14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Um gengisskráninguna, sem snertir mig vegna starfs míns í ríkisstj., hef ég það að segja, að það var rætt í stjórninni, þegar sex manna nefndin kom með tillögur sínar, hvort rétt væri að leggja fyrir þingið til samþykktar heimild fyrir ríkisstj. til að breyta gengi ísl. krónu. Mér virtist sumir í sex manna n. telja þetta æskilegt, sumir ekki. Það varð ofan á í ríkisstj., að þar sem við hefðum það ekki í okkar valdi að breyta og vissum ekki, hvort fyrir því gæti skapazt nokkur grundvöllur, væri ekki ástæða til þess að setja þetta í lög. Mótstaða kom hins vegar engin fram gegn því í ríkisstj. En ef þessi grundvöllur skapast og málið verður gert upp innan ríkisstj., mundi hún væntanlega leita álits flokkanna um það, eins og það liggur fyrir á þeim tíma, og mætti þá, ef þeim sýndist, kveða á um það með bráðabirgðal. Þarna eru margir erfiðleikar á, eins og hv. þm. V.-Sk. nefndi raunar.

Um hina almennu framkvæmd löggjafarinnar, sem hann ræddi um, sé ég ekki ástæðu til að gefa upplýsingar umfram það, sem ég hef áður gert við 1. og 2. umr, þessa máls. Í verðlagsnefndum hefur ríkisstj. sinn oddamann. Ég efast ekkert um það, að sá oddamaður muni jafnan hafa samvinnu við ríkisstj. og gefa henni skýrslur um gerðir n. Viðskiptamálaráðuneytið mun telja sér skylt að fylgjast náið með starfi verðlagsn. þeirrar, sem ræður hámarksverði á erlendum vörum, og hafa sérstakt eftirlit með hámarksálagningu á þær vörur, sem ætlazt er til, að njóti styrks af því fé, sem samkv. frv. er ætlað til þeirra hluta.