16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Erlendur Þorsteinsson:

Ég gæti nú að miklu leyti sparað mér að svara hæstv. viðskmrh., vegna þess að það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Vestm., er mjög sama eðlis. En ég vil nú samt sem áður endurtaka það, ef ske kynni, að hæstv. ráðh. yrði þó ljósara eftir en áður, hver geysimunur er á gengislækkun og útflutningsgjaldi; þ. e. a. s. á því, hvaða áhrif, það hefur á framleiðslu landsmanna. Ef gengislækkun er, þá er að vísu tekin úr vasa útgerðarmanna sama upphæð og taka mætti með útflutningsgjaldi, sem væri jafnhátt að hundraðstölu gengislækkuninni. Ef gengislækkun er í staðinn fyrir útflutningsgjald, þá eru allar vorur, sem keyptar eru inn og koma þessari framleiðslu við, einnig lækkaðar sem sömu prósenttölu nemur. Því er geysimunur á þessu tvennu. Og það getur hver farið í sinn eigin barm, hvort hann vil ekki borga nokkrar krónur til gengislækkunar, ef honum er tryggt, að varan, sem hann kaupir til sinnar framleiðslu, lækkar að sama skapi.

Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Vestm., að það er vanræksla — og það mikil vanræksla — af ríkisstj., að hún skyldi ekki hafa farið þá leið fyrr, t. d. síðari hluta ársins 1940 og fyrri hluta 1941, að taka útflutningsgjald af ísfiski, sem seldur var til Englands. Ég veit ekki enn af svari hæstv. forsrh., hvers vegna þetta var ekki gert, en mér er tjáð, að hann hafi lagt fram till. í ríkisstj. (Forsrh.: Viðskiptamálaráðh.), að þetta gjald væri tekið upp, en ekki hafi náðst samkomulag. Ef þessum hæstv. ráðh., sem hér eru staddir báðir, er það jafnmikið áhugarnál og þeir vilja vera láta, þá var vitanlega skylda þeirra seinni hluta ársins 1940 að kalla saman þing og skýra fyrir því málið, og láta síðan meiri hl. þingsins skera úr. Ég skal náttúrlega ekkert segja, hverjir ráðherrar komu í veg fyrir, að gjaldið var upp tekið, en víst er, að það var ekki ráðh. Alþfl., með því að því var lýst yfir áður, að hann hefði verið með útflutningsgjaldi hvenær sem var, eftir að þessi stórsala á ísfiski hófst, enda er á þetta bent í málgagni Alþfl. á þeim sama tíma.

Ekki vil ég deila um það við hæstv. viðskmrh., hvort það sé vinsælt eða óvinsælt fyrir okkur að mæla móti því að hafa þetta gjald svo hátt sem í frv. er. En ef á að verja því aðallega til þess — eins og mér virtist koma fram í ræðu hæstv. forsrh. — að greiða bændum uppbót á sínar vörur, ef ekki fengist nægilegt með þeim 5%, sem við leggjum til, þá ætla ég, að óvinsældir af hendi þeirra, sem eiga að fá féð, mundi bitna á okkur, en hæstv. ráðh, yrði vinsæll af sinni afstöðu, og mundi mega vega þetta að jöfnu. Þá vil ég einnig benda hæstv. viðskmrh. á það, og jafnframt hv. þm. Hafnf., að ef þetta útflutningsgjald verður lagt á með þeirri upphæð, sem nú er í frv., og verði henni beitt til hins ýtrasta, sem útlit er fyrir samkv. yfirlýsingum af hendi stj. í umr. í þessari d., þá hygg ég, að sú hætta sé fyrir hendi, að framleiðslan hljóti að dragast saman. En mér skilst, að þeir báðir, hæstv. viðskmrh. og hv. þm. Hafnf., hafi lýst yfir, að þeir vildu ekki verða þess valdandi, að framleiðslan drægist saman. En hvernig ætla þeir sér að halda mönnum við atvinnu við sjávarútveginn, ef þeir bera ekki að öðru jöfnu það sama úr býtum og hægt er að fá annars staðar? Hvernig ætlast þeir til, að menn fáist til að vinna þar, fremur en þeir ætlast til að bændur beri nægilegt úr býtum, ef þeir fá ekki greiðslu úr ríkissjóði?

