16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm:

(Bernharð Stefánsson) : Enda þótt þetta sé stórt mál og hafi ekki ýkjamikið verið rætt í d. við 1. umr., þá sé ég ekki ástæðu til að hefja hér almennar umr. um það.

Eins og hv. dm. er fullkunnugt, þá hefur þetta mál verið lengi á döfinni fyrir þinginu, þannig að ríkisstj. hefur haft það til meðferðar í samvinnu og samráði við flokkana. Það hefur því nú þegar fengið langa og rækilega meðferð,þó að ekki verði sagt, að svo sé sérstaklega í þessari d., en hv. dm. hafa fylgzt með því eins og aðrir þm. jafnóðum og eitthvað hefur gerzt í þessu máli. Fjhn. hefur ekki haft ýkjamikinn tíma til að athuga málið, en þó hefur hún rætt það allýtarlega á tveimur fundum, öðrum á laugardagskvöld, eftir að fundi hér var lokið, og hinum í gær. Eins og menn sjá á nál. á þskj. 765, þá er það undirskrifað af öllum nm., en það er víst tæplega hægt að komast svo að orði samt sem áður, að n. hafi orðið sammála um afgreiðslu málsins, þó að samkomulag hafi náðst um að gefa út sameiginlegt nál., en það eru þó allir nm. sammála um að ráða d. til þess að samþ. þetta frv. með breyt. En vegna þess að öll n. vill á vissan hátt mæla með málinu, þá varð samkomulag um að kljúfa ekki n., heldur skila sameiginlegu nál. En lengra náði samkomulagið ekki í n.

Um brtt. fóru nm. hver sína leið, eins og sjá má á þeim þskj., sem fyrir liggja. Ég skal taka það alveg sérstaklega fram hvað mig snertir, að ég bauð meðnm. mínum þegar í stað, að ég skyldi fallast á frv. óbreytt, ef þeir vildu gera slíkt hið sama, og ég skal ekki leyna því, að ég gerði þetta með tilliti til þess, hvað nú er orðinn lítill tími til starfa fyrir d. og þingið í heild sinni. Þingslit eru ákveðin á morgun, og það er því hætta á, að þetta mál verði óafgreitt, ef það tekur nokkrum breyt. í þessari d. nú; yrði það þá að ganga til Nd. aftur, og svo má auðvitað búast við, að Nd. breyti því aftur í sitt fyrra horf og endursendi Ed. það. En þó að ég byðist þannig til að ganga að frv. eins og það nú liggur fyrir og þó að ég telji þá meðferð heppilegasta úr því sem komið er, þá er það ekki svo að skilja, að Framsfl., sem ég er umboðsmaður fyrir í fjhn., sé ánægður með frv. eins og það er. Frv. var lagt fyrir Nd. og flutt af fjhn, þeirrar d., og það var ekki lagt fyrir í þeirri mynd, sem Framsfl. hefði helzt óskað. Það bar keim af því, að