16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Jóhann Jósefsson:

Ég var einn af þeim mönnum, sem voru í 6 manna n., og hef því komið dálítið við sögu þessa máls. Ég hélt því alltaf fram í þeirri n., og einnig á fundum í stjórnarráðinu, þar sem n. var kölluð til umr. um málið, og því sama hef ég haldið fram á fundum Sjálfstfl. hvað eftir annað, að ég treystist ekki til þess að greiða atkv. með 10% álaginu á útflutningsgjaldið. Nú skal ég við þetta bæta því, vegna þess að brtt. hv. 1. þm. Reykv. mundi hafa fullnægt mínum óskum í þessu efni, að jafnvel þótt hún hefði ekki náð fram að ganga, þá hefði ég haft tihneigingu til þess, af því að ég vil ógjarnan ganga á móti málinu, að vera þrátt fyrir það með brtt. hv. 10. landsk. og hans skilgreiningu á því, hvenær og í hvaða falli 10% gjaldinu skuli beitt, nefnilega þegar um er að ræða heilar farmsölur togara eða sölu annarra fiskiskipa, svipaðar þeim, og sem hafa gefið tilefni til þess, að þessu gjaldi er nú beint að útveginum svo að segja eingöngu. En ég hef enn ekki orðið var við það, að það hafi verið tekið undir þessa hans till. eða skýringu og skilgreiningu hans á þessu. En ef svo hefði verið, mundi það hafa getað sætt mig mikið til við þetta mál.

Að lokum vil ég segja það, að ég er svo alveg stórsleginn furðu af ræðum sumra hv. þm. hér í þessu máli, sem fjallar um skattaálagningar sem nema mörgum millj. kr., og sumir hafa sagt, að þetta frv. væri komið upp í eins háa upphæð og fjárl. Það, sem mig furðar svo mjög, er, að sumum hv. þm. fallast hendur um það að láta koma fram breyt. á málinu frá þessari hv. d., vegna þess að þeir halda, að málinu sé stefnt í hættu, ef það er ekki afgr. næstum að segja á þessum klukkutíma. Það er hægt að afgr. þetta mál, þó að því væri breytt hér í hv. d., með því að þingið stæði einum degi lengur, sem ég teldi nú enga goðgá, þegar um þetta stórmál er að ræða. Mér finnst, að svona málsmeðferð og ræðuhöld hljóti að rýra ákaflega mikið álit manna á lýðræði og þingræði, ef þannig má haga gerðum og framkvæmdum í svona stóru máli, að önnur d. þingsins telji sig komna í þá kví, að hún geti ekki hreyft svo mikið sem einn staf í frv., jafnvel þó að þeir sömu menn, sem viðhafa svona ummæli, telji æskilegt, að brtt. gangi fram við frv., eins og kom fram hjá hv. þm. Hafnf. Það liggur ekkert fyrir um það, að hæstv. ríkisstj. hafi þvingað þessa menn. Og hæstv. forsrh. hefur beinlínis tekið það fram, að hann vildi ekki beita sér fyrir neinni slíkri þvingun, svo að þar með er sýnt, að því er ekki til að dreifa. Þess vegna á ég enn þú bágara með að skilja þá afstöðu, sem þessir hv. þm. taka.

Það verður þá að vera svo, að þessi atvinnugrein verði að sætta sig við, að hennar málstað verði gerð þessi skil. Það verður ekki hjá því komizt, ef meiri hl. d. er alveg ófáanlegur til þess að gera nokkra leiðréttingu, sem ég teldi, að mundi fást með því að samþ. aðra hvora þeirra brtt., sem ég hef lagt hér fram. En ég ætla að bæta því við, að þrátt fyrir það, að svo fari, mun ég leggja fram brtt. við 9. umr. þessa máls, þar sem enn verður gerð tilraun til að rétta við hag smáútvegsmanna, sem hafa orðið að bera byrðar fyrir stórútgerðina mánuðum saman, meðan hægt var að fá fé í þetta, en nú fást menn ekki til að gera neina leiðréttingu á þeim skatti, sem nú á að leggja á herðar þeim útvegsmönnum, sem margir hafa af litlum gróða að miðla.