.

Svo ég komi aftur að því, sem ég byrjaði, að ef bændur treysta sér ekki til að halda eins mörg hjú og þörf gerist til að afla heyja, svo heyfengur verði minni en ella, þá ber að tryggja þetta, áður en sláttur hefst, því það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann. Þetta ber að tryggja, því hér ríður á miklu.

Ég skal nú ekki vera mjög langorður enn, því ég sé, að menn tekur að lengja eftir kaffinu, en vil aðeins segja, að þótt ágreiningur sé um þetta frv. og brtt. við það og ég sé ekki alls kostar ánægður, þá tel ég þó mikla nauðsyn á, að 1. verði sett um þetta, og læt atkvgr. mína sýna mitt álit að öðru leyti á sínum tíma.

Svo læt ég þetta nægja, en vonast til, að hæstv. ríkisstjórn láti, þegar til hennar kasta kemur, — hið nauðsynlega ganga fyrir hinu ónauðsynlega.