16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það eru aðeins nokkur orð, sem ég þarf að svara og leiðrétta.

Ég gleðst af, því,. að hv. 1. þm. Reykv. er svo lítillátur, að hann er ánægður með sitt starf í milliþn. í skatta- og tollamálum. Það er gott að vera ánægður með það, sem lítið er. Annars skilst mér, að hvorki hann eða sumir aðrir hafi skilið, við hvað ég miðaði, þegar ég sagði, að sú breyt., sem gerð var á húsaleigul., gæti orðið til verulegrar hækkunar á vísitölunni. Þegar ég sagði það, studdist ég við grg., sem fasteignaeigendafélag Reykjavíkur sendi öllum hv. þm. Þar töldu þeir viðhaldskostnaðinn 23,5% af ársleigutekjum húsanna. Grunnvísitalan, sem byggt er á, er miðuð við 1939 og húsaleigan er um ¼ hluti af heildarútgjöldunum 1939.

Í þessari grg. segja þeir enn fremur, að viðhaldskostnaður hafi hækkað, þegar þeir tala um þetta, sem er í apríl s. l., um fulla 100%. Og nú var mér sagt fyrir fáum dögum, að hann mundi hafa hækkað upp í 135%. Ef þessi kostnaður hefur hækkað úr 100% upp í 135%, miðað við 100% 1939 og það er athugað, hvaða áhrif það hefur á vísitöluna, þá munu menn komast að raun um, að þetta verkar þannig á vísitöluna að hækka hana um 5–6–8 eða jafnvel 10 stig. Það var þetta, sem ég sagði, en ég held, að hv. þm. hafi ekki skilið rétt hjá mér.

Þá var það hv. 2. landsk., sem hélt því hér alveg blákalt fram, að það, hvað afurðaverðið hafi verið sett hátt í haust, hafi orðið til þess, að ekki aðeins full dýrtíðar uppbót hafi verið greidd á kaup um síðustu áramót, heldur hafi það einnig haft áhrif á grunnkaup manna hingað og þangað. Hann hélt því einnig fram, þessi hv. þm., að afurðaverðið hefði verið sett svo hátt, að bændur hefðu verið búnir að fá meira en fulla dýrtíðaruppbót, og þá hefði verið eðlilegt, að verkamenn hefðu fengið hana líka.

Mjólkin er borguð mánaðarlega. Þess vegna er hún spegillinn af því, hvaða verðhækkun á afurðir bænda hafa orðið. Það þarf því ekki að taka tillit til annars en yfirstandandi tíma, þegar mjólkurverðið er sett. Meðalvísitala kauplagsn. árið 1940 var 132, miðað við 100 þrjá fyrstu mánuði ársins 1939. Miðað við sama tíma hækkaði mjólkin úr 100% 1939 upp í það að vera 129% til bænda 1940 að meðaltali. Hvor talan er nú hærri, 132 eða 129? Ég álít því, að mjólkin hafi ekki hækkað að fullu, miðað við vísitöluna. Hins vegar hækkaði kaup verkafólks það ekki heldur, því þá var einungis greitt 75% af vísitölunni sem hækkað kaupgjald: Mjólkurhækkun er því mitt á milli og sízt of há, þegar þess er gætt, að kaup í sveit hækkaði heldur 1940.

Hvað kjötið snertir, þá er þar um allt annað viðhorf að ræða. Það er lagt inn á haustin, og bændur hafa enga peninga til þess að borga þarfirnar til næsta hausts aðra en þá, sem þeir fá fyrir kjötið og gæruinnleggið. En kjötið hækkar ekki eins og aðrar vörur, eftir vísitölunni mánaðarlega til bænda. Það er gert ráð fyrir, að úr Bretasjóði komi uppbót á kjöt, og ég vona, að hún verði það há, að það kjöt, er út var flutt, nái sama verði og það, er selt var í landinu. Ef þetta verður, geri ég ráð fyrir, að verðvísitala kjötsins til bænda verði 146, eða nokkru hærra en dýrtíðarvísitalan. Og þegar tekið er tillit til þess, að þetta kjötverð á að vera bændanna kaup fram á næsta haust, þangað til þeir næst fá kjöt til að selja, þá geri ég ráð fyrir, að hv. þm. sjái, að þarna var líka stillt í hóf. Það er því ekki hægt að halda því fram, að hækkun á kjötverðinu 1940 hafi haft þau áhrif, að kaupgjald hafi þurft að hækka þess vegna. Að halda slíku fram er ekki annað en tylliástæða eða að það er byggt á misskilningi. Þeir, sem hafa haldið fram, að kjötverðið hafi verið of lágt, hafa meira til síns máls heldur en hinir, sem segja, að það hafi verið of hátt, enda þó ég kannist ekki við það, að kjötverðið hafi ekki verið ákveðið með beggja hag fyrir augum, neytenda og seljenda.

Þá veik hv. þm. að því, að ég hefði sagt, að meðaltalstekjur verkamanna 1940 hefðu verið 6–8 þús. kr. Ég sagði það ekki: En ég fór yfir alla, er áttu A í framtölum fyrir Reykjavík, og ég sá, að þar voru þessar tölur algengastar. Hver meðaltalstalan er, læt ég ósagt. En árið 1933 voru 1880 kr. meðaltekjur verkamanna hér. Og ef þessar tölur; hvorar fyrir sig, eru bornar saman við hlutfallið milli tekna bænda á þessum tímum, 1933 og 1940, þá er munurinn á kaupi þessara stétta augljós. Meðalbóndi hefur 67 lömb á ári og á 3½ kú og mjólk úr þeim. Það er ekki meira, sem meðalbóndi á landinu hefur. Tekjur af þessu voru árið 1933 um 2400 kr., en árið 1940 nær 6000 kr. Þetta er nettóhækkunin.

Þá vil ég aðeins víkja að því, af því að það hefur hvað eftir annað komið fram hér á Alþ., og síðast hjá hv. 1. þm. Reykv., og líka hefur það komið fram í sameinuðu Alþ. hjá hv. þm. Vestm., að þeir eru að glósa um það, að það, hvernig búskapurinn boraði sig nú, sérstaklega

í Borgarfirði, væri að einhverju leyti mér að kenna. En aldrei hafa þessir herrar þorað að segja, hvað þeir eiga við. En þeir eru að flíka með það og reyna að kenna mér um, að sauðfjársjúkdómarnir hafi borizt til landsins. Munu þeir þar eiga við, þegar flutt var inn karakúlféð. Ég var með því, þegar ég var spurður um það, að það væri flutt inn. En ég taldi rétt að gera það þannig, að flytja þetta fé til Málmeyjar eða annarrar byggðrar eyjar, og hafa það þar með íslenzku fé til þess að rannsaka, hvort veiki væri í því og gera tilraunir með það, hvort það mundi verða hagnaður af því að flytja það inn í landið eða ekki. Þegar þessir menn næst tala um mínar tillögur um innflutning þessa fjár, þá ættu þeir að taka þetta fram jafnframt, og svo athuga, Hver skaði hefði orðið, ef mínum ráðum hefði verið fylgt.