16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Hv. þm. Hafnf. spurðist fyrir um það, hvað mundi verða gert, ef ríkisstj. yrði ekki sammála um það, hvernig ætti að nota þær heimildir, sem þingið kann að fá ríkisstj. í hendur, ef þetta frv. verður samþ., og hvort atkv. mundu verða látin ráða í ríkisstj. um þetta. Sú stjórnaraðferð er ekki viðhöfð í ríkisstj., og er ekki hægt að viðhafa hana í þjóðstjórn og hún er heldur ekki viðhöfð þó að flokksstjórn sé. Því að hver ráðh. ber ábyrgð í sínum störfum fyrir Alþ. Og ef ráðh. gerir ráðstafanir, sem einhver hinna ráðh. getur ekki sætt sig við, þá getur hann sagt af sér eða óskað þess, að þing verði kallað saman til þess að skera úr því, hvort hans málstaður eða hinna verði ofan á. Þetta eru þær aðferðir, sem hægt er fyrir ráðh. að nota, en ef einhver ráðh., þó að hann sé óánægður með einhverja ráðstöfun, býst ekki við því, að meiri hluti Alþ. mundi fylgja hans stefnu, þá getur líka verið, að hann beygi sig fyrir því. En ef ágreiningur er alvarlegur, mundi það leiða til þess, að kalla yrði saman þing.

Það er enn fremur rætt um það, hvort frv. yrði stofnað í hættu með því að samþ. þær brtt., sem hér liggja fyrir. Ég lít svo á, að skeika verði að sköpuðu um það, hverjar breyt. á frv. verði samþ. Það er ekki nema sjálfsagt, að vilji hæstv. Alþ. komi skýrt fram í þessu máli, og svo vel, sem meiri hluti þingsins telur sig vilja bera ábyrgð á.

Ég vænti þess, að ég hafi þá svarað þessum fyrirspurnum og að hv. þm. Hafnf. geti, vegna þessarar vinnuaðferðar, sem er viðhöfð í ríkisstj., verið þess fullviss, að heimildirnar verði ekki notaðar á þann hátt, sem hugsað er, að þær verði framkvæmdar, nema með því móti, að hæstv. ráðherrar hans flakks, sem hann lýsti, að hann bæri fullt traust til, séu ráðstöfununum samþykkir.

En fyrst ég þurfti að svara þessari fyrirspurn, ætla ég aðeins að segja örfá orð um þetta mál, enda þykir kannske við eiga, að það sé gert, þar sem þetta er eitt af stærstu málum þingsins. En þá vil ég í fyrsta lagi svara þeim ásökunum í garð ríkisstj., sem komu fram frá hv. þm. Vestm. Þær ásakanir hans voru í þá átt, að ríkisstj. hefði of lítið gert fyrr til þess að draga úr dýrtíðinni; hún hefði átt að sjá, hvert stefndi, og gera ráðstafanir fyrr. Hins vegar taldi hann þær kröfur, sem gerðar eru til framleiðenda nú, vera vafasamar. En hann benti á, að það hefði mátt leggja á útflutningsgjald fyrr og leggja það í sjóð. Og þessi sami hv. þm. taldi hæstv. viðskmrh. tæpast fært að leggja fram till. þær, sem hann ber fram, af því að hann byggi í glerhúsi, þar sem hann hefði ekki fyrr undirbúið þetta. En hæstv. viðskmrh. hefur, ekki aðeins á þessu ári, heldur líka á fyrra ári, komið fram með till. um það, að ríkisstj. legði á útflutningsgjald. Og kom hann með þessa till, skrifaða eftir áramótin, ég hygg, að það hafi verið í marz, en það fékkst ekki samkomulag um þessa till., og þess vegna var hún ekki framkvæmd. Enn fremur hafði komið fram till. frá honum í ríkisstj., að farmgjöldin, sem hafa viljað auka dýrtíðina í þessu landi, yrðu sett undir verðlagsákvæði eins og annað, en það fékkst ekki heldur samþ., og varð því, ekki af framkvæmdum í þessu efni. Það er því að beina skeytum sínum í skakka átt að ávarpa hæstv. viðskmrh. eins og hann gerði. (JJós: Má ég skjóta inn í? Ég undanskildi engan í hæstv. ríkisstj.). Það hefði þó áreiðanlega verið óhætt að undanskilja hann. En vegna. þeirra vinnuaðferða, sem ég skýrði frá, er ekki hægt að koma þessu fram, og ekki heldur heimild, nema með því móti að ríkisstj. sé sammála. A. m. k. annað eða jafnvel bæði þessi atriði hafa verið upplýst í blöðum, og þar sem þessi ásökun kemur fram, sé ég ekki á móti því sem forsrh. að endurtaka þetta hér. Annars virðist mér, eftir þeim undirtektum, sem mál þetta hefur fengið, að það sé nokkuð almenn skoðun á Alþ., að í raun og veru væri eðlilegast að gera lítið eða ekki neitt í þessu máli. Undirtónninn í ræðunum er á þá lund.

