17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Magnús Jónsson:

Það þýðir víst lítið að bera fram brtt. við málið, þar sem það virðist vera öllum rökum ofar, að þessi d. megi engu breyta. Ég vil benda hv. þm. á það, hvað í þessu felst. Það þýðir bara það, að þessi d. afsalar sér öllum afskiptum af þessu máli og er ekkert annað að gera hér en að leika skrípaleik, því ég veit ekki, hvað umr. í d. hafa að þýða, ef svo atkv. stjórnast að lokum af því, að ekki megi breyta neinu. Það er sjálfsagt ánægjulegt að lesa ræður, en þær eru þýðingarlausar fyrir málið, ef þær eiga engu að ráða um úrslitin. Það sjá allir, hvert með þessu er stefnt.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að málinu væri stefnt í hættu, ef brtt. eru samþ., en ég vil segja það, að ef málið dagar uppi fyrir það, að brtt. eru samþ., þá ber enginn annar ábyrgð á því en hæstv. ríkisstj., því vitaskuld er það á valdi hennar að halda þinginu þangað til málið er afgr., ef henni er nokkurt áhugamál, að það verði afgr. Og það væri eiginlega gaman að vita, hvað sagan segir um svona viðburði í einu af stærstu málunum, sem líklega sjást ávextir af í nokkuð mörg ár, — að það hafi í upphafi fengið slíka afgreiðslu af því að þm. vildu ekki af einhverjum ástæðum vera einum degi lengur á þingi. Hvað ætli menn segi um þetta á eftir, þegar menn eru ekki alveg eins þreyttir og nú? Ég held það þyki undarleg framkoma hjá löggjafarþingi þjóðarinnar. En það getur verið, að maður eigi að hugga sig við það sama, sem fram kom í máli hér á undan, að enda þótt við afgr. málið eins álappalega eins og verkast vill, geri það ekkert til, því að stj. setji bráðabirgðalög. Það er séð, hvernig er að treysta hinni d., að hún tekur vel undirbúin mál héðan og setur inn í þau endileysur, svo að breyta þarf 1. aftur með bráðabirgðal. Það er ekki furða, þó að við eigum að afhenda málin annarri d., sem svona fer að.

Ég bar fram brtt. við 2. umr. og minntist á í sambandi við hana, að ef ríkisstj. þætti ástæða til að afla sér frekar heimilda áður en mjög langt líði, þá væri alltaf á valdi hennar að kalla saman þing. Ég taldi ekki líklegt, að þess þyrfti, því að ég gæti búizt við, að ef frv. hefði verið einskorðað við það, sem allir telja aðalatriðið, að berjast á móti dýrtíðinni, þá myndu 5 milljónir nægja. En mér finnst mikil ástæða — eins og frv. þetta verður afgr. —, að þingið fái að fjalla um málið ekki síðar en í haust aftur. Ég vil því bera fram brtt. um, að við 8. gr. bætist : „Og gilda til ársloka 1941“. Þetta felur ekki annað í sér en það, að þegar ríkisstj. er byrjuð að framkvæma málið, — ég vil segja, þegar ríkisstj. er byrjuð að undirbúa málið, því að það er samþ. nú óundirbúið, — þá komi þingið saman til að fjalla um málið, áður en lengra er haldið. Ég mun afhenda hæstv. forseta till. og biðja hann að leita afbrigða um hana, og tel ég skylt að veita þau, þar sem málið er keyrt svo hratt í gegnum deildina.

Ég vil svo eins og mitt „testamentum“til þessa frv., áður en það er afgr. sem 1. frá Alþingi, aðeins segja það, að mér virðist það vera eins konar „láns- og leigufrv.“ Það felur stj. fullkomið einræði í þessum málum, sem eru svo víðtæk, að margt má undir þau draga. Þarna er heimiluð upphæð, sem að vísu er ekki alveg eins há og öll upphæð sjálfra fjárlaganna, og hefur stj. nokkurn veginn óbundnar hendur um, hvernig hún úthlutar. En það er bara sá stóri munur á þessari fjárhæð og fjárhæð fjárl., að þessarar sér hvergi stað. Það á ekki að byggja nokkra vegi, ekki nokkra brú, engan vita, enga höfn, ekki að halda fyrir hana skóla eða sjúkrahús, ekki að styðja listir og vísindi. Allt þetta fé, fast að því eins og fjárl.upphæðin, á bara að fara í þessar framréttu hendur, þessa hít, sem ríkisstj. á að ausa peningunum í. Ég vil ekki neita því, að nokkur ástæða sé til að gera einhverjar ráðstafanir í þá átt, sem hér er um að ræða. En mér finnst, að þessi 20 ár, síðan ég kom á þing, hafi aldrei verið frv. afgr. líkt þessu, aldrei jafnstórt og viðurhlutamikið mál afgr. með jafnalgerlega ónógum undirbúningi. Og ég vil svo að lokum bara spyrja: Ef þörf er á því núna, eftir að nýlega er endað það ár, sem allir játa, að er eitt hið mesta uppgripaár, sem okkar þjóð hefur nokkurn tíma lifað, sérstaklega til sjávar og líka til lands, og meðan sú velmegun ríkir, hvort sem hún nú er fölsk eða rétt, — ef þm. álíta, að þá þurfi fyrst að spandera þeim peningum, sem eru saman sparaðir af stórum sköttum frá árinu, sem leið, og síðan leggja á stórkostlega skatta í viðbót, — til hvers ætla menn að grípa þegar mögru árin koma? Þá má búast við að verða að fara að klífa niður brattann, og hefði ég haldið, að menn hefðu ekki neitt á móti því, frekar en forðum í Egiptalandi, að eiga nokkurt korn í hlöðunum. En menn virðast ekki hugsa þannig nú. Nei, ölvunin er á hámarki, og þá spara menn ekki venjulega. En þegar svo erfiðleikar koma og atvinnuleysi og ill afkoma steðja að, þá verða færri úrræðin.