13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég sé ekki ástæðu til þess að vera langorður. Það er aðeins eitt atriði í ræðu hæstv. viðskmrh., sem ég þurfti að gera aths. við. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri alls ekki sett neitt verðlag á matvörur samkv. 1. um verðlag. En ég hafði látið svo um mælt, að verðlag á matvörum hefði hækkað fyrir aðgerðir verðlagsm. Það, sem ég hafði fyrir mér í þessu, voru orð matvörukaupmanna sjálfra. Ég spurði tvo matvörukaupmenn, sem ég skipti við, eftir hvaða reglum þeir legðu á matvörurnar. Þeir sögðust leggja 40% á matvöruna og hefðu leyfi til þess frá verðlagsn. Ég gat ekki lengra komizt með upplýsingar. En mér var kunnugt um það, að á margar matvörur hafði verið lagt miklu minna. Og síðan þær hækkuðu eins og orðið er, er engin þörf á að leggja á eins háar prósentur eins og áður var. það er í sjálfu sér alvarlegt atriði, að ekki skuli hafa verið notuð heimildin sjálf til þess að létta af álagningu á matvælum. Og ég vil minna á það, að ég krafðist þess á Alþ. fyrir löngu síðan, að rýmkuð væru höftin á innflutningi, og ég var mjög á móti því, að breytt væri gengi krónunnar. Þá rökstuddi stj. sinn vilja um gengisbreytingu og andstöðu sína gegn rýmkun innflutnings meðal annars með því, að vöruskortur væri í landinu og gæti það þess vegna valdið verðhækkun á vörum. En sökum þeirra taka, sem stj. hefði á verðlagi gegn þessum 1., sem voru rétt, ef þau voru framkvæmd, gat ríkisstj. haft hemil á þeim samkv. 1. gr. þeirra l. Og undanþegnar eru aðeins vörutegundir, sem verðlagðar eru samkv. sérstökum 1., og enn fremur vörur, sem seldar eru úr landi. Og í 3. gr. þessara 1. segir: „Hlutverk verðlagsn. er að setja sérstakt verðlag á vörur, ef n. telur það æskilegt.“ Nú veit ég ekki, hvar meiri þörf er á að hafa gætur á verðlagi heldur en á nauðsynjavörum og þá fyrst og fremst matvörum. Ég verð þess vegna að segja, að með vitnisburði hæstv. ráðh. hafi það komið í ljós, að grunur minn og spá um það, að þessi löggjöf mundi ekki verða að því gagni, sem mér og öðrum var sagt, hefur rætzt. Þessi löggjöf hefur ekki verið notuð eins og skyldi og eins og í raun og veru var heimilt.

Hv. 1. þm. Rang. gerði nokkrar aths. við mína ræðu. Hann sagði í upphafi síns máls um mína ræðu, að ég hefði sagt, að ég harmaði það, hversu seint frv. þetta væri fram komið. Þetta er nákvæmlega gagnstætt því, sem ég sagði. Ég sagði að sönnu, að ég harmaði það, hversu seint það væri fram komið, að stj. vildi hefjast handa um það að halda dýrtíðinni niðri. En ég taldi þetta frv. gagnslítið í þeim efnum. Hv. 1. þm. Rang. hefur hess vegna alveg snúið þessu við, og í staðinn fyrir það, að ég sagði, að þessi viðleitni ríkisstj. kæmi nokkuð seint og hefði aldrei getað orðið að verulegu gagni, nema annaðhvort með rýmkuðum innflutningi í upphafi eða strangara eftirliti með verðlagi, þá sagði hann, að ég hefði sagt, að ég harmaði það, hve þetta frv. væri seint fram komið. Það er nú algengt að menn í rökþroti geri þeim, sem þeir deila við, upp orð og meiningar og sýni svo sína vopnfimi með því að berjast við þessi rök, sem þeir sjálfir hafa búið til. Og hv. 1. þm. Rang. er ekki einn um það. Það eru fleiri, sem grípa til slíks í rökþroti, er þeir hafa vondan málstað að verja. En hann er því miður, einn af þeim í þetta skiptið.