Viðvíkjandi verðfellingu krónunnar er það að segja, að verðgildi hennar verður ekki breytt

nú, vegna þvingunarsamninga, sem við urðum að gera. En við stigum æðistórt skref í áttina til verðbólgnunar, þegar ákveðið var að kaupgjald allt skyldi hækka í fullu samræmi við vísitöluna. Og þó að fjöldi manna álíti, að það hafi verið gert fyrir verkalýðinn í þessu landi, þá segi ég fyrir mitt leyti, að ég er ekki einn þeirra manna, sem fylgdu því. Það er kannske vinsælt að hafa fylgt þeirri ráðstöfun, en ég hefði komið í veg fyrir hana, ef ég hefði haft möguleika á því. Þessi yfirlýsing má gjarnan standa hér í þingtíðindum, af þeirri einföldu ástæðu, að þessi ráðstöfun er eitt fyrsta og stærsta skrefið í þá átt að koma því ólagi á okkar fjármál, sem þau eru nú í. A. m. k. vita sumir af ráðherrunum það, að ég taldi þessa ráðstöfun svo alvarlega og stefna öllu fjármálalífi í landinu út í það öngþveiti, að ég hef aldrei verið í meiri vafa en Þá, hvort ég ætti að vera áfram í ríkisstj. Ég spyr: Í hvaða landi hefði það komið fyrir, að kaupgjald og laun væru hækkuð um 100%? Hver hefði treyst sér til þess? Það var a. m. k. sama, af hvaða flokki hagfræðingarnir væru, hvar sem maður mætti þeim; þeir voru ekki í vafa um, að þetta var ekki framkvæmanlegt, vegna þess að verðskrúfan heldur áfram að vaxa, þar til hún er óviðráðanleg eða ekki hægt að koma henni niður aftur, nema á þann hátt að stefna að hruni og byrja á nýjan leik. Þetta er a. m. k. þeirra kenning, sem mér sýnist ekki mjög mikil vandræði að skilja. Það má t. d. benda á það, að Danir gerðu þessar ráðstafanir og voru eina þjóðin um þær í byrjun styrjaldar, en tóku þær aftur með hinni hendinni. Svíar, sem m. a. hafa jafnaðarmannastjórn og 6 manna meiri hl. á þingi, létu ekki hækkunina verða nema 75%, vegna þess að þeir vita, að verkalýðurinn hefur enga blessun af verðbólgnun, — að haldið sé áfram að þenja út dýrtíðina, þangað til hrunið skellur yfir. Svíar eru allt of góðir hagfræðingar til þess að álíta þetta blessun. Slíkt myndar sjúkt ástand í fjármálalífi hvers lands, nema gagnráðstafanir séu gerðar, sem við höfum ekki þrek eða þol til að gera. Atvinnuleysið og hrunið kemur verkalýðnum í koll, eins og þjóðfélaginu öllu. Þess vegna gera Svíar ekki þessar ráðstafanir, þó að þeir hafi atkvæðamagn til þess og áreiðanlega fullan mátt til þess í sínum verkalýðsfélögum. Það er því tvímælalaust, að með þessu var stigið stórkostlegt ógæfuspor, ekki aðeins fyrir verkalýðinn, heldur fyrir alla þjóðina. Þetta var það fyrsta, sem myndaði þann straum af verðbólgu, sem við nú erum að súpa seyðið af, og þó ekki nema litið enn þá. Það er líka auðsætt, hvernig verðbólgan hagar sér; það hefur skapazt aukinn kaupmáttur og hækkuð vísitala. Það verkar ekki aðeins tölulega, heldur einnig sálfræðilega. Maður, sem sparar saman fé núna, kaupir sér bifreið; hann segist hafa grætt 8 þús. kr. Annan þekki ég sem hefur lagt 15 þús. kr. í bát, sem hann keypti dýru verði. Menn láta úti peninga núna og hugsa ekki um verð, af því að þeir sjá, að krónan lækkar: Að vísu standa okkar peningar sæmilega, og menn eru langt á undan að meta peningana minna virði en þeir eru, og þannig hraða menn stöðugt aukning dýrtíðarinnar.