umr. höfðu farið fram um málið og samkomulagsumleitanir við aðra flokka. Mér er því óhætt að fullyrða, að þær ráðstafanir, sem ætlazt var til, að gerðar væru samkv. frv. eins og það var lagt fyrir Nd., voru lágmark þess, sem Framsfl. taldi rétt að gera út af því ástandi, sam hefur myndazt í landinu og er að myndast. En Nd. dró úr þessum ráðstöfunum, sem ráðgerðar voru í frv., í mjög verulegum atriðum, að því er snertir aðra aðalfjáröflunarleiðina til þess að vinna með að hlutverki frv. Af þeirri ástæðu er Framsfl. óánægður með frv. eins og það liggur fyrir, þó að það skuli játað, að á öðrum sviðum tók það nokkrum breytingum til bóta í Nd. En þrátt fyrir þetta, þá er Framsfl. þeirrar skoðunar, að það beri að samþ. frv., því að ef það verður að 1., þá stendur ríkisstj. þó ekki jafnvarnarlaus og berskjölduð gagnvart því öfugstreymi, sem nú er í viðskiptum okkar og þjóðlífi eins og hún væri, ef ekkert væri nú gert. En það þýðir ekki að ræða um þetta, það náðist ekki samkomulag um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt, og mun ég nú hér eftir gera grein fyrir brtt., sem ég ber fram og fer í þá átt, sem Framsfl. óskar um breyt. á frv. En áður en ég hverf frá framsögu f. h. n., þá vil ég vekja athygli hér á einu atriði. Það er í 5. gr. frv. eins og hún nú er, viðvíkjandi útflutningsgjaldinu, að það kynni í fljótu bragði að verða litið svo á samkv. 1. um fiskveiðasjóð, að honum bæri ¼ hluti af útflutningsgjaldi því, sem samkv. þessu frv., ef að 1. verður, verður lagt á sjávarafurðir. En ég verð að líta svo á (og ég hef kynnt mér, að meiri hl. n. álítur það, en mér gafst ekki kostur að ræða við 3. nm. um þetta), að þetta ákvæði fiskveiðasjóðsl. geti þó .alls ekki átt við þetta frv., því að með því útflutningsgjaldi, sem ráðgert er í þessu frv., er allt öðru máli að gegna heldur en um það venjulega gjald, því að Þetta eru ekki tekjur ríkissjóðs í venjulegum skilningi, heldur á að leggja þetta gjald á í alveg sérstöku augnamiði, og ég lít þess vegna svo á, ekki sízt ef engin mótmæli koma fram gegn þeirri skoðun, að það sé alveg nóg að taka þetta fram í framsögu, að þetta umgetna ákvæði l. um fiskveiðasjóð geti ekki átt við þetta frv., þegar tekið er tillit til þess hlutverks, sem þessu útflutningsgjaldi er ætlað að hafa. Ég hef því ekki séð ástæðu til að beita mér fyrir því, að n. flytti brtt. út af þessu atriði.