Hv. l. þm. Rang. sagði enn fremur, að ég hefði viljað láta setja fast verðlag aðeins á þær afurðir eða þær vörur, sem bændur hefðu selt. Hann sagði, að það væri auðskilið, að ég stefndi mínu máli þannig aðeins að þessari stétt manna og aðrir ættu að bera hallann af því, að þeim væri sett ósanngjarnt hámark á sínar vörur. Þetta er nú alveg rangt. Ég sagði einmitt það, að ég sæi ekki, að ríkisstj. gæti eða þyrfti að nota þetta fé, sem hún ætlar að afla sér, ef frv. verður að l., nema til þess að bæta upp verð á vörum, sem selja yrði undir framleiðslukostnaði, og til þess að lækka farmgjöld, ef ekki ætti að bæta neytendum beinlínis sjálfum. Ég sagði, að verð mjólkur hefði reynzt vera í samræmi við þá hækkun, sem hefur orðið á framleiðslukostnaði í samræmi við verðlagsvísitölu, sem notuð er við útreikning á launum, og svo verið tekið nokkurt tillit til þess, að almennur vinnukraftur hefur hækkað meira í verði heldur en vísitalan. En ég bætti því við, að ég vissi það, að það, sem bændur hefðu fengið greitt fyrir sínar vörur fyrir stríð, hefði ekki hrokkið til fyrir þá, og þess vegna þyrfti ríkisstj. eitthvað að gera til þess að bæta upp verðið á þessum vörum, þessu held ég, að komi ekki fram nein óvild til framleiðenda, heldur skilningur á því, að þessir menn fái greitt kostnaðarverð fyrir sínar vörur og helzt eitthvað ofurlítið meira. Ég held þess vegna, að vinátta okkar hv. 1. þm. Rang. til þessara manna sé ekki ákaflega ólík. Og í raun og veru viljum við það sama þeim til handa. Það, sem skilur okkur, er það, að ég vil þessum mönnum vel, af því að ég þekki vel þeirra kjör og þeirra stríð. En vinátta hv. 1. þm. Rang. virðist vera í endurgjaldsskyni fyrir atkv.

Þá sagði hv. 1. þm. Rang., að þó að suma þm., og þar mun hann hafa átt við mig, brysti skilning á því, að framleiðslan til sveitanna héldi áfram, þá hefðu Bretar sýnt það í sínum viðskiptum, að þeir skildu það vel, að ekki mætti draga úr framleiðslu sveitanna. Ég veit ekki, af hverju hv. þm. dregur það, að mig og aðra þm. bresti skilning á þessu. Ég veit ekki heldur, hvaðan hv. þm. hefur það, að Bretar hafi ætlazt til, að sú uppbót, sem þeir veittu, yrði höfð til þess að bæta upp verð á útflutningsvörum bænda. Þetta er náttúrlega alls ekki rétt. Uppbótarféð er alls ekki bundið neitt frá hendi Breta við það, að það gangi til bænda, heldur er þetta fé veitt á útflutning ársins 1940, og er miðað við það eitt að bæta upp það verð, sem halli hefur orðið á alveg burtséð frá því, hvort það er framleiðsla til sveita eða sjávar. Ég held, að það sé hinn íslenzki skilningur, að þetta fé eigi að mestu að ganga til landbúnaðarafurða. Bretar hafa ekkert um það sagt. Og þó að ekki gengi einn einasti eyrir til landbúnaðarafurða, þá mundu þeir ekki skipta sér neitt af því.

Þá vildi ég aðeins minnast á það, að því var tekið sem einhverri fjarstæðu, að mér skildist, er ég sagði, að verkamannastéttin hefði ekki fleytt neinn sérstakan rjóma enn þá af þeirri breytingu, sem orðið hefði hér á landi, í það minnsta ekki fram yfir þarfir, svo að það sé sérstök ástæða til þess að launastéttirnar beri útgjöld til þess að bæta öðrum upp verð. Ég benti á það, sem er alveg rétt, að sökum langvarandi atvinnuleysis hefðu verkamenn, og einnig sjómenn, sem hafa haft lágan hlut um allmörg ár, verið svo djúpt niðri í skorti, að það hefði þurft mikið til þess aðeins að klæða þetta fólk, sem auðvitað var hálfnakið, bæði í klæðnaði og húsbúnaði og öllum þægindum. Og áður en þetta fólk gæti litið eftir sér aðrar lífsnauðsynjar, þurfti að bæta í þessi skörð. Mér dettur ekki í hug að taka þessi orð mín aftur. Það getur verið af ókunnugleik þessa hv, þm., að hann furðar sig á þessu. En ég veit fyrir víst, hvernig lífskjörin eru hjá þessum stéttum. Og ég veit líka, að þau hafa batnað á síðustu áratugum, og það greinilega frá því ég var að alast upp. En þessi munur er langminnstur hjá verkamannastéttinni. Það vita þeir menn, sem koma í íbúðir þeirra og kynnast því, sem þar er til hnífs og skeiðar. Það mun að sönnu vera eitthvað betra og meira en var fyrir 30–40 árum, en það munar miklu minná hjá þeim en hjá nokkurri annarri stétt í landinu. Ég þarf ekki að hafa annarra sögusögn um þetta. Ég veit það vel sjálfur. Enda þó mér þyki leiðinlegt, þegar kaupkröfur eru gerðar með verkföllum, því að slíkt er tjón fyrir þjóðfélagið, þá veit ég, að þessar stéttir manna hafa þurft að grípa árinni miklu dýpra heldur en nokkrar aðrar stéttir í þjóðfélaginu.