Við gætum unnað verkalýðnum að hafa hátt kaup, ef það hefndi sín ekki á honum síðar. Við skulum líta á þá staðreynd, að fyrir nokkru, áður en taxtakaup var hækkað, höfðu verkamenn ekki vinnu nema tvo daga af þremur í mesta lagi, en nú hafa verkamenn vinnu hvern dag. Þeir fengu þess vegna 50% hækkun í aukinni vinnu, og síðan í ofanálag vísitöluna eins og hún liggur fyrir. Þetta verkaði þannig, sem ekki hefur verið nægilega dregið fram í sambandi við atvinnurekstur bænda, að menn unnu fyrir 100 kr. á mánuði eða 1200 kr. á ári, og þótti hátt, hér í nágrenni Reykjavíkur, og lægra árskaup annars staðar, því að þetta var stöðug vinna, sem ekki er í kaupstöðunum. Nú er þetta kaupgjald 300 kr. á mánuði, og hefur því ekki hækkað um 50%, heldur þrefaldazt. Og síðan er ætlazt til, að bændur, sem kaupa vinnu þrefalt dýrar, fái hækkun á sínum vörum í samræmi við almenna vísitölu, nú 53%. Kaupgjald í sveit hefur víða þrefaldazt samanborið við fyrir stríð. Og það er sérstaklega í nágrenni við Bretavinnuna. En eitt af því, sem veldur beinlínis hræðslu við þessar ráðstafanir, er það, að bæta eigi bændum upp verð á þeirra útflutningsvörum, og kveður þetta mjög við t. d. í blöðunum, að það eigi að bjarga þannig einni stétt. Þegar þess er gætt, hvað hækkun kaupgjalds er mikil hjá bændum, og þegar þess er gætt, að þetta er stétt, sem vissulega nú — og kannske aldrei fremur en nú — er lífsnauðsynleg fyrir þetta þjóðfélag, og þegar þess er gætt, að engir samningar hafa náðst um sölu á afurðum þeirra til útlanda og ekki er útlit fyrir annað en að þeir verði að selja sínar vörur fyrir fyrirstríðsverð og borga hærri fragt (maður vonar, að ekki takist svo illa til, en það getur vel hent), hvernig getur þá nokkur hv. þm. búizt við því, að ein stétt í þjóðfélaginu eigi að lifa við slíkt réttlæti? Bændurnir mundu verða gerðir gjaldþrota í stórhópum. Nei, svo mikið réttlæti er til meðal þessarar þjóðar, að undir slíku verður þessi stétt aldrei látin búa. Enda lýsi ég yfir því, að þetta frv. á að miða að tvennum hliðstæðum ráðstöfunum: að koma í veg fyrir, að ein stétt í þjóðfélaginu, bændurnir, sem þurfa að selja til útlanda fyrir það tiltölulega lágt eða ónógt verð, fari í stórhópum á vonarvöl. Jafnframt er hinn tilgangurinn að nota þetta fjármagn til að halda niðri vörum, fluttum frá útlöndum, og innlendum vörum, seldum í landinu. Tilfellið er, að það er ekkert undarlegt, þótt það sé óvinsælt að taka peninga til að gera þessar ráðstafanir. Það er alltaf óvinsælt að innheimta peninga, hvort heldur af útflutningi eða af skattþegnum beint. Og sannast að segja efa ég, að það sé auðvelt, ef það er þá mögulegt, að gera aðrar ráðstafanir viðvíkjandi dýrtíðinni — þær, sem skynsamlegar eru, — en þær, sem eru óvinsælar í bráðina. Þjóðin er ölvuð af gróða, sem hún heldur, að hún hafi handa á milli, gætandi ekki að því, að þessir peningar geta orðið verðlitlir, ef engin ráðstöfun er gerð. Menn tala um það, að Eimskipafélagið hafi lagt upp 2–3 milljónir. Eftir nokkur ár gæti þetta verið samsvarandi einni milljón Þegar frankinn lækkaði, svo að hann að síðustu var kominn ofan í einn sjötta af fyrra verðgildi, varð afleiðingin, að aldrei var hægt að koma á skynsamlegu og heilbrigðu fjármálalífi í Frakklandi eftir það; né heldur þar, sem skriðan komst enn þá lengra, eins og gerðist annars staðar. Ég harma það, svo nauðsynlega sem ég álít þessa ráðstöfun, að enn þá skuli vera komnar fram till., sem draga úr því fjármagni, sem ríkisstj. fær handa á milli til þess að draga úr dýrtíðinni og framkvæma annað, sem frv. ræðir um. Eins og frv. var borið fram af hæstv. viðskmrh., þá taldi hann og við ráðh. Framsfl. okkur hafa ástæðu til að ætla, að það væri samkomulagsgrundvöllurinn. Það mega allir gera sér ljóst, að ef gera á ráðstafanir, sem um munar, þarf mikið fjármagn. Og engan þarf að undra, þótt ekki sé hægt á slíkum tímum sem nú eru, með þeim breyt., sem eru á öllu verðlagi, að gera nákvæma áætlun fram í tímann, hvað mikið fjármagn þurfi til þessara ráðstafana. Það eina, sem Alþingi getur gert, er að gefa ríkisstj. heimild til að gera þessar ráðstafanir. Ef menn geta ekki fengið þessari ríkisstj. þessa heimild í hendur, þá eiga þeir að fá sér aðra ríkisstj., sem þeir treysta. Því að öðruvísi en að treysta stj. nokkuð, er ekki hægt að ráða fram úr þessu.

Ég mun því með mínu atkv. í þessari d. leggja á móti þeim brtt., sem komið hafa hér fram til að draga úr fjáröflun til þess að ná markmiði þessa frv. Hins vegar mun ég greiða atkv. með þeirri till., sem eykur þessa heimild til fjáröflunar, till. hv. 1. þm. Eyf.