Þá er minni framsögu f. h. n. lokið, og skal ég þá snúa mér að því með örfáum orðum að minnast á þá brtt., sem ég flyt á þskj. 766.

Eins og ég sagði fyrr, hefði ég talið öruggast, að samkomulag hefði getað orðið um að samþ. frv. óbreytt, en þetta samkomulag náðist ekki, og úr því svo er og úr því að hætta getur verið á því, að frv. verði breytt og það sent Nd. út af till. meðnm. minna, þá sá ég auðvitað enga ástæðu til annars en að þá gengju einnig atkv. um þessa till., sem ég hef borið fram og er í samræmi við frv. eins og það var lagt fyrir Nd. Efni þessara till. minna er, eins og menn sjá, það að taka upp aftur upprunalegu ákvæði frv. um aukaskatt af nettótekjum, 5% af nettótekjum með frádrætti eins og í till. greinir fyrir skylduómaga og af lágum tekjum og af fyrsta þúsundinu engan skatt. Ég þarf ekki að skýra þessa till., því að efni hennar var rætt ýtarlega í Nd., og dm. hér munu hafa fylgzt með því, og menn hafa skoðanir um það hver fyrir sig, og mér er það ljóst, að ræður breyta þar engu um. Ég veit vel, að það mun ekki vera vinsælt að bera fram slíka till. sem þessa, gjöld eru aldrei vinsæl. Hreppsnefndarmenn eru t. d. oft manna óvinsælastir, einungis vegna þess, að þeir leggja útsvörin á, þó að það sé óhjákvæmilegt að vinna það verk. Ég hef séð það í blöðum að undanförnu og heyrt menn tala um „nýju álögurnar“, og það hafa drifið að mótmæli gegn þessu frv., bæði frá verkalýðssamtökum og frá starfsmannafélagi ríkisins, og svo frá útgerðarmönnum gegn útflutningsgjaldinu. Það er alltaf auðvelt að safna mótmælum gegn útgjöldum, hvort sem það fé á að fara til almennra þarfa ríkisins eða til sérstakra framkvæmda eins og hér er um að ræða. Hver er það, sem helzt vill ekki komast hjá því að greiða gjöld? En það er annað, sem ekki er mótmælt. Það er ekki mótmælt, þegar verið er að krefjast þess, að ríkið rétti hjálparhönd til eins eða annars. Ekki var verið að mótmæla því, þegar hér voru samþ. l. um það að greiða starfsmönnum ríkisins fulla dýrtíðaruppbót samkv. vísitölu kauplagsnefndar. Ekki var því heldur mótmælt af hendi útvegsmanna, þegar þeir voru illa settir fyrir nokkru og Alþ. var að reyna að létta undir með þeirra atvinnurekstri. Þó að sumir virðist reka þá pólitík að gera miklar kröfur og mótmæla öllum skyldum, er það aðeins í áróðursskyni, því ekki er hægt að framkvæma hana. Nú er ekki ætlazt. til, að ríkið fái þetta fé til sinna framkvæmda. hað, sem menn verða að gera upp við sig, er, hvort ráðstafanirnar séu skynsamlegar fyrir þjóðarheildina og gjaldþegnana sjálfa. Í trausti þess, að svo sé, er frv. borið fram og framfylgt. Það verður að stöðva einhvers staðar kapphlaupið um að hækka allar tölur á báða bóga, a. m. k. er Framsfl. sannfærður um, að það þarf að spyrna fótum við, annars lendir þjóðfélagið fyrr eða síðar í þeim ógöngum, sem seint sést fram úr. Þess vegna má helzt ekki draga úr þeim ráðstöfunum, sem stofnað var til í frv. í fyrstu, og hef ég því tekið upp sem brtt. viðbótarskatt þann, sem um ræddi í 5. gr. frv., en felldur var niður í meðferð málsins í Nd. Í stað þessa viðbótartekjuskatts, sem á hærri nettótekjur nam allt að 5%, kom allt að 10% viðauki við þann tekjuskatt, sem nú er á lagður. Það er mikill munur á því, hvor skatturinn gefur meira. í nýafgreiddum, fjárlögum er tekju- og eignarskattur áætlaður 3 millj. kr., og veit ég ekki, hve mikið af því muni vera eignarskattur. En segjum, að þessi reikningur, sem er að nokkru leyti ágizkun um tekjur manna á s. 1. ári, sé allt of lágur og tekjuskatturinn geti numið 5 millj., þá nemur skattaukinn aldrei yfir ½ millj. kr. samt. Það er féð, sem ætlað er til stærstu ráðstafana, sem þjóðfélagið hefur lagt í nokkru sinni. Samkv. minni till. mundi fást miklu meira fé, ég vil ekki fullyrða, hve mikið, en svo að millj. króna skiptir.

Möguleikarnir til að vinna á móti dýrtíðinni og styðja þá atvinnuvegi, sem kynnu af styrjaldarástæðum að verða hart úti, vaxa stórkostlega, ef brtt. mín verður samþ. Verði frv. breytt hér í d. á annað borð, tel ég, að fyrst og fremst eigi að færa það að þessu leyti til hins fyrra forms. Ég skal ekki orðlengja um brtt. meðnm. minna. Ég hef auðvitað ekkert umboð nefndarinnar til að tala um þær., né um brtt. á þskj. 769, frá hv. 5. landsk., sem ekki hefur verið tekin fyrir á nefndarfundi.

Ég get ekki látið hjá líða að skjóta því að hæstv. forseta, að ég hef haft mjög lítið hljóð, ekki sakir ókyrrðar viðstaddra þdm., — þeir hafa hlustað úr sætum sínum, — heldur sakir háværra radda úr aðliggjandi herbergjum. Væri gott, að hann réði bót á því vegna þeirra þm., sem eftir eiga að tala.