17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Magnús Jónsson:

Mér þykir leiðinlegt, að báðir þeir ráðherrar, sem ég vildi gjarnan tala við, hafa nú vikið þarna til hliðar. Ef „aukaþinginu“ þarna inni skyldi vera lokið, munu þeir heyra mál mitt. Það má náttúrlega segja, að engri þvingun hafi verið beitt, eins og hæstv. forsrh. hefur tekið fram hvað eftir annað, að hann vilji ekki gera. En tveir þm. hafa lýst yfir, að það hafi ráðið þeirra afstöðu, að ófært væri að samþ. brtt. vegna eindaga málsins.

Út af undirbúningi málsins vil ég segja við hæstv. forsrh., sem ræddi þetta stillilega og taldi undirbúninginn góðan, það hefði verið rætt í flokkum allt þingið. Hvernig stendur á því, að nú fyrir fáum dögum, um hvítasunnuna, var fyrst skipuð n.? Og það er hún, skilst mér, sem fer að banga og klambra saman till., sem ekki eru till., heldur bara svona kastað fram ýmsu, sem þyrfti að taka fram í málinu. Það er fyrst eftir hvítasunnu, sem eitthvað kemur fram. Ég veit ekki, hvort framsóknarmenn hafa haft eitthvert leyniplagg; en það eru ekki lagðar fyrir till. fyrr en 6 manna n. kom með sínar. Og ég vil segja það, að þó að málið sé hér rætt, þá neitaði ég fyrir mitt leyti að fara í þessa, n., af því að ég álít ekki, að það sé það, sem mest þyrfti að gera, að spjalla um málið, heldur þyrfti að rannsaka það og fá upplýsingar.

Ég veit varla, hvað var í hæstv. forsrh. út af þessu máli. Það var að heyra, ekki aðeins, að ekki mætti samþ. brtt. við frv., heldur var hreytt í okkur ónotum fyrir að vera yfir höfuð að tala um málið. Því ekki þá að svipta þm. málfrelsi og koma svo saman, eins og í vissu landi, til þess að hlusta á lög, sem eiga að verða samþ. Hve lengi eru þessar umr. nú. búnar að standa? Allar umr. um málið í þessari hv. d. hafa verið háðar á einum eftirmiðdegi og fram eftir nóttunni á eftir, það er allt og sumt, sem umr. í þessari hv. d. hafa staðið um þingsins langstærsta fjármál, annað en fjárl. En úr því undirbúningur málsins er svo góður, að ekki þykir þörf á lengri umr. hér í þessari hv. d. um málið, þá dettur mér í hug að spyrja um nokkur atriði, sem mér þætti æskilegt að fá upplýst. Hve mikið fé er áætlað, að þurfi á einu ári til þessara aðgerða? Hve mikið er áætlað til þess að gera hvað fyrir sig af því, sem á að framkvæma? Hve mikið er áætlað t. d., að þurfi til þess að bæta upp mjólkurverðið, ef á að haldast sama verð á mjólkinni? Hvaða vörur á að verðbæta af útflutningnum, og hve mikið fé er áætlað, að þurfi til þess? Hve mikið býst hæstv. ríkisstj. við, að muni verða hægt að lækka farmgjöldin? Hve mikið álítur ríkisstj., að sé hægt að lækka vöruverð með strangara eftirliti með verðlagi á útlendum vörum? Hverju álítur ríkisstj., að tekjuskatturinn þessi nýi, hvort sem hann hefði verið tekinn eftir fyrri till. í upphaflega frv. eða eftir tekjuskattsviðaukanum, mundi — nema? Hversu hátt verður útflutningsgjaldið? Er ríkissjóður fær um að greiða þessar 5 millj. kr. af tekjum ársins 1941? Í hvaða vísitölu ætlar ríkisstj. að halda dýrtíðinni? Ég held, að ég gæti haldið áfram að telja svona upp blaðsíðu eftir blaðsíðu af spurningum. Það er engri af þessum spurningum svarað, — engri. Málið er aðeins sett fram á þessa leið: Það er þörf á að afla mikils fjár — heilmikils fjár, eins og hæstv. viðskmrh. sagði í sinni fyrstu ræðu. En hve mikils fjár er þörf og hve mikið fé fæst og til hvers á að nota það, það er ekki upplýst. Og það er ekki gaman að spjalla um þetta málin. og á þingi með þessum forsendum. Mér fannst það, satt að segja, nokkuð stíft hjá mér að líkja þessu frv. við láns- og leigufrumvarpið í Bandaríkjunum. Og mér þykir því dálítið merkilegt, eða einkennilegt, að hæstv. forsrh. hefur nú játað, að þetta sé svipað. Láns- og leigufrv. er neyðarráðstöfun stórveldis; sem fer í stríð upp á líf og dauða. Rómverjar fólu einum manni diktatorsvald, þegar mikil hætta steðjaði að þjóðinni, er varðað gat líf hennar og sjálfstæði. Og ég man nú ekki, hve margar vikur láns- og leigufrv. tók í Bandaríkjunum. Það var ekki hespað af á einni nóttu. Afgreiðsla þess stóð yfir vikum eða mánuðum saman. En hér má helzt ekki í þessari hv. d. samþ. eina einustu brtt.; hæstv. forsrh. vill reyndar ekki beinlínis lýsa yfir, að hann sé á móti því. En það á nú að slíta þinginu á morgun (eða má nú orðið segja í dag), og það er því ekki fært að breyta neinu. Þetta er hljóðið í hæstv. ráðh. og fleiri hv. þm. Þetta frv. hefur verið lagt fyrir þessa hv. þd. upp á punt, — því að málið á að vera svo ákaflega vel undirbúið, — til þess að fullnægja formsatriðum. En það liggur ekkert fyrir af upplýsingum. Bara ekkert.