Að þessu frv. sé nokkur hætta búin, — á slíkt vil ég ekki hlusta. Því að ég vil halda fram, að í þessari d. hljóti að vera sami réttur til að gera breyt. á frv. eins og í Nd., og að það væri í raun og veru ekkert annað en skerðing á þingmannsrétti þeirra manna, sem í þessari d. sitja, ef ætti að neyða þá til að gera enga brtt. af hættu við það, að frv. færi aftur til Nd. Og ég verð að segja um annað eins stórmál, að það væri ekki goðgá, þó að þinginu yrði frestað um einn dag, svo að hv. Nd. gæfist kostur á að fara yfir frv. eftir að breyt. hafa komið við það frá þessari d.

Mér er ekki alveg ljóst, hvernig átti að skilja orð hæstv. forsrh., ef ágreiningur er innan stj. um framkvæmdir. Hann sagði, að hver ráðh. bæri ábyrgð á sinni stjórnardeild. Mér skilst þá, að ráðh., sem ekki heyrir undir að ákvarða út flutningsgjald, gæti ekki — eftir þessari skýringu hæstv. forsrh. — komið í veg fyrir, að útflutningsgjaldið væri ákveðið jafnhátt og atvmrh. vildi, sem mér skilst málið heyra undir.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á það, sem reyndar virðist vera orðin nokkurs konar trúarjátning hjá framsóknarmönnum, að það sé kaupgjaldið eitt í þessu landi, sem ræður vísitölu, og ef kaupgjaldið vaxi um 100, hljóti vísitalan líka að vaxa, mér virðist næstum að sama skapi. Ég er hissa á, að slík firra skuli yfirleitt koma fram. Að vísu er rétt,, að þetta hlýtur eitthvað að hækka vísitölu. En við verðum að gá að því, að kaupgjaldið er ekki nema lítill hluti framleiðslukostnaðarins, ef miðað er við það, sem goldið er í ákveðnu kaupi. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvernig hann ætlar að koma í veg fyrir, að hlutur sjómanna hækki við það, að fiskverð hækkar. Hæstv. forsrh. verður að gera sér ljósan þann geysimun, sem er á hækkun vinnulauna, sem goldin eru í ákveðnu kaupi hér, og í Svíþjóð og Danmörku. Þar er það svo, að hér um bil hver einasti verkamaður, ef ekki hver einasti, í iðnunum, hefur kaup í ákveðinni krónutölu. Hann er ekki hlutarráðningarmaður, eins og á Íslandi. Það er stór hluti þjóðarinnar, sem tekur laun sín í ákveðnum hluta af aflanum, þess vegna hafa vinnulaun í krónum ekki hækkað jafnmikið hjá verkamönnum.

Ég vil út af ummælum hæstv. forsrh. og þá einnig um leið hæstv. viðskmrh., minna þá á, hvernig ástandið var 1940, þegar samið var um kaup þeirra manna, sem taka sín laun í ákveðinni krónuupphæð. Þá fengu verkamenn og sjómenn ekki bætt upp laun sín nema að litlum hluta, samanborið við dýrtíðina, og hafa enda ekki fengið það síðan.

Mér virðist, að það sem fram hefur komið í þessum umr. um verðlag framleiðsluvaranna, bendi til þess, að verðlag á þeim hafi ekki verið eins hátt á hinum erlenda markaði 1940 og af var látið á þeim tíma. Hæstv. forsrh. sagði, að bændastéttin gæti ekki unað við það nú, að fá ekki meira fyrir sínar afurðir heldur en þær seldust á innlendum og útlendum markaði fyrir styrjöldina. Ég veit, að þetta er alveg rétt, en verkamenn geta ekki heldur unað við það að vera eina stéttin í þjóðfélaginu, sem lætur verulegan hluta af sínum launum til þess að bæta öðrum stéttum það upp, sem hæstv. forsrh. vill neita henni (þ. e. verkamannastéttinni) um að fá.