14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Ísleifur Högnason:

Það, sem nú þykir mestum tíðindum sæta í dag, er, að þingið skuli vera látið skera úr um ágreiningsefnin í stórmálum þjóðarinnar. Þetta hefðu einhvern tíma ekki þótt tíðindi. En Morgunblaðið birtir í dag þá dæmalausu fregn, með risastórri fyrirsögn, að Alþingi eigi að ráða hinum svonefndu dýrtíðarmálum til lykta. Þetta sannar, að undanfarið hefur valdið verið dregið smátt og smátt úr höndum Alþ. yfir til ríkisstj. Og það er enginn vafi á því, að ef þm. láta slíkt óátalið hér eftir sem hingað til, þá munu dagar þeirra brátt verða taldir hér á Alþ. Manni kemur allt athæfi stj. og hennar klíku þannig fyrir sjónir, að vilji þm. sé meira og minna hundsaður. Ofan á annað, sem okkur hefur verið sýnt framan í á þessu þingi, er nú ræðutíminn takmarkaður í þessu stórmáli við 2 mínútur. Ég læt ekki bjóða mér slíkt. Og með því að þm. hafa fyrir mánuði síðan framið þá einsdæma lögleysu að kjósa sjálfa sig til að fara með umboð kjósendanna í landinu, þá álít ég, að ekki sé ástæða til að taka tillit til þeirra frekar en hverra annarra borgara. Þess vegna mótmæli ég því, að forseti skuli leyfa sér að múlbinda andstæðinga stj. (Forseti hringir.) Ég mun ekki hafa slíkt að neinu, og hæstv. forseti verður þá að loka munni mínum, ef hann. vill fá mig til að hætta.