27.03.1941
Neðri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Pétur Ottesen:

Ég vil taka undir ummæli hv. þm. Barð. En þessi boðskapur Þjóðverja þarfnast margvíslegrar íhugunar og gefur tilefni til skjótra aðgerða. Ég sé í blöðunum í dag, að ríkisstj. hefur til athugunar ýmsar ráðstafanir t: d. að því er snertir að dreifa betur en verið hefur kornvöru- og nauðsynjaforða landsmanna, sem talið er, að geymdur hafi verið fram að þessi í einu stóru húsi hér við höfnina og jafnvel á sjálfum hafnarbakkanum. Er þess full nauðsyn að koma þessum vörubirgðum, sem bæði eru ætlaðar Reykjavík og öðrum landshlutum, á öruggari staði. — En það er ástæða til þess að gera fleiri ráðstafanir en þær, sem nú hafa verið nefndar, og álít ég, að ríkisstj. ætti nú þegar að ræða það mál bæði í flokkunum og á fundi í sameinuðu þingi.

Að því er snertir heiti það, er Íslandi hefur verið valið í hinni þýzku tilkynninga, þá er það von mín, að sú aðvörun, sem í því felst, muni verða til þess að sameina meira en verið hefur hugi manna um sjálfstæðismálið og að Alþ. sýni án tafar, hvert okkar hugur stefnir, og taki þær ályktanir,er marka vilja þjóðarinnar, og sýni, hvernig við lítum nú á réttarstöðu landsins. Vænti ég, að þetta verði það lóð í skálina, að eigi dragist nú lengur að gera skarpar og skeleggar ályktanir þar að lútandi.