17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég hef hlustað með mikilli þolinmæði á það, sem sagt hefur verið um þetta mál í nótt, og ætla ekki enn, fremur en áður, að svara þeim fjarstæðum, sem sumir hv. þm. hafa látið sér um munn fara. En ég vil aðeins, út af því, að hv. 1. þm. Reykv. hefur síendurtekið það hér, að þetta mál hafi verið illa undirbúið, alveg sérstaklega minna á það, til þess að það standi í þingtíðindunum ómótmælanlegt, að þetta mál var til meðferðar í þingflokkunum og stj. í marga mánuði: Fyrir þing var lögð fram í ríkisstj. skýrsla um þetta mál, sem hefur verið undirstaða að þeirri athugun og tillögum, sem gerðar hafa verið síðan. Og það er nokkuð hart að heyra því haldið fram, að mál, sem fengið hefur slíka meðferð, sé illa undirbúið. Ætlast ég til þess, að hv. þm. leiki sér ekki að því að eyða nóttum hér á Alþ. með fjasi af þessu tagi.