16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég ætla að segja fáein orð í viðbót við það, sem ég sagði síðast, í tilefni af umr., er fram hafa farið síðan. Ég gat þess áðan, að mér finnst of stutt síðan þetta mál var tekið fyrir hér á hv. Alþ., og ég get tekið undir það með hv. þm. Vestm., að ríkisstjórnin hefði fyrir löngu átt að vera búin að leggja þetta mál hér fyrir til athugunar, en það er búið, sem búið er, og þýðir ekki að fást um það. Ég lít svo á, að nú verði að bjarga því, sem bjargað verður. Það má segja, að þetta sé gengismál, og ég álít, að svo sé, og þó ekki fáist það, sem fást mundi með hækkun krónunnar, þá er þó reynt að bæta úr að miklu leyti, að verðgildi krónunnar hækki. Það er hér talsverð bót á ferðinni, sem er svipuð og hækkun krónunnar, sem vitað er, að mun óframkvæmanlegt. Mér virtist koma fram sama skoðun hjá hv. 1. þm. Eyf. og mér í því, að þó að 10% skatturinn næði fram að ganga, yrði hann samt ekki notaður nema brýnustu nauðsyn bæri til, Til þessa treysti ég sjálfstæðismönnum í ríkisstj., og ég vænti einnig, að hæstv. ríkisstj. reyni eftir fremsta megni að halda verðlagi niðri og sjái um, að verðlagsnefnd fylgi ákvæðunum betur en hingað til. Enn fremur vona ég, að hæstv. ríkisstjórn fylgist með gerðum kjöt- og mjólkurverðlagsnefndar og sjái um, að þær vinni sitt hlutverk vel.

En það er eitt atriði, sem mér finnst dálítið einkennilegt. Það er þegar hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh. mæla með breytingum á frv. hér í þessari hv. d., því ég álít, að þar sem þingslit eiga að fara fram á morgun, að frv. sé þá dautt, ef nokkrar breytingar verða hér á því gerðar.

Ég er samþykkur brtt. hv. 1. þm. Reykv., því ég tel, að þær falli í sömu átt og það, sem ég tel heppilegast, sem sé að takmarka fé til þessara þarfa, og að ennfremur fengist grundvöllur fyrir, hvernig því fé verði skipt. Hæstv. viðskmrh. reiknar með tugum milljóna, en ég lít svo á, að þetta sé framkvæmanlegt án svo mikils fjármagns. Bæði þyrfti ekki að verðbæta afurðir, sem hagnaður er að í ýmsum landshlutum, og það atriði kemur hér mikið til greina, og eins og nú hefur árað, það sem af er sumri, þá má gera ráð fyrir góðri afkomu um öflun heyja og annarra jarðávaxta. Og þess vegna má gera ráð fyrir því, að þrátt fyrir það, þó að kaupgjald verði hátt, þá verði samt sem áður töluverður ávinningur einmitt af því, hve árferðið er gott. Ég vil þess vegna endurtaka það, að mér virtist af ræðu hæstv. forsrh., að hann álíti, að ekki væri neitt á móti því í sjálfu sér að gera breytingar á frv. nú í þessari hv. d. Og þá vildi ég beina því til hans og annarra hv. þdm., einnig til þeirra, sem vilja gera breyt. á frv., hvort þeir séu ekki sömu skoðunar og ég um það, að málinu sé stefnt í hættu með því að samþ. á frv, breyt., þannig, að þá fáist engin afgreiðsla á því nú á þessu þingi. Og ég tek það fram aftur, að þetta mál er mér svo mikið alvörumál, að eitthvað verði gert á þessu þingi til þess að stemma stigu fyrir því, að dýrtíðin aukist, að ég get ekki fylgt neinum brtt. við frv., svo framarlega sem því er stefnt í hættu með því að breyta því. Hæstv. forsrh. hefur sagt, að fyrirhuguð séu þingslit á morgun, 17. júní, sem má fara að kalla í dag, og skilst mér frv. vera komið í mikla hættu, ef samþ. eru á því breyt. Þar sem hins vegar hæstv. forsrh. sagði, að hann hefði ekki á móti því í sjálfu sér að gera breyt. á frv., kemur þetta mér til þess að vera dálítið hikandi í þessu máli. En eins og ég hef tekið fram, hef ég mikla löngun til að fylgja a. m. k. einni brtt. við þetta frv.